07.09.1942
Neðri deild: 23. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja umr. né blanda mér í þær deilur, sem upp komu í dag við 1. umr. Ég tel það miður, með hverjum hætti þær umr. hafa orðið. Sjálfstæðismálið hefur ætíð notið þeirrar helgi, að það hefur verið talið ofar slíkum deilum. En ég vil gera grein fyrir afstöðu minni.

Lokaafgreiðsla sjálfstæðismálsins var ákveðin í haust, en úr því varð þó ekki. Hvers vegna? spyr þjóðin. Í grg. fyrir frv. er talað um ný og óvænt viðhorf, sem skapazt hafi. Alþm. er kunnugt um, á hvaða skeri strandaði, en þjóðinni er það ókunnugt, nema af ágizkun einni, en hún hefur rétt til að vita það. Ég kem þá að aðalatriði máls míns. Ég tel, að þær hindranir, sem átt er við í grg., hafi ekki verið þess eðlis, að þeirra vegna væri rétt að hvika frá afgreiðslu sjálfstæðismálsins. Okkar lagalegi og siðferðislegi grundvöllur var nógu sterkur til þess, að ekki þurfti að óttast fullnaðarafgreiðslu málsins. Má í því efni vitna til yfirlýsingar sjálfrar Bandaríkjastjórnar, er gefin var í samningnum um hervernd Íslands.

Vegna þagnarheits, sem við þm. erum bundnir viðvíkjandi hinum nýju viðhorfum, þá get ég ekki rætt um þau hér. En mér virðist, að eigi geti lengi verið hægt að hafa algera þögn um þetta, og þjóðin getur ekki unað við það, að talað sé rósamáli um frelsismál hennar, og hún á heimtingu á að fá að vita hið sanna. Viðvíkjandi frv. sjálfu hef ég þetta að segja: Það markar óvenjulegt spor í sjálfstæðismálum Íslendinga, en greiðir þó fyrir fullnaðarsigri í þeim málum síðar. Ég mun fylgja frv., enda þótt ég hefði kosið, að lengra hefði verið gengið.

Að lokum vil ég láta þá ósk mína í ljós, að íslenzka þjóðin beri giftu til að standa saman og koma sjálfstæðismálinu í örugga höfn.