02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

28. mál, kosningar til Alþingis

Einar Árnason:

Ég hafði búizt við eftir 2. umr., að meiri hl. allshn. mundi taka aftur brtt. sínar um bráðabirgðaákvæði frv. En það hefur nú ekki orðið. Hv. 9. landsk. (SÁÓ) reyndi allt, sem hann gat, til að tína fram það, sem mælt gæti í móti tveimur kjördögum í sveitum. En þau rök hans voru vægast sagt ekki þungvæg, og það kom fram hjá honum, að hann hefur ekki mikla þekkingu á því, hvernig ástandið er í sveitunum á þessum tíma, sem kosningar eiga að fara fram á.

Ég get vel skilið, að báðir þeir hv. þm., er standa að þessum brtt., þekki ekki annað til kosninga en kosningarnar í Rvík. Ég skal því ekki áfella þá. En þegar búið er með rökum að sýna fram á, að brtt. þeirra eru óheppilegar, þá álít ég, að þeir ættu að taka þær aftur.

Hv. 9. landsk. var að tala um, að hér væri tekin upp einhver stefna. Það er engin stefna, þetta á aðeins að gilda fyrir mestu kosningar. Það er því þvert á móti. Við vorkosningar eru aldrei 2 kjördagar.

Nú dettur mér í hug að bera saman þetta atriði og kosningar til sveitastjórna. Það er kosið á allt öðrum tímum í hreppsnefndir og sýslunefndir en í bæjarstjórnir, af því að kosningar í sveitum eru svo óhentugar um hávetur. Hér er í rauninni hið sama á ferðum, og það er lögfest fyrir fullt og allt.

Hv. 9. landsk. sagði, að menn í sveitunum yfirleitt, sleppa fyrri deginum. Þetta er mesti misskilningur. Ef gott veður er þann dag, þá fara allir, sem geta. Það dettur engum í hug að bíða eftir vondu veðri. Sú mótbára er því einskis virði.

Þá taldi hann, að með þessu móti væri fremur hægt að koma við áróðri og smalamennsku við kosningarnar. Heilaga einfeldni! Ætli það sé þá ekki einnig nóg um smalamennsku og áróður í kaupstöðunum? Og það er ekki hneykslunarefni. Það er orðið svo vanalegt. Eða heldur hv. 9. landsk. þm., að enginn áróður verði í sveitunum um kosningarnar, ef ekki er hafður nema einn kjördagur? Hann talaði um, að það gæti haft ákaflega mikil áhrif um það, hvernig menn sæktu kosningar í sveitum, ef menn færu að heyra úrslit héðan úr Rvík, áður en búið væri að ljúka kosningu í sveitunum. Og fleiri hafa minnzt á það hér, að óheppilegt væri að byrja talningu atkvæða í kaupstöðum, áður en lokið er atkvgr. í sveitum. Ég held, að engin hætta stafaði af þessu. Og svo er annað, sem ég vil benda á við þetta atriði. Hvers vegna er þörf á því í kaupstöðum að vaka alla nóttina við talningu atkvæða? Hvers vegna má ekki bíða með það til næsta dags, þegar fólk yfir höfuð er vakandi? Og ég get ekki séð annað en að kjörstjórar í kaupstöðunum geti ráðið þessu. Ég veit ekki til þess, að það sé fyrirskipað í kosningal., að telja skuli atkvæðin að næturlagi. Það eru engin fyrirmæli um þetta í sveitum eða kjördæmum úti um land, og ég hygg, að það sé heldur ekki í kaupstöðunum. Og ég get ekki betur séð en að kjósendur kaupstaðanna geti tekið á þolinmæðinni alveg eins og fólkið úti um sveitirnar um það að bíða eftir kosningaúrslitunum nokkrum klukkutímum lengur. Og þó að farið væri að telja atkv. í kaupstöðunum kl. 10 árdegis síðari kjördaginn í sveitunum, þá er ekki fjarska mikil hætta á, að það geti haft áhrif á kosningar úti um sveitir. Í fyrsta lagi eru úrslitin ekki komin strax. Og þó að úrslitin séu komin, þá eru þau sannarlega ekki komin inn á hvert heimili úti um sveitir, því að það er ekki sími á hverju heimili í sveit og ekki heldur útvarp á hverju heimili þar. Og ég hygg, að þau heimili séu mörg í sveit, þar sem ekkert útvarp er. Þessi röksemd á móti því að hafa tvo kjördaga í sveit er því einkis virði.

Ég játa fullkomlega það, sem hæstv. atvmrh. sagði, að þetta er bæði aukin fyrirhöfn og aukinn kostnaður í sveitunum að hafa kjördagana tvo. En ég er jafnsannfærður um það, að sveitirnar telja það ekki eftir sér. Og ég er líka sannfærður um það, að það verður gert allt, sem hægt er, ef veður er hagstætt aðalkjördaginn, til þess að lúka kosningu þann dag. Svo á síðari dagurinn eiginlega að vera til vara. Og það er miklu hentugra, að menn geti gengið að því vísu og gefnu, að það verði líka kosið næsta dag, ef þeir fá ekki annað að vita, heldur en að menn séu í óvissu um það, hvort það verði nú kosið einhvern tíma og einhvern tíma seinna, eftir t. d. 134. gr. kosningal:

Ég held, að það sé hugarburður hjá hv. 9. landsk. (SÁÓ), að einhver sérstakur flokkur geti skaðazt á þessu, en annar þá sennilega grætt. Ég bara skil ekki, hvernig hægt er að færa rök fyrir þessu. En það er annað, sem ég get sagt hv. 9. landsk. þm., að ef hans flokkur á eitthvað af atkvæðum í sveitunum, þá mun þeim atkv. áreiðanlega ekki fjölga, ef hann kemur í veg fyrir, að þar megi hafa tvo kjördaga í haust. Því að ég þekki svo vel til í sveitunum, að ég veit, að því er vel tekið þar, að það sé hægt að hafa rýmra um kosningarnar þar heldur en hefur verið.

Það má heldur ekki gleyma því, jafnvel þó að gott veður sé kjördaginn, að um næstu kosningar verður skammdegi á Norðurlandi, eins og hæstv. atvmrh. (MJ) tók fram. Það er mikill munur á því, hvað birtutíminn er styttri þar þá heldur en hér. Og svo er annars að gæta, að fólk þar, sem fátt er í heimili, það þarf að hirða um búpening á morgnana, áður en það fer á kjörstað, og það þarf að komast heim helzt fyrir myrkrið að kvöldinu, af því að það er ekki eftirsóknarvert fyrir gamalt fólk og kvenfólk að þurfa að vera á ferð í kolsvarta náttmyrkri að vetrarlagi. Þetta er sem sé töluvert annað en að keyra um göturnar í Rvík við ljósin, sem þar eru. Og ég vil vona það, af því að hv. 9. landsk. og hans flokkur tapar ekkert á því, þó að tveir kjördagar séu hafðir í sveitum, að hann styðji að því, að þessi brtt. verði tekin aftur. Ég geng út frá því, að brtt. þessi hafi verið borin fram af ókunnugleika og athugunarleysi. Og það er engin niðrun fyrir neinn mann að taka skynsamlegum rökum, þegar þeir fá þær upplýsingar, að þessi mótspyrna gegn því að heimila tvo kjördaga í sveitum, hún er til ógagns, sveitunum fyrst og fremst, og hún er til ógagns þeim mönnum eða flokkum þeirra, sem ekki vilja leyfa þessa tvo kjördaga.