31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

28. mál, kosningar til Alþingis

Hermann Jónasson:

Ég hef ekki getað orðið sammála meiri hl. allshn. um brtt. á þskj. 161. Eins og gengið er frá ákvæðinu til bráðabirgða í Nd., er gert ráð fyrir því, að tveir kjördagar séu hafðir, þó ekki í þeim kjördeildum, sem eru innan kaupstaðar eða kauptúns, og ef öll kjörstjórnin er sammála og allir frambjóðendur eða umboðsmenn þeirra, sem mættir eru, samþykkja, má kjörstjórn þegar kosningu er lokið hinn fyrri kjördag, ákveða, að eigi skuli fleiri kjördagar vera í kjördeildinni, enda sé kjörbókin undirrituð af frambjóðendum og umboðsmönnum, sem samþ. hafa. Hafi 80% eða fleiri af kjósendum í kjördeildinni kosið eða fengið vottorð samkv. 85. gr., nægir einróma samþykki kjörstjórnar til slíkrar ákvörðunar.

Ég held, að með þessu ákvæði hafi verið komið í veg fyrir það, að hægt sé að sýna hlutdrægni í kosningunum í haust. Ef 80% kjósa, er kosning allalmenn, og ekki heldur hægt að hafa einn kjördag, nema allir aðilar séu því samþykkir. Hv. Nd. hefur séð það, að nauðsyn bar til að setja þetta bráðabirgðaákvæði í frv. vegna kosninganna í haust. Ég fullyrði, að þeir, sem búa á Suðurlandi, og þeir, sem búa við sjó, gleyma því annað veifið, hve miklir erfiðleikar geta verið í sveitinni að sækja til kjörstaðar, og á þessum tíma eru jafnmiklar líkur til þess, að ófært veður verði til þess að komast á kjörstað, og ég hef ekki svo sjaldan ferðazt um sveitakjördæmi á þessum tíma árs, að ég viti ekki, að það er þá oft ófært fyrir mikinn hluta kjósenda að komast á kjörstað. Mér virðist líka meiri hl. allshn. fallast á það í orði, að kjördagar verði tveir. En fyrir þessu hugsar meiri hl. á þann hátt, sem ég get alls ekki fallizt á og kemur fram í þeim brtt., er hér liggja fyrir, sem gefa opna leið fyrir stórkostlegt ranglæti, ef að l. verða, eins og ég skal sýna fram á. — Í brtt. felst það, að undirkjörstjórn geti, sé hún því sammála og því sé ekki mótmælt af frambjóðendum eða umboðsmönnum þeirra, framlengt kosninguna, ef illviðri eða ófærð hindri eðlilega kosningu í einhverri kjördeild, og skuli þá kjörfundur boðaður á ný samkv. fyrirmælum 134. gr.

Nú er auðsætt í fyrsta lagi, að ef kjördeild skyldi samþykkja, að kjördagar verði tveir sökum óveðurs, eins og gert er ráð fyrir, að þeir geti orðið, þá er þar með ekki sagt, að hægt sé að koma því til fólksins, að þeir verði tveir. —Við getum líka hugsað okkur það, að á kjördag sé stormur, hellirigning eða slydda eða m. ö. o., að veðrið sé þannig, að fólkið hugsi sem svo: Kosningarnar hljóta að verða framlengdar til næsta dags. (SÁÓ: Vill ekki hv. ræðumaður athuga 134. gr.?). Ég þarf ekki að athuga hana til þess að sjá, að þetta getur hent sig. — Og því verði kjósendur margir hverjir rólegir á kjördaginn, en komi síðan á kjörstað næsta dag, en þá sé allt lokað og læst og kosningum þegar lokið.

Svo er annað. Við skulum segja, að einn frambjóðandinn eigi fylgi nálægt kjörstað og geti því komið öllu sínu fólki á kjörstað. Það gætu og legið aðrar ástæður til þess. Hann gæti t. d. átt betri bílakost til þess að koma kjósendum á kjörstað. Um kvöldið er sama sem ekkert komið af kjósendum andstæðingsins. Þá á það að vera undir honum komið, sem hefur fengið flest af sínum atkv., hvort kosningunni skuli haldið áfram eða ekki. — Svo mikið er víst, að Alþ. getur undir engum kringumstæðum verið þekkt fyrir, að annað eins og þetta geti náð fram að ganga.

Og í þriðja lagi: Það getur staðið þannig af sér, að frambjóðandi eins flokks getur átt þetta 2, 3 og 10 atkv. í einni kjördeildinni, — ég hef um 3 dæmi í huga við fljóta umhugsun —, og annar frambjóðandi haft um 200 atkv. í kjördeildinni, þá á það að vera lagt á vald frambjóðanda eða fulltrúa hans, hvort margt fólk fær að kjósa eða ekki.

Ég hef ekki séð þessi ákvæði fyrr en í dag og hef í fljótu bragði séð þessa þrjá megingalla á brtt. um þetta atriði, sem er fullkomlega nóg til þess, að Alþ. á á engan hátt að sjá sér fært að ganga inn á þetta, sem yrði til þess að bjóða hlutdrægninni og ranglætinu heim.

Vitanlega er ég og ósammála því að fækka meðmælendum í tvímenningskjördæmum, og ég tel ástæðulaust að vera að ýta undir framboð í tvímenningskjördæmum, ef ekki er hægt að fá 18 meðmælendur.

Að lokum vil ég jafnframt segja það, að ég er ósamþykkur því að fella niður ákvæði, er kom frá Nd., um, að atkvæðagreiðsla megi ekki standa lengur en til kl. 12 á miðnætti. Með brtt. er opnaður möguleiki fyrir alla kaupstaði að hafa kjördaga tvo, ekki til bráðabirgða eins og í sveitunum, heldur um ótakmarkaðan tíma, því að það er vitanlega hægt að haga því svo í kaupstöðunum, að verið sé að kjósa alla nóttina.

Ég er því undrandi yfir því, að meiri hl. allshn. skuli á sama tíma sem hann er að mæla á móti því, að kjördagar í sveitum séu hafðir tveir til bráðabirgða, þá er hann að opna leið fyrir alla kaupstaði að hafa tvo kjördaga um ótakmarkaðan tíma, þar sem það er vitað mál og augljóst, að miklu erfiðara og tafsamara er að sækja kjörstað í sveit en í kaupstað.