31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

28. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Ég hygg, að það hefði verið að vissu leyti heppilegra, ef hv. þm. Str. hefði tekið þátt í athugun á þessu ákvæði til bráðabirgða í n., vegna þess að þá hefði ekki verið útilokað, að samkomulag hefði getað orðið um millileið í þessu. Samkomulag hefði þá ekki orðið út af misskilningi, sem á sér stað um þetta. Hann gerði ráð fyrir því í ræðu sinni, að menn gætu komið að lokuðum dyrum kjördaginn. (HermJ: Ég er búinn að sjá ákvæði um það). Eins er það, sem hann setti mest út á, að frambjóðendum eða umboðsmönnum þeirra væri gert mögulegt að hindra kosningu síðar. Þetta fannst mér hann leggja áherzlu á. Ég vil segja, að ef þetta sjónarmið hefði komið jafnskýrt fram í n. eins og hjá honum nú í umr., getur verið, að það hefði verið tekið upp í n. ég skal ekki um það segja. Nú hefur komið fram brtt. um það frá hv. þm. Barð. (GJ) að fella þetta ákvæði niður, og getur verið, að fleiri hv. þm. séu þeirrar skoðunar, að það væri heppilegra að fella það niður. Ég fyrir mitt leyti er engan veginn lokaður fyrir þeirri hugsun, sem í þessu felst. Ég gæti hugsað mér samkomulag á þessum grundvelli. Og m. a. til þess að athuga það, vildi ég fyrir hönd n. mælast til þess, að þessar brtt. verði teknar aftur til 3. umr. Og ég lýsi yfir, að brtt. við bráðabirgðaákvæðið er tekin aftur til 3. umr., þ. e. 3. brtt.

Að lögboðnir séu um alla framtíð 2 kjördagar í kaupstöðum, þó að brtt. 161,2 sé samþ., er hrein fjarstæða. Það er náttúrlega hægt fyrir menn að mála mynd af ónefndri persónu á vegginn, ef menn vilja í þessu sambandi. En ég veit, að það hefur verið svo, að kosningu hefur aldrei verið lokið fyrir kl. 12 á miðnætti hér í Rvík, og hefur það þó aldrei leitt til þess, að kjördagar hafi orðið tveir fyrir það. Enda mundi sýnu hægara að „organisera“ kosningu í sveitum heldur en í kaupstöðum í þessu skyni, ef vilji til þess væri fyrir hendi. Annars legg ég ekkert sérstaklega mikið upp úr því, hvort kjörfundi er slitið kl. 1 á miðnætti í kaupstöðum eða ekki. En ég tel það yfirganganlegt ósamræmi, þegar viðvíkjandi kosningunum í haust eru ákveðnir tveir kjördagar fyrir sveitirnar, ef á þarf að halda, en jafnframt er lagt til, að fyrirskipað verði fyrir ótiltekna framtíð að loka kjörfundi kl. 12 á miðnætti í kaupstöðunum, t. d. hér í Rvík, þar sem eru um 2o þús. kjósendur. Saga þess, hvernig þessi till. er til orðin, er sú, að Sigurður Jónasson hélt, að sinn hlutur yrði betri við kosningarnar, ef lokað væri kl. 12, en þá till. tók kjörstjórn ekki til greina. Svo hefur einhver vinur hans tekið upp hans hlut með því að taka upp þessa firru hans hér í þinginu. En það er vitanlega alveg sjálfsagt að hafa kjörfund opinn svo lengi sem eftir núgildandi l. er nægileg kjörsókn til þess, hvort sem heldur er í sveit eða kaupstað. Og reynslan í mjög kappsömum kosningum hefur hvað eftir annað sýnt, að þessu atriði er engin hætta samfara. En eins og ég segi, legg ég ekki mikið upp úr því, hvort ákveðið er að loka kjörfundi í kaupstöðum kl. 12 á miðnætti eða ekki. En þar sem þessi till. er flutt til þess að koma fram réttar skerðingu gagnvart kaupstaðabúum, er ekki ástæða til að taka það sem góða og gilda vöru og sætta sig við það.

Nú, varðandi það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, þá er það rétt hjá honum, að það er hugsanlegt, eins og ákvæðin eru, að þm. verði bæði kjörinn sem aðalþm. og að annar komist að sem uppbótarþm. úr tvímenningskjördæmi frá sama flokki. Þetta hefur skeð áður. Mig minnir, að þetta kæmi fyrir í Skagafirði árið 1934. Tveir frambjóðendur Sjálfstfl. voru kjörnir ásamt einum framsóknarmanni. Annar sjálfstæðismaðurinn komst að sem kjördæmakosinn, en hinn sem uppbótarþm. Ég sé ekkert athugavert við þetta. Það gefur að skilja, að þm. er ekki kosinn, nema þær lýðræðisreglur, sem verið er að setja, gefi tilefni til þess. Ef aðrir þm. fá hærri atkvæðatölu, eru þeir kosnir. Þess vegna er lýðræðinu algerlega fullnægt. Það eru ekki sérlega miklar líkur til þess, að þm., sem býður sig fram í tvímenningskjördæmi, nái kosningu, ef annar er kosinn fyrir það kjördæmi af þeim lista. Ef það kemur fyrir, er það vegna þess, að miðað við önnur kjördæmi er atkvæðatala þeirra svo há, og þá liggur í augum uppi, að hann á að vera kosinn, og það er brot á lýðræðinu, ef hann er það ekki. Og þá, sem beita sér fyrir því, að fámennu kjördæmin fái að kjósa sinn þm. með tiltölulega fáum kjósendum — sem ég er sízt á móti —, en telja þetta brot á móti lýðræðinu, fæ ég ekki skilið, og í dæminu, sem hv. þm. tók af einu kjördæmi, tel ég ekki nema rétt, að það fengi uppbótarsæti, ef talan lægi fyrir. En hann þarf ekki að vera hræddur um þetta. Fyrst er það, að kjósendum fækkar, vegna þess að Siglufjörður er skilinn frá, og auk þess fær sá flokkur, sem kemur til mála, að fái þm. kjörinn og uppbótarþm., ekki þarna svo mörg atkv. miðað við önnur kjördæmi. Það eru þannig sízt nokkrar líkur til þess, þegar tekið er tillit til fækkunarinnar með Siglufirði og færri uppbótarþingsæta, að hér verði neitt það lýðræðisbrot. sem hann aðallega talaði um, svo að ég sé ekki, að þessar aðfinnslur séu réttmætar. Því að það er fyrst og fremst þetta, sem ég benti á, að kjósendum fækkar stórlega, og uppbótarþm. hjá þessum flokki, sem kemur til greina, hlýtur líka að fækka, ef l. eiga að ná tilgangi sínum, og flokkurinn fær kjörna menn í tvímenningskjördæmunum, svo að mér finnst, að hv. 1. þm. Eyf. geti sofið rólegur fyrir því, að það yrði ekki í Eyjafirði, sem sjálfstæðismenn fengju 2 menn kosna í tvímenningskjördæmi, og finnst mér hann hafa litið á þetta af nokkrum misskilningi og sízt mælt þar rök.

Ég get svo látið útrætt um þetta að sinni, þar sem brtt. okkar við ákvæði til bráðabirgða er tekin aftur til 3. umr.