02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

28. mál, kosningar til Alþingis

Páll Hermannsson:

Það er nú búið að ræða svo mikið um þetta mál, að það ætti að vera óhætt að fara að stytta umr. um það. Ég skal því vera fáorður.

Ég þykist sjá fram á það, að ákvæðin um heimild til að hafa tvo kjördaga í sveitum fái að standa óbreytt. Og mér þykir vænt um það vegna þess, að ég álít, að það sé réttlátt. Og mér þykir vænt um það líka vegna þess, að ég þykist alveg vita það, að hv. þdm. vilji gera það eitt, sem rétt er. Ef það misheppnaðist að gera það réttasta í þessu efni, þá hygg ég, að það yrði fyrir ókunnugleika. Og ég skal aðeins í þrem setningum segja, hvers vegna þarf að vera heimild til tveggja kjördaga víða í sveitum landsins. Í fyrsta lagi er dagurinn þá stuttur. Í öðru lagi geta þá kallað að óvenjulegar annir á sveitaheimilum. Og í þriðja lagi getur veður lagt sérstakar hindranir í leið manna.

En nú hafa menn verið að búa sér til ýmiss konar rök fyrir því, að þetta væri ekki svona. T. d. ætla ég, að það hafi verið hv. 9. landsk. þm. (S ÁÓ), sem hér við umr. dró fram hagskýrslur (statistik) frá kosningunum 1919, 1923 og máske fleiri kosningum. Og hann leit svo á, að þær skýrslur sýndu það — það voru haustkosningar — að þá hefði kjörsóknin verið alveg eins mikil í sveitum eins og í kaupstöðum. En þegar litið er á þetta í heild, munar töluvert miklu þar á. 1919 hefur meðaltals kjörsókn í þremur kaupstöðum verið 72%, en hins vegar meðaltals kjörsókn á öllu landinu ekki verið nema 58.2%. Það þýðir það, að meðaltals kjörsókn í sveitakjördæmunum hefur ekki verið yfir 55%. Hins vegar árið 1923 er meðaltals kjörsóknin í 4 kaupstöðum landsins 90%. Það eru 4 kaupstaðir, sem kjósa þá. En meðaltals kjörsókn á öllu landinu er ekki nema 75,6%. Af þessu sést, að það eru ekki eins vel sóttar kosningar í sveitum. Og þó er á það að líta, að við kosningar þessar 1919 og 1923 er heimilt að kjósa heima á heimilum kjósendanna. Og 1923 er sú heimild notuð það mikið, að það eru bara 13% af öllum atkv. á landinu, sem eru greidd utan kjörstaða, aðallega heima á heimilum manna. Og það eru alls konar ástæður færðar fyrir þessum heimakosningum, elli fyrir 2 þús. atkvgr., veikindi og lasleiki fyrir 2 þús. og svo annríki. Og svo er hátt á fimmta hundrað manna, sem kýs utan kjörstaða án þess að gera nokkra grein fyrir hvers vegna. — Þetta hefur mikið aukið þátttöku í atkvgr. í þessum kosningum.

Ég get nú ekki annað sagt við hv. 9. landsk. út af þessum skýrslum, en að það að líta svona gálauslega yfir skýrslur, að manni sýnist kjörsóknin vera álíka í kaupstöðum og í sveitum, eins og hann hefur gert, það getur náttúrlega ruglað menn þannig, að mönnum sýnist ekki þörf á því að létta undir með mönnum úti um sveitir um það að neyta kosningarréttar síns.

Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta meira, nema aðeins benda hv. 10. landsk. þm. (EE) á það, að í einni sveit í mínu kjördæmi eru töluvert á fimmta hundrað kjósendur. Og þar hefur nú fram að þessu verið kosið bara í einni kjördeild. Það er ljótt frá að segja, en það hefur aldrei orðið framkvæmd úr því að skipta hreppnum í fleiri kjördeildir, sem mun stafa af því, að þar er einn ákveðinn staður, sem er aðalmiðpunktur sveitarinnar. Þetta er Vopnafjörður, sem er ein víðlendasta og fjölmennasta sveit á landinu. En ef farið væri að skipta þessari sveit í kjördeildir, þá munu menn vera sammála um það, að ekki kæmi til mála að hafa þær færri en fjórar. Landsháttum er þar svo farið. Það væri því gott að vera laus við það, að dregið verði úr því ákvæði, að hafa megi 4 kjördeildir í einni sveit.

Ég álít annars svo vel búið að upplýsa þetta mál, að frekari umr. um það hljóti að vera óþarfar.