07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Pálmi Hannesson:

Herra forseti. Nú, þegar þetta mál er sett fram hér í d., fer ekki hjá því, að okkur, sem höfum setið hér á undanförnum þingum, verði hugsað til hinna fyrri funda. Þegar þessi mál, sem lúta á einn eða annan hátt að fullveldi Íslands, eru rædd hér á þingi, minnist ég fyrst og fremst dagsins 10. apríl 1940, þegar þingið tók það skref að flytja æðsta vald í málefnum ríkisins inn í þetta land. Ég minnist jafnframt 17. maí 1941, þegar enn þá var stigið spor í fullveldisáttina. Á þeim fundum hvíldi virðuleiki yfir þessum sal, hátíðleiki og einhugur. Nú er engu slíku hér til að dreifa. Hvers vegna? Af því að hér ræðir ekki um fullveldismál, sjálfstæðismál, heldur aðeins leið til þess að komast að því marki, leið, sem þó færir okkur ekki nær markinu. Hér ræðir ekki um fullveldismál, heldur aðeins, hvernig halda skuli áfram til næsta áfanga, sem ef til vill gæti leitt að endamarkinu. Ég skil þetta frv. þannig, að hæstv. ríkisstj. og alþm., sem að henni standa, vilji með frv. gera nokkurs konar þvott á sjálfum sér og telji það nauðsynlegt, eins og málefni stóðu til. Okkur er öllum kunnugt, að við síðustu kosningar var það mjög dregið fram af stuðningsmönnum hæstv. stj., að nú á þessu þingi, sem við sitjum hér, yrði endanlega gengið frá fullveldismálum þjóðarinnar, eins og það var sagt, að í haust mundi fáni hins fullvalda Íslands blakta yfir landinu undir forustu Sjálfstfl. Það var sagt, að einmitt nú væri sérstakt tækifæri til að stíga þetta síðasta skref í sjálfstæðismálinu. Aldrei hef ég fengið upplýst, í hverju það tækifæri fólst, en ég leit svo á, að hæstv. stj. og þeir, sem í henni voru, vissu það betur en við hinir. Mönnum er minnisstætt, hvernig forsíða Morgunblaðsins var á kjördaginn í vor. Þar gat að líta ungan mann með fánann í hendi á sjálfum Þingvöllum, þar á bak við brynjaðir víkingar, prestar og biskupar með bagal og mítur, og á bak við þá þjóðin öll undir forustu Sjálfstfl. Ég leit á þetta, eins og fleiri, með sársauka, eins og þegar einn flokkur setur íslenzka fánann á kosningabíla sína, hvenær sem kosið er. Mér fannst, að verið væri að taka hjartfólgnasta mál þjóðarinnar og gera það að flokksmáli. Hjá þessum flokki gætti mikils yfirlætis við síðustu kosningar, því er ekki að neita. Nú er þetta með öðrum hættl. Ég hygg, að öllum, sem væntu sér nokkurra framkvæmda í þessu máli, þyki nú sem gefnir séu steinar fyrir brauð. Hér er ekki í minni vitund um sjálfstæðismál að ræða, og ég hygg, að þjóðin muni líta á einn veg á það. Það er að líkindum, að þessi leið, sem kemur fram í frv. stj., sé, eins og ég sagði áðan, nokkur forsögn um, hvernig eigi að framkvæma samþykkt Alþ. 17. maí 1941. Það á að gera það með þeim hætti að fara ekki venjulega leið, þegar um breyt. á stjórnarskrá er að ræða, heldur á að gefa þinginu vald til að breyta þessu svo, að málið verði á eftir lagt undir þjóðaratkvæði. Mér finnst, eins og ég sagði áðan, að með þessu sé ekki gengið sérlega langt til hins síðasta áfanga í þessu máli. Ég get ekki komizt hjá því, að mér finnst málinu vera sýnd nokkur lítilsvirðing, að það skuli ekki eiga að sæta sömu meðferð og aðrar stjórnarskrárbreytingar. Síðast segir í þessu frv. stj., að aðeins þurfi meiri hl. allra kosningarbærra manna í landinu að greiða því atkv., til þess að það öðlist gildi. Í raun og veru finnst mér, að gera ætti þá kröfu, þegar um fullveldismálið sjálft er að miða, að með því yrðu að vera 80–90, já jafnvel 100%. Ég ber ekki það vantraust til þjóðarinnar, að ég haldi, að standa muni á jáyrði hennar um þetta mál, en mér finnst, að það sé eins og fram komi vantraust í því, að aðeins er krafizt einfalds meiri hl. um málið, til þess að það komist fram.

Nú efast ég ekki um, að hæstv. stj. hefði viljað fara lengra í þessu máli en hér kemur fram. Hún talar um óvænt viðhorf, sem öllum er kunnugt um og hefur verið upplýst, að stafi af erlendum áhrifum. Ég spyr nú hæstv. forsrh., hvort hann hafi ekki gert neina athugun fyrir fram, hvort fyrir hendi væru hindranir eða óvænt viðhorf, sem gætu hindrað framgang þessa máls. A. m. k. má segja, að ekki hafi verið of mikið lagt til í till. framsóknarmanna á síðasta þingi, að málið fengi meiri undirbúning en það hefur fengið.

Mér er ljóst, að tvær leiðir voru fyrir hæstv. stj. önnur var sú að spyrja Pétur og Pál, hvað við mættum gera í málinu og fara eftir því. Hin var sú að spyrja engan og fara svo sínu fram, hvað sem aðrir segðu. En ef átti að fara þá leið, að beygja sig, ef mótmæli kæmu fram, þá átti vitanlega að kanna fyrir fram, hvort um mótstöðu væri að ræða. Þetta virðist mér, að hæstv. stj. hefði verið rétt og skylt að gera. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að miklu betra hefði verið fyrir málið í heild, fyrir okkur, sem sitjum á þingi, og fyrir þjóðina, að hreyfa ekki málinu á þessu þingi en að láta það koma fram í því formi, sem það hefur nú.

Það hefur verið talað um, að aðrar hraðleiðir hafi verið bornar fram í þessu máll. Mér er það ekki kunnugt, og slíkt hefur ekki verið lagt fyrir mig. Ég segi fyrir mína parta, að ég á erfitt með að sætta mig við þessa afgreiðslu eftir öll breiðmælin, sem viðhöfð hafa verið í þessu máli, og glaður hefði ég tekið til athugunar hraðari leið, ef fram hefði komið, en ég tel, að heppilegra hefði verið og sársaukaminna að hreyfa málinu ekki nú en að koma fram með það á þann hátt, sem hér er gert.