31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

28. mál, kosningar til Alþingis

Hermann Jónasson:

Það hefur komið hér fram sú hugmynd, að ekki mætti loka kjörstað fyrr en eftir kl. 12 í kaupstöðum, vegna þess að það hefði komið fyrir, að skip hefðu ekki komið inn fyrr en kl. 12, en mér skilst, að það hefði getað komið fyrir, að þau hefðu ekki getað komið fyrr en kl. 2 eða ekki fyrr en næsta dag. Það getur eins komið fyrir í sveitum, að bifreið bili. Þetta þarf ekki útskýringar við. Þetta eru ekki rök. Sama er um skíðafólkið, að það komi ekki fyrr en kl. 12, það kemur sjaldan svo seint og mundi alls ekki gera það, ef það vissi, að lokað væri kl. 12. Það er ekki hægt að bera á móti því, að með því, að ekki sé lokað kl. 12, eru tveir kjördagar í hverri kjörsókn. Þessu er ekki hægt að koma við í sveitum, því að ekki mega líða nema 15 mínútur á milli, svo að það mætti æra óstöðugan að haga því svo. En hins vegar má haga þessu svo í kaupstað. Og fyrst það má halda áfram eftir kl. 12, eru ekki nein takmörk fyrir því, hve langt það má halda áfram fram á næsta dag. Þess vegna er það svo, að það eru raunverulega tveir kjördagar í hverjum kaupstað, og þó að ekki sé kosið nema til kl. 2, eru það tveir kjördagar, því að það er komið fram á næsta dag. Næsti dagur er byrjaður, þegar kosning endar. Auk þess er þetta leiðinlegt fyrirkomulag og alls ekki eftir óskum margra kjósenda, því að eftir kl. 12 er byrjað að smala fólki, sem alls ekki ætlar sér að kjósa, og það verður fyrir ónæði. Hins vegar er auðvelt að ljúka kosningunni fyrir kl. 12 á miðnætti, því að víðast er það svo, að þetta er eins og að fara í næsta hús. Það er öðruvísi en að fara margra klukkutíma ferð í vondu veðri á vondum vegum, og auk þess geta ekki allir farið að heiman í einu. Þess vegna er það ranglæti, sem ég trúi ekki, að þessi hv. d. láti frá sér fara, að lögbjóða 2 kjördaga í kaupstöðum, en fyrirbyggja, að tveir kjördagar verði lögfestir í sveitunum fyrir þær kosningar, sem nú eiga að fara fram, og alveg eins má búast við, að verði í vondu veðri.

Mér sást yfir það áðan, að þegar meiri hl. gerir það að till. sinni, að felld verði niður sú heimild, sem er í bráðabirgðaákvæðunum, eins og Nd. gekk frá þeim, að fjölga megi við næstu kosningar kjördeildum samkv. 6. gr. kosningal., þá er það ekki þar með fellt úr frv., og er það á misskilningi byggt.

Viðvíkjandi því ákvæði, sem ég ræddi um áðan, þar sem gert er ráð fyrir þeirri breyt., að boða megi nýjar kosningar samkv. 134. gr., ef kjörstjórn og frambjóðendur eða umboðsmenn þeirra eru á sama máli um að hafa kosningar í tvo daga, var það á misskilningi byggt, sem þrír ræðumenn hafa minnzt á, sem ég hafði tekið eftir, er hv. þm. Barð benti mér á hann og játaði þá. En það er vitanlegt, að ný boð taka svo mikinn tíma í sumum hreppum, að það má heita frágangssök að hafa það fyrirkomulag, og það er sýnilegt, ef ganga á með boðin heim á hvern bæ í stórum hreppi, að ekki er hægt að halda áfram kosningu fyrr en eftir 2–3 daga, því að það tekur þann tíma fyrir kjörstjórn að ná til allra í kjördeildinni, og hygg ég, að þm. frá kjördæmum, sem eru sundurskorin og afskekkt, hljóti að sjá, að þetta er ekki framkvæmanlegt.

Það hefur komið fram hjá hv. þm. Barð., að hann vill fella úr þau ákvæði, að frambjóðendur eða umboðsmenn þeirra geti haft áhrif á, hvort kosningu er haldið áfram eða ekki. Ég álít, að það sé þó til einhverra bóta. Það er auðsætt mál, eins og kom fram hjá öðrum þm., sem fylgir meiri hl. að málum, að kjörstjórnin getur verið skipuð alveg frá einum flokki, og má búast við því, að rökin falli með þeim flokki í þeirra kjördæmi, en það verðum við að viðurkenna, að sé eðlilegt. En ef kjörstjórn er skipuð mönnum frá fleiri flokkum, er það auðsætt mál og þekkist a. m. k., að þessir valinkunnu menn hafa flokkssjónarmið eins og aðrir, og það flokkssjónarmið getur að sjálfsögðu gert sig gildandi og getur ráðið því, ef einn flokkur hefur hag af því, að kosningum sé ekki haldið áfram, að hann geti gert sitt atkv. gildandi í kjörstjórninni um ákvörðun kjörstjórnar og komið í veg fyrir, að kosið verði síðar, þannig að það eru kannske ekki á þessu eins miklir agnúar, ef brtt. hv. þm. Barð (GJ) verður samþ. En þó eru á því fyrirkomulagi agnúar, sem nálgast þá agnúa, sem felast í brtt. 161,3, að frambjóðendur eða umboðsmenn þeirra geti komið í veg fyrir áfram haldandi kosningu. Og hæstv. Alþ. má undir engum kringumstæðum ganga þannig frá ákvæðum, og sízt að öllu um kosningar til Alþ., að hlutdrægni eins manns, ef hún er til staðar, geti ráðið því, að fjölda kjósenda verði sýnt ranglæti. Því að sá stóri munur er á bráðabirgðaákvæðinu eins og það er annars vegar og brtt. hv. þm. Barð. hins vegar, að eftir því, eins og það er, þarf öll kjörstjórn og frambjóðendur eða umboðsmenn þeirra að vera sammála um það, ef ekki á að hafa tvo kjördaga, að hafður sé aðeins einn kjördagur, enda sé fullnægt ýmsum öðrum skilyrðum til þess, að svo geti verið ákveðið. En eftir brtt. hv. þm. Barð. er þessu snúið við, þannig að eftir þeirri brtt. þarf samþykki allrar kjörstjórnar til þess, að kosningu megi halda áfram. Svo að þótt brtt. hv. þm. Barð. væri samþ., er samt eftir möguleikinn fyrir því, að einn kjörstjórnarmaður geti komið í veg fyrir áframhald kosninga. Ef til dæmis þannig hefði viljað til, að kjósendur eins flokks hefðu allir kosið á aðalkjördegi, en samt væru margir eftir á kjörskrá, sem ekki hefðu kosið, þá gæti einn maður í kjörstjórninni komið í veg fyrir, að þessir, sem eftir væru, gætu neytt kosningarréttar síns. Ég sé því ekki, að ákvæðið megi vera um þetta, heldur á þennan hátt, sem í brtt. hv. þm. Barð. er gert ráð fyrir. Ég álít, að þetta ákvæði megi ekki undir neinum kringumstæðum vera með öðru móti heldur en eins og hv. Nd. gekk frá því, þannig að til þess að hætta megi við að hafa tvo kjördaga, þurfi til þess samþykki allrar kjörstjórnar og frambjóðenda eða umboðsmanna þeirra, sem tryggir það, að enginn verður fyrir misrétti. En með því að snúa þessu ákvæði við er því boðið heim, að þeir, sem þykjast standa vel að vígi fyrri daginn, geti komið í veg fyrir, að kosið verði seinni daginn. Og af því að hv. þm. Barð. (GJ) hefur komið með þessa brtt. og ég hygg, að fleiri hv. þm. hugsi á sama hátt um þetta mál, þá vildi ég benda á, að sú breyt., sem í brtt. hans felst, er alls ekki nægileg við brtt. á þskj. 161. Hygg ég, að ég þurfi svo ekki að fjölyrða um þetta frekar, sérstaklega með tilliti til þess, að þessar brtt. verða teknar aftur til 3. umr., og gefst því tími til þess að athuga þær mínar.