02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

28. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Ég skal ekki lengja umr., en tel mér skylt að játa, að það er rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. (BBen), frsm. allshn., sagði, að mér láðist að geta um það, að sá einn er munur á þeirri till., sem við þm. Eyf. bárum fram, og þeirri till., sem meiri hl. allshn. ber fram á þskj. 179, að samkv. okkar till. eru varaþingm. í tvímenningskjördæmum útilokaðir frá því að hljóta uppbótarþingsæti, þótt þeim sé raðað á landslista flokksins, en samkv. till. allshn. hljóta þeir uppbótarsæti, ef þeim er raðað á landslista flokksins og flokknum beri það þingsæti, eða a. m. k. 3. sæti. Ég tel þetta að vísu sízt bót á till. og hefði engu að síður talið til bóta, að okkar till. hefði verið samþ., því að eins og ég færði glögg rök að og meiri hl. allshn. og n. öll hefur fallizt á síðar, er það órétt, að næststærsti flokkur í kjördæmi fái raunverulega tvo fulltrúa á þingi, en stærsti flokkurinn ekki nema einn. En þegar þess er gætt, að það er ekki nema þriðja hvert sæti á landslista, sem flokkarnir fá að raða, og að aldrei hefur komið fyrir, að raðað sé nema einum manni, þ. e. a. s. settur efstur, og þegar þess er gætt, að við síðustu kosningar var ekki raðað á landslista neins flokks, liggur í augum uppi, að þessi brtt., sem allshn. flutti um þetta efni, er til mikilla bóta við það, sem frv. var óbreytt. Að vísu má segja, að mögulegt sé, að næststærsti flokkurinn fái tvo þm. í kjördæmi, en stærsti flokkurinn ekki nema einn, sem ég teldi fullkomið hneyksli, ef það kæmi fyrir, og brot á öllum lýðræðisreglum, hvað sem menn skilja við lýðræði, því að svo skiptar skoðanir geta ekki verið um það atriði, að allir séu ekki sammála um, að það væri brot á öllu lýðræði. Hins vegar má benda á, að jafnvel þótt þetta kæmi fyrir, að varamaður hlyti uppbótarsæti vegna þess, að raðað er, og hann fengi sætið þar af leiðandi, en ekki með öðru móti, því að þegar manni er raðað á landslista flokks, má líta svo á, að flokknum sé meira áhugamál að koma honum að en öðrum, og þess vegna má frekar telja hann þm. flokksins alls, og sé litið á hann sem slíkan, en síður sem einstakan aukaþm. héraðs.

Ég sný því ekki aftur með það, sem ég sagði áðan, að ég er ánægður með, að þessi till. kom fram, úr því að okkar till. var felld, og tel hana mikla umbót á frv.