07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Þórðarson:

Ég get nú sagt það, að ég tek undir hvert orð í ræðu hv. þm. Borgf., en vil þó ekki láta hjá líða að skýra afstöðu mína nánar. Mér þykir það hörmulegt, að ekki skuli tekið djarflegar á en í þessu frv. Því var beinlínis heitið af Sjálfstfl. við síðustu kosningar, að það yrði gert á þessu þingi, og við, sem vorum í framboði fyrir Framsfl., sögðumst vilja gera hið sama. Ég álít það beint manndómsleysi að leka niður í þessu máli, eins og nú stendur til. Hvenær skyldu erlendar þjóðir ýta undir okkur að lýsa yfir fullu sjálfstæði, ef við þorum ekki að gera það sjálfir? Hvenær verður okkur stætt, ef við reynum ekki að standa nú á eigin fótum?

Þjóðin hefur hlakkað til þeirrar stundar, þegar lýst yrði yfir óskoruðu sjálfstæði, og ég er sannfærður um, að sú yfirlýsing nú mundi vekja almenna hrifningu landsmanna. Þó að segja megi, að úr ákafa manna hafi dregið um málið, er það ekki af því, að menn sjái ekki mikilvægi þess og meti það umfram allt.

Ég get ekki að svo komnu máli rætt um það, hvað þingið hræðist, hef ekki verið leystur frá þagnarskyldu um það. Ég hef athugað þær ástæður og virði þær að verðleikum, en get ekki séð, að þær séu þannig vaxnar, að við þurfum þeirra vegna að leka niður í sjálfstæðismálinu. Eins og ég virði þar annarra manna rök, verð ég að virða þau rökin, sem við hv. þm. Borgf. teljum miklu sterkari, að engan afslátt beri að gera í málinu. Ég veit ekki betur en við séum vopnlaus þjóð og hlutlaus og munum halda hlutleysi okkar eins og við höfum stöðugt gert. Hví skyldum við þá óttast, að stórþjóðir hremmi okkur fyrir það, að við höldum fast á rétti okkar? Ég skammast mín fyrir að láta það út úr mér og sé þó ekki, hvað ætti annað að vera: Þið hv. þm. þorið ekki að halda fast á þessu máli. — Þegar stríði lýkur, veit ég, að það verður okkur til bölvunar að hafa ekki slitið sambandinu við Danmörku. Það veldur mér mestu vonbrigðum og sárri sorg, að Alþ. skuli hafa tekið þessa stefnu. Úr því að við erum búnir að segja, að lýðveldi eigi að stofna á þessu þingi, verðum við að efna það heit eða liggja dauðir ella.

Og ég held, að í stað þess, að í flestum málum hættir okkur til að vera harðir flokksmenn fyrst og fremst, ættum við í þessu máli að vera linir flokksmenn, en harðir og sjálfstæðir Íslendingar.