07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ræða hv. 1. þm. Árn. kom mér mjög á óvart. Efnið var í stuttu máli það, að annars vegar í þessu máli stæði ríkisstj. og þeir, sem vildu ásamt henni samþ. þetta frv., en hins vegar hv. 1. þm. Árn. og hans flokksmenn, sem vildu gera sem minnst úr frv. Þessi hv. þm. veit vel, að eigi er hægt á þessu þingi að stíga fullnaðarspor í málinu. Hann veit og, að ekki er hægt að gera allt í einu, og einnig er honum kunnugt um, að allt, sem hér er gert, er í samræmi við vilja Framsfl. Ég skal ekki ræða einstök atriði í ræðu hv. 1. þm. Árn., því að þess gerist ekki þörf, en mér þykir leiðinlegt, ef það gæti litið svo út af ræðu hans og fleiri hv. þm. úr hans flokk, að vilji Alþ. í málinu sé annar en hann er í raun og veru. Ég hygg, að þessi ágreiningur, sem hér hefur komið upp, sé í raun og veru ágreiningur um kjördæmamálið, en ekki þetta mál, sem hér er til umr.