07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Jóh. Stefánsson:

Alþfl. hefur fyrir löngu lýst yfir sem stefnu sinni í sjálfstæðismálinu, að á Íslandi bæri að stofna lýðveldi, þegar þess væri kostur. Það kom strax fram af hálfu flokksins í umr. um sambandið milli Íslands og Danmerkur árið 1928 og í samþykkt flokksþingsins 1940 um sama efni. Samtímis því hefur Alþfl. lýst yfir þeirri skoðun sinni, að þetta mál bæri að setja ofar öllum flokkaríg og nauðsynlegt væri, að allir flokkar gátu komið sér saman um lausn málsins og þær aðferðir, sem hafa ætti til þess að ná þessu lokamarki. Alþfl. þykist því fyrir sitt leyti hafa fylgt þeirri reglu að slá ekki pólitíska mynt úr sjálfstæðismálinu, enda þótt hann hafi haft þar ákveðna skoðun, sem hefur verið ljós öllum landslýð á löngu tímabili.

Ég vil ekki frekar en aðrir víkja nú að því viðhorfi, sem áhrif kynni að hafa á, hvernig og hvenær væri hægt að stíga það lokaskref, sem allur þingheimur kom sér saman um 17. maí 1941, og vil ekki fara út í þær umr., sem orðið hafa um það, nema sérstakt tilefni gefist til. Ég vil aðeins taka fram, að Alþfl. getur, eins og sjálfstæðismálið liggur fyrir nú, fylgt því stjórnarskrárfrv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., m. a. af því, að með því frv. eru gerðar ráðstafanir til þess að auðvelda að framkvæma endanlega lausn málsins, þegar kominn er sá tími, hvort sem er fyrr eða síðar, að lokaskrefið verður stigið.

Að öðru leyti þarf ég ekki að fara út í efni stjórnarskrárfrv. Það er skýrt og greinilegt, og hæstv. forsrh. hefur með framsögu sinni skýrt það svo, að það liggur í augum uppi, til hvers er ætlazt með frv. Ég er þeirrar skoðunar og Alþfl., að með þessu sé lagt inn á leið, sem auðveldar lausn málsins, þegar að því kæmi, að tímabært þætti og eðlilegt að stíga síðasta skrefið.

Ég vil svo að lokum, fyrst hv. 1. þm. S.-M. óskaði þess fyrir hönd síns flokks, að málið fari til n., taka fram, að Alþfl. hefur ekkert við það að athuga, ef einhver flokkur óskar eftir því, og tel sjálfsagt, að jafnmikilsverðu máli verði vísað til n., þó að það sé vitað, að á þessu þingi hafi þetta mál verið rætt ýtarlega milli þingflokkanna og innan hvers þingflokks fyrir sig og á lokuðum þinglaunafundum. Ég tel því sjálfsagt að verða við þeim eðlilegu óskum, sem fram koma um, að málið verði athugað í stjórnarskrárn., sem þegar hefur verið kosin, og mun ég því styðja þá till., að málinu verði vísað til stjórnarskrárn.