07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Guðmundsson:

Það hefur þegar nokkuð verið vitnað í ummæli, sem komið hafa frá Sjálfstfl. í ræðu og riti um þetta mál. Ég ætla ekki mörgu þar við að bæta. En svo langt var gengið af sjálfstæðismönnum fyrir síðustu kosningar, að því var haldið fram, ekki einu sinni, heldur oft, í aðalblaði þeirra, að ef kjósendur veittu Framsfl. stöðvunarvald, þá væri víst, að þetta mikla mál fengi ekki fullnaðarafgreiðslu á þessu ári. Því væri það, að hver sá, er léði Framsfl. fylgi við kosningarnar 5. júlí, væri að bregðast skyldum við sjálfan sig og þjóðina í sjálfstæðismálinu. Hv. 3. landsk. var hér að vitna í þáltill., sem nokkrir framsóknarmenn fluttu á síðasta þingi um skipun mþn. til að undirbúa breyt. á stjórnarskránni, en í þeirri till. kom fram sú stefna, sem Framsfl. vildi þá taka upp í málinu. Þetta vildi hv. þm. telja sönnun þess, að Framsfl. hefði verið dragbítur í þessu máli. En hæstv. forsrh. hefur nú, þegar hann las upp úr gerðabók alþm. í stjórnarskrármálinu, sannað, að fulltrúar Framsfl. ætluðu að vera með þeirri afgreiðslu málsins, sem stjórnarfl. höfðu boðað, fyrst á annað borð var búið að taka málið upp á þennan hátt. Annar þeirra, hv. þm. Str., hafði þó sérstaklega áður verið á móti því, að málið væri tekið upp á þennan hátt, sem stjórnarflokkarnir gerðu á Alþ. í vor með þeirri brtt., sem þeir fluttu við þáltill. okkar framsóknarmanna, en þrátt fyrir það lýsti hann því yfir og báðir fulltrúar Framsfl. í stjórnarskrárn., að þeir mundu fylgja málinu, eins og kemur fram í þeim bókunum, sem hér hafa verið upp lesnar, til þess að samkomulag gæti orðið um málið. Þetta gerðu fulltrúar Framsfl. vegna þess, að þeir sáu, að það gat orðið málinu hættulegt, ef klofningur hefði orðið um það við þá afgreiðslu, sem boðuð hafði verið af þeim flokkum, sem stóðu að hæstv. stj. Það er því langt frá og síður en svo, að nokkuð hafi staðið á Framsfl. í þessu máli. Stj. hefur aldrei lagt fyrir flokkana neina till. um þá afgreiðslu málsins að þessu sinni, sem hún og hennar flokkur og málgögn lýstu yfir, að þeir mundu beita sér fyrir. Sú till., sem hv. 3. landsk. var að tala um í síðustu ræðu sinni, að hefði verið send Framsfl., var alls ekki um það, sem boðað hafði verið af stj. og hennar flokkum. Það átti að vísu að samþ. einhverja stjórnarskrárbreyt., en sá böggull fylgdi skammrifi, að hún átti ekki að öðlast gildi á sama hátt og venja er um stjórnarskrárbreyt. Og þar sem um annað var að ræða, bjargar það að engu leyti hæstv. stj. og Sjálfstfl., þó að hv. 3. landsk. sé að reyna, með ósönnum fullyrðingum um þetta mál, að láta líta svo út, að staðið hafi á Framsfl. og hann hafi ekki viljað taka ákveðna afstöðu í málinu. Hann tók fullkomlega ákveðna afstöðu, eins og hæstv. forsrh. hefur sannað með upplestri úr gerðabók mþn. í stjórnarskrármálinu.

Ég get ekki komizt hjá, fyrst ég kvaddi mér hljóðs, að víkja nokkrum orðum að framkomu hæstv. stj., og þá fyrst og fremst hæstv. forsrh., í þessu máli.

Hann lýsir sjálfur yfir í vor og lætur blöð sín, ekki einu sinni, heldur mörgum sinnum, lýsa því yfir, að Sjálfstfl. muni beita sér fyrir því, að lýðveldisstjórnarskrá verði samþ. á þessu þingi og lýðveldi stofnað á Íslandi á þessu ári. Niðurstaðan hjá hæstv. ríkisstj. er hins vegar allt önnur, eins og nú er komið á daginn. Hæstv. ríkisstj. leggur fram frv. aðeins til málamynda. sem alls ekki felur í sér lausn sjálfstæðismálsins á þessu þingi, eins og hæstv. ríkisstj. og flokkur hennar hafði þó hátíðlega lofað. Við alþm. erum nú ýmsu vanir af þessum hæstv. forsrh., þó að hann hafi ekki lengi skipað forsætið í ríkisstjórninni. Ég held varla, að það hefði getað komið fyrir annars staðar í veröldinni en hér á landi undir stjórn Sjálfstfl., að forsrh. gæfi slíkar yfirlýsingar í langstærsta máli þjóðarinnar, hætti nokkrum vikum síðar við að framkvæma það, sem hann hafði lofað þjóð sinni, en sæti eftir sem áður í ráðherrastóli, eins og ekkert hefði í skorizt. Ég býst ekki við, að nokkur þjóð hafi forsrh., sem metur orð sín svo lítils. Það er raunalegt, að þjóð okkar skuli búa við slíkt. Finnst mönnum slík framkoma vera fallin til þess að auka virðingu fyrir Alþ. og ríkisstj.? Og vilja menn athuga það, hvernig þessi málsmeðferð hæstv. ríkisstj. muni líta út í augum annarra þjóða, sem fylgjast greinilega með framkomu okkar nú í þessu máli sem öðrum? Hlýtur þeim ekki að lítast svo á, að Íslendingum sé ekki mikil alvara með þetta mál, fyrst sjálfur forsrh. landsins lítur svo smáum augum á málið, að hann sér enga ástæðu til að víkja úr því sæti, er hann nú skipar, þótt hann hafi algerlega gefizt upp á að framkvæma það, sem hann lofaði þjóðinni og lýsti yfir, að hann ætlaði að gera þegar á þessu þingi?

Íslenzku þjóðinni er alvara með þetta mál, það er áreiðanlegt. Þess vegna er raunalegt, að þjóð okkar skuli búa við ríkisstj., sem virðir svo lítils yfirlýsingar sínar í þessu stóra máli sem raun ber vitni um.