31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

28. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Ég þarf ekki að eyða hér löngum tíma, því að hv. frsm. n, svaraði mér í raun og veru alveg út í hött, og býst ég við, að það sé af því, að hann tekur sína afstöðu um brtt. okkar þingmanna Eyf., áður en hann hefur heyrt rökin fyrir henni og skilið efni hennar. Og hann vill ekki genga frá þessari aðstöðu sinni, sem hann hefur tekið. Hann var í svari sínu að reyna að sýna fram á það, að ekkert væri athugavert við það, þó að frambjóðandi í tvímenningskjördæmi yrði uppbótarþm., þó að flokkur hans hefði komið manni að í hlutfallskosningu í því kjördæmi, vegna þess að það væri samkv. þessum l., ef það væri samkv. reglum, sem um það giltu, þá væri það eðlilegt og sjálfsagt og ekkert brot á móti lýðræði. Ég held, að við framsóknarþm., sem erum og höfum verið á þingi, höfum verið kosnir á alveg löglegan hátt. En þegar þingmannatölu hefur verið deilt í kjósendatölu hvers flokks fyrir sig, hefur komið í ljós, að hver þm. Framsfl. hefur haft að meðaltali færri kjósendur á bak við sig heldur en þm. annarra flokka, og hefur þetta því verið kallað lýðræðisbrot. Og af því stafar allt þetta tilstand, sem hér er nú. Mér er nú ómögulegt að skilja það, að það sé ekki sama lýðræðisbrotið, — ef hitt hefur verið lýðræðisbrot, — að flokkur fái 2 þm. kosna á þing af frambjóðendum í einu og sama tvímenningskjördæmi, þó að sá flokkur hafi mun færri atkv. í því kjördæmi heldur en annar flokkur í því sama kjördæmi hefur, sem þó aðeins fær einn þm. kosinn af frambjóðendum þar. Hv. frsm. meiri hl. n. var að minna ú það, að þetta gæti komið fyrir með núverandi fyrirkomulagi og það hefði komið fyrir í Skagafirði, að þar hefði Sjálfstfl. fengið annan þingmanninn kjördæmakjörinn við kosningarnar 1934 og uppbótarþm. að auki úr þessu kjördæmi, og þetta hefðu verið ágætir menn. Ég sé ekki, að það komi þessu máli beint við, hvort þar var um ágæta menn að ræða eða ekki. Það er vilji kjósendanna, sem á að ráða um það, hverjum þeir vilja fela umboð sitt. En bæði er nú það, að þegar þetta kom fyrir í Skagafirði, þá stóð þannig á, að flokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., voru ákaflega líkir að stærð í því kjördæmi — ég hygg að Sjálfstfl. hafi þá haft þar ívíð fleiri kjósendur, þó man ég það ekki fyrir víst — og svo er líka hitt, að þetta stafaði af ranglæti, sem komst inn í kosningal. 1933. Þá átti ég sæti í stjskrn. hv. Nd., sem aðallega fjallaði um það lagafrv. Og eins og n. gekk þá frá því frv. og eins og hæstv. ríkisstj. lagði frv. fyrir, þá var svo ákveðið, eins og líka var alveg sjálfsagt, að við útreikning uppbótarsætanna ætti í tvímenningskjördæmum að deila með 2 í atkvæðatölu frambjóðendanna, vegna þess að flokkurinn fær ekki nema ½ atkv. fyrir hvert atkv., sem frambjóðanda í tvímenningskjördæmi er greitt, þegar báðir frambjóðendur flokksins eru kosnir á sama seðli. Í meðferð þingsins var svo þetta ákvæði fellt burt, og ½ atkv., sem frambjóðendur raunverulega fá í tvímenningskjördæmum, var reiknað sem heilt, þegar um útreikninga uppbótarþingsæta var að ræða. Ef rétt hefði verið farið að í þessu efni og þau atkv. verið látin falla á frambjóðendur, sem flokkunum raunverulega bar, þá hefði þetta ekki komið fyrir í Skagafirði. Svo kemur hitt ekkert málinu við í þessu sambandi, hvort hætta er á því í mínu kjördæmi, að svona fari. Ég veit, að það eru minni líkur til þess, að svona fari, vegna þess að Siglufjörður verður gerður að sérstöku kjördæmi. Og ég geri ráð fyrir, að Sjálfstfl. fái þar (í Eyjaf.) ekki ýkja mörg atkv. En það eru til fleiri tvímenningskjördæmi heldur en Eyjafjarðarsýsla.

En þetta er ómótmælanlegt, að eins og frv. er nú, getur það komið fyrir, að minnihlutaflokkur í tvímenningskjördæmi fái þar tvo þm. kjörna af frambjóðendum þess kjördæmis, en meirihlutaflokkur, eftir sömu reglu reiknað, aðeins 1 þm. kjörinn á þing. Þessu getur hv. 5. þm. Reykv. (BBen) ekki neitað. Og hann skaut sér undan því að svara því, hvort það væri lýðræði, að minni hl. fengi þannig meiri rétt heldur en meiri hl. Er það lýðræði, ef það kemur fyrir í tvímenningskjördæmi, að flokkur fær 1500 atkv. við kosningar, en annar 1000 atkv., að sá flokkur, sem fær 1500 atkv., fái einn mann kosinn, en sá flokkur, sem hefur 1000 atkv., fái tvo þm. kosna fyrir kjördæmið? Því að það hefur sýnt sig, að það er bæði af uppbótarþm. sjálfum og fylgismönnum þeirra í kjördæminu litið svo á, að þeir séu þm. fyrir kjördæmið. Og ég sé ekki nokkra ástæðu til þess fyrir hv. frsm. meiri hl. n. eða aðra hv. þm. að leggjast á móti brtt. okkar Eyf. Því að eins og ég tók fram áðan, raskar þetta ekki á neinn hátt heildarniðurstöðu kosninganna. Ef þessar breyt. verða til þess, sem þeim er ætlað að verða, að hver flokkur fái þm. í réttu hlutfalli við atkvæðamagn sitt við almennar kosningar, þá verður þetta alveg nákvæmlega jafnt fyrir því, þó að brtt. okkar verði samþ. Landsk. þm. eða uppbótarþm. verða aðeins úr öðrum kjördæmum.