07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Hermann Jónasson:

Því fer alls fjarri, að þetta stærsta mál, sem Alþ. hefur haft til afgreiðslu, skuli a. m. k. ekki sæta venjulegri meðferð mála hér.

Og ofan á hina mestu lítilsvirðingu, sem málinu er sýnd með þessari afgreiðslu, kemur vitanlega ekki til mála að flaustra því af, eins og hæstv. forsrh. vill. En þetta er í samræmi við alla sögu málsins, sem ég mun nú rekja. Tel ég margt vera óframkomið í henni, sem landsmenn eigi heimtingu á að fá að vita.

Með þessu frv. er ætlazt til, að nýrri gr. verði bætt við stjskr. og í henni verði heimild til að breyta stjskr. Í þessu atriði er um leið gerð undantekning frá því ákvæði stjskr., að henni megi ekki breyta, nema með tvennum kosningum. Ástæðan til þessarar undantekningar er að auðvelda afgreiðslu málsins, er menn kynnu að verða sammála um að taka síðasta skrefið í sjálfstæðismálinu. Eins og frv. liggur hér fyrir, er það ekkert sjálfstæðismál. Það er aðeins fyrirkomulagsatriði hér innanlands, til að spara einar kosningar, er þar að kemur. Á þetta benti hv. þm. Borgf. við 1. umr. í Nd. og enn fremur, að með þessu væri málið lagt á hilluna fyrst um sinn. Þetta er hin nákvæmasta lýsing á sannleikanum. Það er auðséð á blöðunum í morgun, að nú á að telja þjóðinni trú um, að þessi snuða sé sjálfstæðismálið, sem lofað var.

Sumir hv. þm. telja það spor í rétta átt, aðrir telja það kyrrstöðu.

Það er víst, ef hv. þm. skoða það með einlægni í huga sér, þá sjá þeir, að það er hvorugt. Það er spor aftur á bak. Og hvers vegna?

Allir hv. þm. geta verið sammála um það, að þetta frv. hefði ekki verið sýnt hér á hv. Alþ., ef stj. hefði ekki verið búin að marglofa að leysa sjálfstæðismálið á þessu og næsta þingi. Þetta frv. er því spor aftur á bak, það er ekkert í sjálfu sér nema ný óheilindi í sjálfstæðismálinu. Þessi loforð og yfirlýsingar til þjóðarinnar í vor fyrir kosningarnar voru að vísu gefin í óvenjulegri fljótfærni, án þess að vitað væri, hvort hægt væri að standa við þau. Og nú reynist þetta ekki hægt.

Þetta frv. er því fram borið til þess að reyna að draga fjöður yfir brigðmælgi við kjósendur, Það er ekkert sjálfstæðismál, það er gervimál, eins konar uppbót, sem þó engin er, til að reyna að bæta að einhverju þau loforð, sem ekki var staðið við.

Og ef skoða á það í réttu ljósi, þá er það í þessu ljósi. En það er sagt, að ein ósannindi krefjist sjö annarra ósanninda á varðbergi, enda er byrjað að varpa gerviljósi á þetta mál í blöðunum. En þessi hula yfir brigðmælgina efast ég nú um, að komi stj. að nokkru gagni, því að ég held, að hún sé of þunn. Það verður ekki hægt að villa þjóðinni sýn með henni. Það er hvorki hægt né rétt að ganga fram hjá því, af hverju ógæfan stafar, því að í þessu máli hefur skeð þjóðarógæfa, og hún er mikil. Hún stafar af því, að í sjálfstæðismálinu hafa verið brotnar þær drengskapar- og starfsreglur, sem gilt hafa að mestu í því máli síðan 1918. Flokkarnir hafa, þrátt fyrir deilur um önnur mál, reynt að halda frið um sjálfstæðismálið og ekki brotið þá reglu a,ð gera það að sinu flokksmáli. Öll spor, sem stigin hafa verið í því, hafa verið vandlega athuguð og undirbúin af öllum aðalflokkum og haft um þau fullkomið samkomulag.

Þannig var t. d. staðið að samþykktunum 10. apríl 1940 og 17. maí 1941, sem voru einróma og Alþ, til sæmdar út á við. Dómarnir um þær voru á einn veg erlendis.

Frá þessari starfsreglu var vikið síðast liðið vor. Þá var málið gert að kosningamáli og flokksmáli fyrir einn flokk. Það var sagt, að sjálfstæðismálið væri aðalmálið og kjördæmamálið leiðin að því. Því var haldið fram, að ef Framsfl. fengi stöðvunarvald í því, þá mundi hann nota það til þess að bregða fæti fyrir sjálfstæðismálið á þessu þingi. Undir forustu Sjálfstfl. skyldi málið leyst, ef stjórnarflokkarnir fengju meiri hl. Þannig var talað fyrir kosningarnar. En eins og nú er ástatt, hlustuðu, því miður, fleiri en íslenzka þjóðin á þessi kosningaloforð í sjálfstæðismáli Íslands. Út af fyrir sig var það óverjandi, er stj. lofaði lausn á viðkvæmasta máli þjóðarinnar, að hún skyldi ekki undirbúa það betur en svo, að nú er verið að svíkja þetta loforð hér á Alþ.

Það er hætt við, að þetta verði ekki til að auka tiltrú manna til Alþ. um sameiginlega og örugga lausn þessa máls. Auðsætt er, að taka verður tillit til þessa. En svik stj. um framkvæmd málsins og tjónið, sem því er unnið, er þó vitanlega stærsta atriðið í þessu öllu. Það er kannske ekki það allra stærsta, heldur hitt, að þessari ríkisstj. hefur tekizt með framkomu sinni í þessu máli að minnka virðingu umheimsins fyrir okkur meir en nokkurri ríkisstj. hefur áður nokkurn tíma tekizt í þessu landi. Ég er ekki í neinum vafa um það, að flestir Íslendingar hugsa þannig um þetta mál. Eins og málum er nú komið, var þess vegna aðeins um tvo kosti að velja. Sá var annar að standa við þær yfirlýsingar og þau loforð, sem gefin höfðu verið, hvað sem það kostaði og hvað sem í skærist. Hinn kosturinn var að kannast hreinskilnislega við og svo drengilega sem verða mátti, að í kosningabaráttunni voru gefin oftöluð og lítt hugsuð kosningaloforð, — og segja bara eins og er: Þetta var fljótfærni og glópska, og við getum ekki staðið við þetta. Það var þá þar með látið sitja við ákveðnar samþykktir og einróma, sem Alþ. gerði 10. apríl 1940 og 17. maí 1941. Með þessum samþykktum tókum við okkar mál í okkar hendur að svo stöddu og án þess að gera nokkra breyt. á stjskr. Og það hefur enginn orðið var við, að sú aðferð hafi komið að sök. Hér höfðum við þess vegna fordæmið. Við gátum gert með þessum sama hætti samþykkt hér á Alþ. um fullt og endanlegt frelsi þjóðinni til handa, hvenær sem við teljum fært að taka það frelsi í okkar hendur. Þetta höfum við gert þannig til bráðabirgða. Þessi skipan hefur staðið í þrjú ár, og við getum gert hana endanlega, án þess að kosningar fari fram og án þess að við fyrst semjum stjskr. um það, að þetta skuli okkur heimilt. Við höfðum ekkert stjórnarskrárákvæði eða heimildarl., þegar við gerðum þetta fyrir þremur árum. Ég hygg, að flest lýðveldi eða öll séu orðin til með þessum hætti. Og slík vinnuaðferð, sem hér er viðhöfð, að semja heimildarl. í stjskr.formi til þess, að við megum gera þetta, hefur víst engum lifandi manni dottið í hug fyrr en það var fundið upp fyrir nokkrum dögum. Og þetta var ekki fundið upp, til þess að auðvelda lausn málsins, heldur til þess að auðvelda það, að stj. gæti dregið með þessu fjöður yfir sárustu nekt sína, litið eitthvað betur út í næstu kosningum. Þetta er það skammarlega við þetta gervimál. Óheilindi og óhreinskilni eru öllum málum háskaleg, en engu máli háskalegri en einmitt sjálfstæðismálinu. Frá mínu sjónarmiði er frv. þetta eingöngu að bæta gráu ofan á svart. Það er þýðingarlaust fyrir sjálfstæðismálið og þýðingarlaust sem yfirbreiðsla fyrir þá, sem loforðin gáfu í vor. Yfirbreiðslan er svo gegnsæ, að kjósendur sjá í gegn um hana. Hjá íslenzku þjóðinni eykur þetta tortryggni og tiltrúarleysi til Alþ. Hjá umheiminum gerir þetta okkur enn þá broslegri heldur en við áður vorum orðnir í þessu máli, og vorum við það vissulega nægilega fyrir. Það er áreiðanlega spor stigið aftur á bak að koma með þessi óheilindi í sjálfstæðismálinu, eingöngu til þess að dvelja enn fyrir.

Ég hygg ég skýri bezt aðstöðu flokksins, sem ég tilheyri, til þessa máls með því að rifja upp í fáum dráttum sögu sjálfstæðismálsins síðan 1940. Úr því að einn þm. úr stjórnarflokknum hefur skýrt frá vissu atriði á opnum fundi Alþ., þá er það vitanlega ekki neitt leyndarmál, enda ólíklegt, að hann hafi gert það án þess að frá til þess samþykki ríkisstj. Hinn 17. maí 1941 gerir Alþ. samþykktir í sjálfstæðismáli Íslendinga og lýsir yfir, að vegna vanefnda af hálfu konungs höfum við öðlazt réttindi til fullra sambandsslita við Danmörku og til lýðveldisstofnunar. En jafnframt var samþ., að þótt þessi réttur væri ekki gerður gildandi þá, skyldi það ekki dragast lengur en til stríðsloka eða til 17. maí 1944. Þessi tvö tímatakmörk voru sett vegna þess, að ef styrjöldin stæði lengur en til 1944, ætluðum við að leysa okkar mál á því ári. En ef styrjöldinni lyki fyrir 17. maí 1944, þá ætluðum við að ljúka málinu í síðasta lagi í stríðslok. Það munu allir hafa gengið út frá því, að við þetta samkomulag, sem kostaði svo mikil vandræði að ná, yrði staðið og ekki við því hróflað í neinum flokkslegum tilgangi. Það hafði verið ósamkomulag á milli flokkanna og í flokkunum innbyrðis áður en þetta samkomulag náðist. Ég hef áður skýrt frá því, að ég hafði rökstuddar ástæður til að treysta því, að ekki yrði hreyft við stjórnarskránni með hinu svokallaða kjördæmamálið á síðasta þingi. Ég ætla ekki að fara inn á það, hverjar þessar rökstuddu ástæður voru. En þeim til viðbótar hafði bæði ég og aðrir þm. fulla ástæðu til að álíta, að engum þm. kæmi til hugar að koma fram með frv. til breyt. á stjskr., meðan sjálfstæðismálið stóð svo sem samþykktirnar frá 17. maí 1942 höfðu markað með einróma samþykki þingsins. Menn gengu almennt út frá því, að ef breyt. yrði gerð á stjskr. á annað borð, þá yrði ekki hjá því komizt að fella úr stjskr. þau ákvæði, sem hljóðuðu um konunginn og konungserfðir. En að fara að breyta stjskr. var sama og að opna sjálfstæðismálið. Þegar kjördæmamálið var tekið upp á síðasta þingi, var af þessari ástæðu, sem ég greindi, þegar auðsætt, að fyrst stjskr. átti að hreyfa, varð ekki hjá því komizt að leysa sjálfstæðismálið um leið, samkv. þeim skilningi, sem menn höfðu á því haft. Flokkarnir, sem stóðu að kjördæmaskipuninni, viðurkenndu þetta undir eins og þeim var á það bent, og héldu meira að segja fram, að þeir hefðu alltaf — og þegar þeir tóku kjördæmamálið upp — hugsað fyrir þeirri lausn. Og þeir komu með till. í samræmi við það og gáfu síðan loforð, sem ég hef rakið, í sambandi við þá till. Og þetta gekk meira að segja svo langt, að innan Alþfl. og Sjálfstfl. var þetta atriði, lýðveldisstjórnarskráin, gert að aðalmáli í kosningunum, svo sem hefur verið tekið fram í umr. um þetta mál.

Nú vil ég ekki halda því fram, að það sé beint brot á samþykktum Alþ. frá 17. maí 1941, að málið er tekið upp með þessum hætti, því að í samþykktunum stendur, að það skuli tekið upp í síðasta lagi árið 1944 eða í stríðslok. En það segir ekki, að ekki megi taka sjálfstæðismálið upp fyrr. En þó að orðalagið sé þannig — og af skiljanlegum ástæðum —, að ekki mætti þetta vera síðar en þennan tiltekna tíma, þá gengu menn almennt út frá því, þegar samþykktirnar voru gerðar 1941, að sjálfstæðismálið yrði ekki hreyft fyrr en 1944 eða þá í stríðslok, ef þau yrðu fyrr, nema þá eitthvað sérstakt kæmi fyrir, sem enn er ekki til að dreifa. Með kjördæmamálinu og því, sem gerzt hefur í sambandi við það, var því raunverulega brotið það samkomulag, sem gert var einróma á Alþ. 17. maí 1941. Það var ekki aðeins, að teknar væru upp nýjar starfsreglur, heldur var í raun og veru brotið þetta samkomulag. Og ég hygg sannast að segja, að það muni sýna sig, að þessi atburður sé í þessu máli, og kannske í fleirum, einhver hinn örlagaríkasti, sem gerzt hefur í íslenzkum stjórnmálum um langt skeið.

Hér er ekki hægt að ganga fram hjá því, að þegar samþykktirnar 17. maí voru gerðar, var a. m. k. af mörgum þm. tekið tillit algerlega til þrenns: Við vildum vera vissir um, að við stæðum á okkar rétti, sem hefur verið langsterkasta vopn okkar í sjálfstæðisbaráttunni. Og þess vegna var það, að þó að við teldum okkur hafa riftunarréttinn, þá vildum við ekki nota hann, nema í neyðartilfelli. Í öðru lagi vildum við leysa málið þannig, að það væri Dönum sem sársaukaminnst. Og mörgum fannst það ekki alls kostar drengilegt að nota riftunarréttinn meðan Danmörk var hernumið land. Í þriðja lagi höfðum við, áður en við lýstum nokkru yfir um það, hvað við ætluðumst fyrir í sjálfstæðismálinu, fengið, án þess að við grennsluðumst eftir því, vitneskju um það, beinlínis skilaboð, frá ensku stj. — skilaboð, sem birt voru hér í blöðum, og þess vegna var það, sem nú er að gerast, ekkert leyndarmál, — að þeir væru mótfallnir því, að við leystum sjálfstæðismálið árið 1941, og töldu rétt, að við létum það bíða til þess tíma, sem samningar við Dani tilskildu. Það kom þá beinlínis fram í viðræðum, sem ég átti um málið, að Englendingar höfðu borið sig saman við Bandaríkin, áður en þeir gáfu þessa yfirlýsingu. [Fundarhlé vegna loftvarnarmerkis.]

Ég var kominn að því að gera grein fyrir, hverjar hefðu verið þær þrjár meginástæður, sem ollu því, að við gerðum samþykkt 17. maí 1941 með þeim hætti, sem raun ber vitni, að ekki var gengið endanlega frá sjálfstæðismálinu. Ég gerði grein fyrir því, hvernig afstaða Englands hefði verið, og við vissum jafnframt, að það var sameiginleg afstaða Englands og Bandaríkjanna í sjálfstæðismálum okkar.

Ég hef einatt verið þeirrar skoðunar, að hvað sem öllum sjálfstæðisyfirlýsingum líður, gætum við ekki öðlazt eða varðveitt neitt varanlegt sjálfstæði nema með velvild og skilningi þeirra þjóða eða þjóðar, sem mestu ræður á Atlantshafi, hver sem sú þjóð er eða verður. Við þurfum ekki, þrátt fyrir það, að spyrja þær um, hvenær við stígum síðasta skrefið í fullveldismálinu. Þessi skoðun hefur frekar styrkzt en veikzt í þessari styrjöld og með styrjöldinni frá 1914–18, að ógleymdri Napóleonsstyrjöldinni, held ég, að það ætti að vera okkur fullljóst, að þetta er staðreynd. Tækni nútímans hefur fært okkur nær umheiminum en áður, og ef til vill er viðhorfið til fulls sjálfstæðis smáríkja að breytast meir en við gerum okkur ljóst.

Ég hef litið svo á, að með skynsamlegri framkomu í sjálfstæðismáli okkar út á við og með því að sýna, að við séum menn til að laga vandamál okkar inn á við, mundum við geta aflað okkur þess trausts, sem væri okkar bezta og varanlegasta lausn í sjálfstæðismálinu, að ógleymdri þeirri virðingu, sem menningarþjóðirnar bera fyrir okkar sérstöku tungu og gömlu menningu.

En þegar hæstv. forsrh. lýsti yfir því í Morgunblaðinu afdráttarlaust, sem hann hafði ekki gert á Alþ., að sjálfstæðismálið yrði leyst undir forustu Sjálfstfl. á þessu þingi og haustþinginu og lýðveldi stofnað, gekk ég út frá því sem alveg vísu, að hann hefði þá alveg gengið úr skugga um það, að málið yrði leyst með velvild eða a. m. k. án mótstöðu þeirra tveggja stórvelda, sem við eigum nú mest skipti við. Ég hafði alveg sérstaka ástæðu til að vera viss í minni sök, þar sem mér var kunnugt af samstarfinu í fyrrv. ríkisstj., að hann hafði, og ég held réttilega, tekið verulegt tillit til þessara aðila, þegar gengið var frá samþykktinni 17. maí 1941, enda sannar afstaða hans nú í sjálfstæðismálinu þetta bezt. Hæstv. stj. hafði ágæta aðstöðu til að afla sér þessarar vitneskju, þar sem hér voru tveir mjög merkir fulltrúar fyrir bæði ríkin og við höfðum einnig sendiherra hjá báðum þjóðunum.

Ég hygg, að flestum eða öllum þm., a. m. k. úr Framsfl., hefði farið líkt og mér í þessu máli, að þeir hafi verið þess fullvissir, eftir þessa afdráttarlausu yfirlýsingu hæstv. forsrh., að hann hefði aflað sér vitneskju um það, að andstaða þessara tveggja stórvelda væri ekki lengur neinn þröskuldur í vegi málsins.

En við alþm., og raunar allir aðrir, vorum fullvissaðir um þetta atriði með enn fleiri yfirlýsingum frá ríkisstj. Hæstv. atvmrh. sagði á tveimur fundum, þar sem ég var staddur, að nú væri hinn hentugasti tími til að leysa málið án mótstöðu utan að. Hæstv. fjmrh. lýsti yfir því í útvarpsræðu rétt fyrir kosningarnar, að ekkert væri nú til fyrirstöðu væntanlegri lausn sjálfstæðismálsins, ef Íslendingar vildu.

Hvernig gat nú nokkrum, sem vissi það, að samþykktirnar 11. maí 1941 voru ekki endanlegar samþykktir í sjálfstæðismálinu, að verulegu leyti vegna andstöðu umræddra stórvelda, komið það til hugar, að ráðh. gæfu svo afdráttarlausar yfirlýsingar, eiginlega fyrir hönd Alþ., án þess að þeir vissu, að það, sem hafði haft veruleg, að ekki sé sagt afgerandi, áhrif á meðferð málsins á Alþ., væri gerbreytt?

Ég vil ekki með þessu slá því föstu, að það eigi að vera regla að leita eftir vilja stórveldanna í sjálfstæðismáli okkar. En hitt segi ég hiklaust, og ætli það verði ekki skoðun nokkuð margra, að það er alveg ófyrirgefanlegt pólitískt glappaskot að grennslast ekki eftir þessu atriði, eins og á stóð, þar sem við höfðum áður óumbeðið fengið að vita um þessa andstöðu og Alþ. a. m. k. haft hliðsjón af henni, þegar það afgreiddi málið 1941, sérstaklega þegar þess er gætt, að hæstv. ríkisstj. virðist frá upphafi hafa ætlað sér að slá þegar undan í málinu, ef þessi mótstaða væri enn fyrir hendi. En fyrst það er nú komið á daginn, sem fáa hafði grunað, að engin eftirgrennslun átti sér stað, áður en yfirlýsingarnar voru gefnar, átti þessi vinnuaðferð ekki að geta þýtt nema aðeins eitt, ef einhver hugsun liggur bak við loforð og yfirlýsingar hæstv. stj. Það er, að hæstv. ríkisstj. hafi ætlað sér að afgreiða málið, eða a. m. k. að gera það að ákveðinni till. sinni og fráfararatriði, að málið yrði afgr., hvort sem andstaða umræddra ríkja var breytt eða ekki, því að hæstv. ríkisstj. hlýtur að hafa séð það fyrir fram, að þegar hún, eftir allar yfirlýsingarnar, hættir við allt saman við fyrsta andblæ, hefur hún unnið sjálfstæðismálinu mjög mikið, ef ekki óbætanlegt tjón, bæði inn á við og út á við. Enn fremur hefur hún aflað okkur talsverðrar lítilsvirðingar umheimsins.

Ég held áfram að rekja gang málsins síðustu mánuði.

Eftir kosningarnar tók ég mér nokkurra daga sumarfrí uppi í Borgarfirði. Þá var skrifuð árásargrein á mig í Morgunblaðið, þar sem sagt var með þjósti, að ég væri að dunda við laxveiðar uppi í Borgarfirði og tefði fyrir afgreiðslu stjórnarskrármálsins, sem þingið biði eftir. Þegar ég kom suður, var verið að leggja síðustu hönd á stjórnarskrána, hún var raunverulega alveg tilbúin. Á leiðinni suður mætti ég hv. þm. S.-Þ., sem skýrði mér frá störfunum í n. og að hann hefði lagt til, að málið fengi að ganga til flokkanna til athugunar. Ég mætti síðan á næsta fundi, og það hefur verið lesin upp yfirlýsing mín um það, að ég væri þessari afstöðu hans algerlega sammála, en hann hafði jafnframt lýst yfir því, að hann væri því persónulega samþykkur, að sjálfstæðismálið væri leyst á þessu þingi. Ég get um þetta út af þeim bókunum, sem upp hafa verið lesnar og vil skýrt taka fram, að yfirlýsing mín um, að ég væri því samþykkur; að málið gengi til flokkanna, breytir engu um yfirlýsingar minar og afstöðu til sjálfstæðismálsins fyrr og síðar. Þó að þessi bókun þýði þetta út af fyrir sig, þá gaf ég yfirlýsingar í nefndinni bæði fyrr og síðar, þótt það sé ekki bókað, sem genga nákvæmlega í sömu átt og þessi yfirlýsing.

Þegar suður kom, standa mál þannig, eins og ég sagði, að verið er að leggja síðustu hönd á verkið. Þá er fullvíst, að 3/5 hlutar Alþingis ætla að afgreiða málið. Ég geng þá vitanlega út frá því sem gefnu, að sú andstaða tveggja stórvelda, sem áður hafði verið gegn málinu, væri horfin. Ríkisstj. er búin að tilkynna konungi, að það eigi að setja hann af, það er gert fyrir kurteisi sakir, svo að honum gefist kostur á að segja af sér. M. ö. o., ástæðurnar, sem áður höfðu verið fyrir hendi um andstöðu stórveldanna, voru að sjálfsögðu horfnar eftir yfirlýsingar hæstv. forsrh., og sú tilfinningasemi, sem verið hefur gagnvart Dönum, var ekki lengur í vegi, þar sem búið var að tilkynna konungi, að sporið yrði nú stigið, og það var vitað, að 3/5 hlutar þingsins voru þessari aðferð samþykkir. Mér hefði aldrei dottið í hug, ef ætti að stíga síðasta skref í sjálfstæðismálinu, sem meiri hl. þings hefði verið samþykkur, hvað óánægður sem ég hefði verið með málsmeðferðina, að greiða atkv. á móti því, að síðasta skrefið yrði stigið, sérstaklega af því að ég sagði af mér með tilliti til þeirrar stjórnarskrárbreyt., sem gerð hefur verið, því að út á við hefði það litið út sem veruleg andstaða gegn málinu, ef maður, sem gegnt hefur þeim störfum, sem ég hef gegnt að undanförnu, væri málinu andvígur. Ég skýrði því n. frá, að ég mundi ekki beita mér gegn því, að málið yrði afgr., síður en svo, ég mundi vera því fylgjandi. En svo, þegar málið stendur þannig, að hæstv. stj. hefur lýst yfir, að málið verði leyst, vitað er, að 3/5 hlutar þingsins standa að þessari lausn samkv. loforði, einn af þeim, sem óánægðastur hafði verið með þessa málsmeðferð, hafði lýst yfir, að hann mundi ekki vera á móti málinu, heldur greiða atkv. með því, og búið er að tilkynna konungi Dana, að nú verði sporið stigið, svo að honum gefist tækifæri til að segja af sér, þá er allt í einu lýst yfir því, að nýtt viðhorf hafi skapazt í málinu: En það er ósatt, það hefur ekkert nýtt viðhorf skapazt í málinu, — ekki neitt. Þær yfirlýsingar, sem Bretar upphaflega gáfu, voru gerðar í samráði við Bandaríkin, eins og ég hef margsinnis tekið fram og mun hafa tekið fram opinberlega á prenti. Þess vegna var það, að við gátum búizt við og máttum búast við, að þessi andstaða væri enn þá til staðar, við gátum a. m. k. ekki verið vissir, meðan það hafði ekki verið rannsakað. Það hefur því ekkert nýtt komið fram í málinu, ekki nokkur skapaður hlutur, það kom bara frá öðru ríki, sem vitað var áður, að leit þannig á málið. Og hvers vegna? Vegna þess, að það ríki, sem áður hafði hernumið okkur, og það ríki, sem nú hefur hernumið okkur, þau vilja ekki láta neitt ríki, meðan þessi styrjöld stendur, og það er í samræmi við Atlantshafsyfirlýsingu þeirra, gera breytingar á stjórnskipulagi sínu. Af þessu er augljóst, að ekkert nýtt hefur skeð, en stj. gleymdi bara, þegar hún gaf yfirlýsingarnar um, að nú yrði síðasta skrefið í sjálfstæðismálinu stigið, að grennslast eftir, hvort þær hindranir, sem voru í vegi málsins 17. maí 1941, væru enn þá fyrir hendi eða ekki. Hún getur sagt eins og maðurinn : Mér gleymdist að geta þess, að ég kann ekki að róa,“ svo glópskukennd er þessi framkomu. Þess vegna er hér ekkert nýtt annað en það, að hér hefur verið viðhöfð sú allra einkennilegasta og fljótfærnislegasta pólitíska aðferð, sem þekkzt hefur. Niðurstaðan er líka þessi, að eftir allar yfirlýsingarnar og loforðin, sem búið er að gefa þjóðinni, er allt svikið, og eftir allar yfirlýsingarnar, sem búið er að gefa umheiminum, er lekið niður við fyrstu andstöðu, og eftir yfirlýsingarnar, sem við erum búnir að gefa Danakonungi, töpum við virðingunni gagnvart Norðurlöndum. Þetta er það, sem út á við hefst upp úr þessum vinnubrögðum, en þjóðin er sett til baka, hrygg og vonsvikin. Ég hygg satt að segja, að þessi vinnuaðferð sé nokkurn veginn einsdæmi hjá nokkurri ríkisstj. eftir allar yfirlýsingarnar, sem gefnar hafa verið, og svo í ofanálag að reyna að telja þjóðinni trú um það, sem kemur fram í Morgunblaðinu í morgun, að nýtt og óvænt viðhorf hafi komið fram í sjálfstæðismálinu, svo að nú verði að fara aðra leið, en sannleikurinn er aðeins sá, að stj. hefur gleymt að athuga, áður en hún gaf allar yfirlýsingarnar, hvort gömlu andstöðunni, sem allir vissu, að var til, hefði verið rutt úr vegi eða ekki.

Ég býst ekki við, að ég orðlengi miklu meira um þetta mál, nema alveg sérstakt tilefni gefist til þess, en ég kunni ekki við að láta málið fara út úr þessari d., án þess að fyrir lægi í Alþt. grg. frá mér fyrir viðhorfi mínu til þessa máls og þessarar alveg einstöku málsmeðferðar í stærsta og viðkvæmasta máli þjóðarinnar. Sannleikurinn er sá, að eftir þessa meðferð ríkisstj. á sjálfstæðismálinu er í raun og veru ómögulegt, — ég veit ekki, hvort það verður gert, — fyrir þjóðina að þvo af sér þá minnkun og smán, sem yfir hana hefur gengið, nema að þvo af henni þá ríkisstj., sem nú situr, og fylgi við þá ríkisstj., sem þetta hefur gert.