08.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti! Ég vil undirstrika það, sem komið hefur fram í ræðum hv. þm., að þetta mál eigi að vera hafið upp yfir allan flokkaríg. En út af því, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, að vissir flokkar hefðu notað þetta mál sér til pólitísks framdráttar við síðustu kosningar, þá vil ég hvað Sósfl. snertir algerlega vísa þessu á bug. Sósfl. hefur ekki gert þetta mál að neinu sérstöku kosningamáli við síðustu kosningar. Ég vil minna á, að þegar 5 manna nefnd var kosin, til þess að undirbúa hina svokölluðu lýðveldisstjórnarskrá, sem fyrir þetta þing átti að leggja, var það samkomulag allra annarra flokka þingsins að ganga fram hjá Sósfl., að hann einn skyldi ekki hafa neinn fulltrúa í n. Ég segi þetta þó ekki til að vekja deilur, heldur aðeins til að skýra frá staðreyndum.

Það, sem gerzt hefur síðan í þessu máli, er öllum hv. þm. kunnugt, og kemur engum á óvart, að þetta frv. kemur hér fram, því að meginhluti af tíma þessa þings hefur, eins og hæstv. forsrh. tók fram, farið til að ræða þetta mál á lokuðum þingfundum og flokksfundum. Ég vil svo aðeins birta hér yfirlýsingu f. h. Sósfl., svo hljóðandi:

„Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, telur það ótvíræðan vilja íslenzku þjóðarinnar, enda óafsalanlegan rétt hennar, að stofna lýðveldi á Íslandi, og álítur eðlilegast, að til þess yrði farin sú leið, að samþykkja fullmótaða stjórnarskrárbreytingu þess efnis nú þegar, enda þótt gildistaka slíkrar lýðveldisstjórnarskrár kynni að dragast enn um skamma stund. En þar sem ekki hefur náðst meirihlutafylgi við þessa leið, mun Sósíalistaflokkurinn greiða atkvæði með þeirri till., sem fyrir liggur, þar sem með henni er fyrri samþykkt Alþingis gefið stjórnlagagildi og eftir er aðeins að kveða á um formsatriði og gildistöku stjórnarskrárbreytingarinnar, og getur því ekki talist, að með þessum hætti skapist neitt fordæmi um að komast hjá kosningum, þegar stjórnarskrá er breytt.“

Við þessa yfirlýsingu hef ég svo í rauninni engu að bæta, en vil taka undir með hv. 1. þm. Reykv., að úr því að komin er fram sú krafa frá einum hv. þm., að málið fari til n., þykir mér sjálfsagt að verða við henni, þó að málið sé mjög vel undirbúið með öllum þeim löngu umr., sem hafa farið fram um það á lokuðum þingfundum og innan flokkanna. Sósfl. treystir því, að ekki verði hafður sami háttur nú og upp var tekinn, þegar kosin var stjórnarskrárn. á síðasta þingi, að ganga fram hjá víssum þingflokki, þegar málið verður nánar undirbúið. Ég treysti því, að á þessu þingi verði kosin stjórnarskrárn., þar sem eigi sæti tveir fulltrúar frá hverjum þingflokki, sem hafi með höndum endurskoðun á allri stjórnarskránni, því að ég ætla, að öllum hv. þm. sé ljóst, að í stríðslok verður að endurskoða stjórnarskrá okkar í heild. Ég vænti þess að heyra yfirlýsingu frá hæstv. stj. um, að hún muni leggja til að kjósa á þessu þingi stjórnarskrárn. með fulltrúum frá öllum flokkum til þess að athuga þessi verkefni.