07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ég vil aðeins benda hv. 2. þm. Skagf. á það, að samkv. ákvæðum sambandslagasáttmálans um uppsögn hans er ákveðið þannig, að það eru aðeins 56.25% atkvæðisbærra kjósenda í landinu, sem þar er til skilið, að þurfi að gjalda jákvæði sambandsslitunum, til þess að þau séu lögmæt. Sá maður, sem nú á Íslandi nýtur mestrar samúðar af dönskum stjórnmálamönnum, telur sjálfsagt, að hvenær, sem gengið væri til atkvgr. um þetta mál, nægði meiri hluti atkvæða, sem kæmu fram, til þess að sýna vilja þjóðarinnar.

Varðandi ræðu hv. þm. V.-Húnv. vil ég geta þess, að ef honum finnst ríkisstj. sýna þessu máli of litla sæmd með því að fara ekki frá völdum, eftir að hún veit, að stjórnarskrárbreyt. getur ekki komizt fram á þessu þingi í því formi, sem hún óskar, þá er sama að segja um hans flokk, að þegar hans flokkur bar fram þáltill. um það, að þessi ríkisstj. eigi að vera áfram yfir kosningar, þá þekkti hans flokkur eins vel allt um þetta mál, sem nú er komið á daginn. Fleira þarf ég ekki að taka fram honum til leiðbeiningar um velsæmi í þessu máli.