02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

28. mál, kosningar til Alþingis

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Það er nú farið að teygjast nokkuð úr þessum umr. En ég hef orðið þess var, að skeytum hefur verið til mín beint, og ég get ekki látið vera að víkja þeim frá mér og senda þau til föðurhúsanna. Að vísu eru þessar umr. að sjálfsögðu, eins og vera ber, hógværar, og menn rökstyðja sitt mál eins og þeir eru menn til.

Vil ég þá víkja að því, sem hæstv. atvmrh. sagði. Hann vildi mótmæla því, sem ég sagði áðan, að það hefðu orðið nokkur skoðanaskipti hjá hans flokk í þessu máli. Ég benti honum á það í fyrri ræðu minni, sem ég veit ekki, hvort hann hefur heyrt, að allur flokkur hans í hv. Nd. að undanteknum einum eða tveimur, var á móti bráðabirgðaákvæðinu um tvo kjördaga. Því að það munaði aðeins einu atkv. í Nd. að það ákvæði komst inn. Ef maður lítur á meðferð málsins í stjskrn. Nd., því að þar var sérstök n. sett í málið, þá kemur ekkert fram í nál. — ekki frá einum einasta nm. — um það, sem lýtur að þessu bráðabirgðaákvæði um tvo kjördaga. Í þeim brtt., sem sú n. virðist standa öll að, kemur ekkert fram um tvo kjördaga. Ég geri ráð fyrir, að í stjskrn. Nd. hafi málið verið mjög rækilega rætt, og þar áttu allir þingflokkar fulltrúa. En svo kemur það fram, að 4 af hv. þm. Framsfl. bera fram þessa brtt. Sjálfstfl. í Nd. er ekki meira en svo fylgjandi till., að það eru aðeins tveir menn úr þeim fl. með henni, og Alþýðuflokkurinn og sósíalistar eru allir á móti þessu máli í hv. Nd. Undir meðferð málsins hér í hv. Ed. kemur í raun og veru mjög lítið fram um afstöðu flokka til þessa máls við umr. málsins. Þetta atriði er ekki rætt þá, en málið fer umræðulítið til allshn. Og nú, burt séð frá minni skoðun um málið og hvaða skoðun Alþfl. og Sósfl. hafa haft um þetta ákvæði, þá ætla ég að segja hæstv. ráðh. það, að ég hafði fullkomna ástæðu til að ætla, að Sjálfstfl. stæði hér í hv. d. óskiptur á móti þessari till. Og þess vegna er það fullkomlega rétt, sem ég sagði, að það virðast hafa orðið einhver straumhvörf í málinu. Ástæðurnar til þess skal ég ekki rekja. Hæstv. ráðh. getur sjálfsagt gert sér grein fyrir þeim.

En viðvíkjandi ræðu hv. þm. Barð. (GJ) vil ég segja það, að við 2. umr. málsins víkur hann ekki einu orði að því, að hann sé á móti því að vera með þeirri till., sem fulltrúi hans flokks í n. hafði lagt til, heldur vill hann breyta till. í mildara horf með sinni brtt. Þetta gefur mér tilefni til þess að ætla, að hann sé á móti bráðabirgðaákvæðinu, eins og það er í frv. nú. Annars kem ég að honum síðar. — Þetta vildi ég segja í sambandi við það, sem ég áður taldi, að stefnubreyt. hefði orðið hjá Sjálfstfl. í þessu máli.

Hitt er alveg rétt, eins og hæstv. ráðh. sagði, að náttúrlega geta hv. þm. að upplýstu máli haft ýmsar skoðanir á málum og nokkuð breyttar frá því upphaflega. En ég geri þó ráð fyrir, að þetta mál hafi verið ýtarlega rætt í hv. Nd. og þar hafi komið fram það í málinu, sem ekki hafi sannfært hans flokksbræður hér í hv. þd. Um rök fyrir þessu geta menn þráttað aftur og fram og þá sanngirni, sem hér liggi á bak víð. En ég skal taka það fram, að innan n. kom fram fullkominn skilningur á að greiða fyrir því, að fólkið í dreifbýlinu geti notað sinn kosningarrétt, ef illviðri eða ófærð ekki hamlar því, að það geti sótt kjörfund.

En við vorum og erum enn í þessari n. á móti því að bjóða í öllum kjördæmum landsins, að kaupstöðunum undanskildum. upp á tvo kjördaga, en viljum greiða svo fyrir því sem unnt er, að fólkið í sveitunum geti neitt kosningarréttar síns innan þess ramma, sem er fullkomlega tryggur, svo að það er alveg út í hött, að kasta því til okkar, að við séum að sýna kjósendum sveitanna einhverja frámunalega ósanngirni og óréttlæti í þessu máli. Ég get svarað hv. þm. Str. því, að það er í samræmi við það, sem ég hef haldið fram í málinu bæði fyrr og nú, og sömuleiðis ritari og frsm. n., að við viljum láta þessa till. koma til atkv., og allt skraf þessa hv. þm. um, að við viljum neita fólkinu í sveitunum um að nota rétt sinn, er rakaleysa ein.

Það kom fram hér í umr. áðan, að kjördeildirnar væru of margar. Að mínu áliti á að hafa kjördeildirnar eins margar og framast verður komið við. Ég er þess vegna alveg á móti því að fækka kjördeildunum. Það á þvert á móti að fjölga þeim. Það er það, sem á að gera fyrir sveitirnar. Það á að hafa kjördeildirnar svo margar sem unnt er til þess að stytta leiðina, og þá hygg ég, að ekki þurfi að óttast það, jafnvel þótt komið sé fram í október, ef veður er ekki því verra, að fólkið fái ekki neytt atkvæðisréttar síns. Ég held, að það sé ekki fleira í hans ræðu, sem ég þarf að svara.

Hv. 2. þm. Eyf. (EÁrna), sá virðulegi maður, gerði hér tilraun til að hrekja sumt af því, sem ég hef haldið hér fram. Það kom það sama fram hjá honum, að við Reykvíkingar þekktum lítið til ástandsins í sveitunum, en hversu þekkingarsnauða sem hann álítur okkur vera, verð ég að segja honum það, að ég er kominn svo til ára minna og hef þá lífsreynslu, að ég veit fullkomlega, hvernig ástandið er í sveitunum. Ég hef heyrt það í blöðum, ræðum og ritum. Það þarf ekki að koma með neina nýja fræðslu eða kenningar, sem eiga að upplýsa mig um það, — Þá kom hann með það sem rök, að það væru hafðir tveir kjördagar við sveitar- og bæjarstjórnarkosningar. Það kemur ekki þessu við, því að þar er verið að kjósa til tveggja stofnana, en Alþ. er ein stofnun, ein heild, svo að þessi rök, ef rök skyldi kalla, eru alveg út í hött. Það hefur engum komið til hugar að hafa neitt við það að athuga, þótt kosningar í sveitarstjórnir færu fram á þeim tíma, sem óskað er.

Hann lagði mikið upp úr því, að það væri eindreginn vilji í sveitunum að hafa 2 kjördaga. Ég veit nú ekki til þess. Ég les blöðin og hlusta á útvarpið, en ég hef aldrei heyrt eina rödd um það að hafa kjördagana 2. Þetta var ekki áróðursmál á kosningafundunum, a. m. k. ekki þar, sem ég þekki til, og þetta er bara fundið upp hér á þingi. Það getur verið að þetta hljómi vel í eyrum margra, en ekki annarra. Hann vildi draga það í efa, að það væri þörf á að telja atkv. strax. Ég vil benda á ákvæði 107. gr. kosningal., með leyfi hæstv. forseta, þar sem segir: „Ætíð skal talning fara fram svo fljótt sem verða má að dómi yfirkjörstjórnar.“ M. ö. o., þetta skil ég svo, að strax og kosningu er lokið, skuli talning fara fram og í sveitum, undir eins og búið er að koma kjörgögnum til yfirkjörstjórnar. Svo finnst honum ekki nauðsynlegt að telja strax í kaupstöðum, af því að ekki er talið strax í sveitum. Aðrir geta kallað þetta rök. Ég geri það ekki. Um hans spádóm, hvort okkar fylgismönnum fjölgi eða fækki, skal ég ekki dæma, en ég held, að þetta skipti ekki neinu máli og hafi litla þýðingu í þessu efni. Fólkið skilur, að hér er aðeins um mismunandi aðferðir að ræða, en ekki efnismun. Hann vildi einnig skora á mig að taka aftur þá till., sem hér er um að ræða. Ég skil ekki í, að hann þurfi að vera hræddur, ef hann telur hana til ávinnings fyrir sinn flokk, en til óþurftar fyrir Alþfl. og sennilega Sjálfstfl. Þá held ég, að honum mætti vera það kært, að till. sé borin fram, til þess að ná því marki, sem sennilega er stefnt að með öllu þessu, þ. e. að fá áróðursefni í sveitunum, þegar ekki er hægt að rífast um kjördæmamálið lengur.

Hv. 2. þm. N.-M. (PHerm) flutti hér stutta ræðu og gagnrýndi það, sem ég hafði sagt um kosningaþátttöku fyrri ára. Hann fór nákvæmar út í þær tölur en ég hafði gert. Hann hefur ekki gert annað, og ég ekki heldur, en að bera saman kjörsóknina 1920–1923 við kjörsóknina á síðari árum, og ætla ég, að það sé svipað og að sumarlagi síðari árin. Hlutfallið hefur komizt niður í það, sem ég býst við, að það sé, burtséð frá því, á hvaða degi kosið var, og vildi ég svara honum aðeins með þessu. Ég vil svo að síðustu svara hv. þm. Barð. (GJ) út af hans afstöðu í málinu. Ég skal játa, að hann lýsti kannske ekki nógu skýrt fylgi sínu við okkar brtt., sem hér liggur fyrir, en hann belgdi sig hér upp afskaplega mikið, og þessi vindur fannst mér fara út í buskann, því að hann skaut yfir markið. Hann vildi segja, að ég væri að draga það fram, að það væru flokkshagsmunir Sjálfstfl., sem hér væri um að ræða. Hann sagði, að Sjálfstfl. mundi hér eftir hugsa meira um þjóðarheill en flokkshagsmuni. M. ö. o., að flokkurinn hafi metið meira flokkshagsmuni en þjóðarhagsmuni. Brögð eru að, þá barnið finnur. Ég skal ekki segja, hvort flokkshagsmunir Sjálfstfl. eru í veði, en átökin eru fyrst og fremst milli Framsfl. og Sjálfstfl., og ef til vill er þetta undanhald, sem nú er í málinu, vegna þess, að þeir eru hræddir um einhverja hagsmuni, ef ekki er fallizt á þessa tillögu. Að síðustu belgdi hann sig upp með það, að þeir, sem ekki skildu réttlætið, ættu ekki að vera að tala hér. Hann er nú ekki búinn að sitja hér nema tæpan mánuð eins og við hinir og ekki búinn að sýna, hve sterkur hann er á réttlætissvellinu, en grunur minn er sá, að hann muni líta meira á einkahagsmuni en alþjóðarheill.