07.09.1942
Neðri deild: 23. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson) :

Ég get af hálfu minni hl. í stjskrn. þegar tekið það fram, að það mun ekki af okkar hálfu fjölyrt um málið, nema sérstakar ástæður komi til. Eins og hv. frsm. meiri hl. greindi, var n. öll ásátt um að gera vatill. við 1. gr. Með þeirri vatill. er tryggilega um það búið, að ekki verði með þessu móti gerðar frekari breyt. á stjórnarskránni. Ég er þess fullviss, að það, sem vakað hefur fyrir flm. frv., hefur ekki átt að vera annað, og á það bendir grg., að ekki er til þess ætlazt, að slíkar breyt. verði gerðar á stjórnarskránni. En samkv. þeirri tilvitnun, sem grg. vitnar til um samþ. Alþ. frá 1941, mátti vissulega, ef vilji hefði verið fyrir hendi, heimfæra mörg atriði undir þetta ákvæði, og þess vegna er tryggara, að beinlínis sé tekið fram í lagaákvæðinu, hvað heimilt sé og hvers til ætlazt. Þetta er því nauðsynlegra sem ekki er víst, þegar þetta verður gert, að sömu mennirnir sitji á Alþ. og nú. Um þetta eru menn sammála.

Það, sem vinnst með þessu móti, og skírskota ég þar til umr. við 1. umr., frá okkar sjónarmiði, mátti ná með öðru móti á auðveldari hátt, sem sé með einni yfirlýsingu af hálfu Alþingis um þessi tvö ákvæði. Hitt er annað mál, að vera má, að þá hefðu gerzt með öðrum hætti breyt. á stjórnarskránni um önnur ákvæði málsins.

Mál þetta var rætt ýtarlega við 1. umr., svo að ég skal ekki fjölyrða um það, ef ekki koma ný atriði fram. Frá okkar sjónarmiði er svo lítið á unnið, að við tókum þann kostinn að sitja hjá við atkvgr., en hinu mótmæli ég harðlega, að við séum ekki ótrauðir að ná þessum réttindum þjóðinni til handa.