07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Þeir, sem þekkja þennan mann, þurfa að sönnu ekki að vera undrandi við það, hve ákaflega hlakkar í honum yfir því, að við skulum ekki geta stigið lokaspor sjálfstæðismálsins með þeim hraða, sem við óskuðum. En þegar það er fyrrv. forsrh., sem hlakkar yfir þessu, hljóta menn að skammast sín fyrir það, að þess konar manni skuli hafa verið lyft hér í þá stöðu og hann hafi setið í henni 7 ár. Það er sorglegt til þess að vita, að við skulum vera komnir á svona lágt stig, að helgasta viðfangsefni þjóðarinnar skuli vera dregið inn í deilur á þann hátt, sem nú er gert. Ég vil forðast stór orð, en það er sorglegt, hvernig jafnvel langur valdaferill getur skilið eftir svo lítinn stjórnmálaþroska til að koma sæmilega fram í stórmáli sem þessu. (HermJ: Drottinn minn, að heyra þessi svör!) Ég trúi því vel, að hv. þm. Str. þurfi núna að andvarpa til drottins síns og skilur þó hvergi nærri sjálfur, hve báglega hann er staddur með hinn auma málstað sinn.

Þessi hv. þm. talar um það sem eins konar glæp, að við sjálfstæðismenn skulum hafa haft hug á að ljúka stjórnarskrármálinu á þessu hausti og stjórnin ráðgert að bera málið fyrir þetta þing í frumvarpsformi. Hann talar þar um fávizku, glópsku og fljótfærni og lætur sér fleira slíkt um munn fara. En ef við sláum upp í fundabók stjórnarskrárnefndar 11. júlí í sumar, sjáum víð, að formaður Framsfl., sem kunnur er að því að hafa stöðugt verið mjög ákveðinn í að afgreiða sjálfstæðismálið sem fyrst, lætur bóka eftir sér, að hann vill, „vegna annarra nefndarmanna taka fram þá persónulegu skoðun mína, að ég tel sjálfsagt að ljúka nú í sumar eða haust sambandsslitum við Danmörku á grundvelli yfirlýsingar Alþingis 17. maí 1941 með þeim hætti, að stofnsett verði íslenzkt þjóðveldi, þar sem forsetinn tekur við starfi konungs eftir því, seni eðli málsins leyfir. Þessa breytingu vil ég mæla með, að þjóðin framkvæmi, annaðhvort með vel undirbúnum þjóðfundi eða með stjórnskipunarlögum, sem fái fyrst endanlegt gildi við almenna atkvæðagreiðslu allra kjósenda í landinu.“

Þetta leggur formaður Framsfl. til, að sé gert þegar á þessu sumri. Það er í fullu samræmi við allan hans vilja í þessu máli, og ég veit, að hv. þm. Str. sá þá ekki aðra leið réttari. Þegar hann kemur á næsta nefndarfund, 15. júlí, lýsir hann yfir og lætur bóka, að hann sé „fyrir sitt leyti samþykkur bókun þeirri, er Jónas Jónsson kom með á fundi nefndarinnar 11. þ. m., enda kunnugt um hana áður.“ Það er eftirtektarvert, að þessi þm. leggur áherzlu á, að sér hafi áður verið kunnugt um bókun flokksformannsins, og verður ekki annað frekar af því ráðið en hann hafi þá fyrir fram verið henni samþykkur.

Þarna stóð ekki á því, að hv. þm. Str. vildi stofna lýðveldið á þessu sumri. Svo kemur hann og segir: En mér bara datt ekki annað í hug en ríkisstj. væri búin að spyrja Breta og Bandaríkjamenn, hvort þeir væru því fylgjandi. — En því kom hann ekki, hinn reyndi stjórnmálamaður, fram með þetta í sumar og spurði : Hafið þið nú, drengir mínir, gert allt, sem þarf, spurt um þessi atriði? Eruð þið vissir um, að allt sé í lagi? Hann vildi 15. júlí óður og uppvægur stofna lýðveldið, en nú telur hann háskalegt glapræði að stíga nokkurt skref á þeirri braut. Ég veit ekki, hvað eru andstyggilegri látalæti en þetta og það í þessu máli, — þar sem hann snýst nú gegn till., sem hann varð fyrstur manna til að veita ákveðinn stuðning. Ég held, að hann hafi ekki sjálfur stungið upp á þessu. Eftir 3 ára samstarf við þennan mann verð ég að gefa honum þann vitnisburð, að honum er mjög sýnt um að velja úr till. annarra þá, sem bezt hentar, en frjór er hann ekki sjálfur. Nú vill hann velja þessari lausn, sem hann studdi, sem hraklegust orð. Þegar Framsfl. fékk um það fyrirspurn frá Sjálfstfl., hvort hann væri reiðubúinn að bera nú málið fram í frumvarpsformi, eða þá, hvaða leið hann vildi fara, svaraði hann engu öðru en því að vekja athygli á þeirri leið, sem nú liggur fyrir og hv. þm. Str. ræðst á. Hafi það verið nokkuð nema blekking, sýnir það, að þeir framsóknarmenn hafa gert ráð fyrir samþykkt einmitt þeirrar till. á þinginu, — hafa ekki gert málið upp á sama veg og hv. þm. Str. gerir nú, er hann kallar hana svík við fyrri ákvarðanir Alþ.

Ég vildi ekki standa í sporum þessa hv. þm., þegar búið er að upplýsa hina síbreytilegu afstöðu hans og framkomu á öllum stigum þessa máls. Hátterni hans getur gefið útlendingum tilefni til annarra eins ummæla og þeirra, að hér sé um að ræða „certain factions“ á Íslandi. Ef nokkur Íslendingur ber ábyrgð á því, að erlendar þjóðir hafa farið að skipta sér af þessum málum, þá er það þessi þm.

Um það, hvort nokkur ný viðhorf erlendra þjóða hafi verið kunn í málinu, þegar ákveðið var að leggja til að stíga lokaspor í sjálfstæðismálinu, get ég tekið örfátt fram. Þegar mér bárust skilaboð frá Bretum um málið eftir áramót 1941, verð ég að segja, að ég tók ekkert tillit til þess. Ég veit ekki, hverju hv. þm. Str., þáverandi forsrh., kann að hafa svarað. Þessi skilaboð bárust mér gegnum sendiherra Breta. En mér er kunnugt um, að síðar leit hinn sami sendiherra þeirra öðrum augum á sambandsmál okkar við Dani en í fyrstu, og ég tel mig hafa haft nokkra aðstöðu til að álíta, að ekki yrði frá Bretum mótspyrnu að vænta í sjálfstæðismálinu. Ég vil biðja hv. þm. að muna, að yfirlýsingin frá 17. maí 1941 um vilja Íslendinga til að setja af konunginn og segja upp sambandslögunum er aðalatriðið. Hitt er annað mál, hver hinn lagalegi réttur okkar er til að afnema konungdæmið, en um það kom ekkert nýtt fram. Nú vil ég, að hv. þm. Str. svari því, hverja hann spurði um ráð, þegar gerð var hin djarfa yfirlýsing 17. maí 1941. — Ef hann hefur spurt um leyfi eða ráð þá, sem ég veit ekki til, hefur hann gert það á bak við mig — eins og fleira. — Annars vil ég segja þessum hv. þm. það, ef hann er sá kappi, sem hann vill vera, þá fylgi hann bara mér í málinu, því að í þessu frv. eru möguleikar til þess að samþykkja lýðveldið á haustþinginu. Hann hefur aðstöðu til að koma á lýðveldi þá, ef ráðlegt þykir. Mér finnst lítið leggjast fyrir kappann, þegar hann telur það höfuðskömm að fylgja þeirri miðlunartill., sem hann varð fyrstur til að styðja, en skjalfest er, að áður var hann búinn að lýsa fylgi sínu við það að stíga nú lokasporið. Og það er honum, sem fylgzt hafði með málinu á öllum stigum þess og vissi allt hið sama og ég um afstöðu erlendra ríkja, mjög hæpin afsökun, að segjast nú hafa elt mig út í vitleysuna. Og ég spyr enn: Hverja eftirgrennslan hafði hann gert um hug stórveldanna til yfirlýsinganna 17. maí 1941?

Þessi ræða hv. þm. Str. var annars eins konar heildarútgáfa af ræðum Framsflþm., sem um málið töluðu í Nd. í gær. Ég hef aldrei heyrt eins illa á málum haldið fyrir þann flokk og þá, þó að ýmsu hafi mátt venjast áður, og er það e. t. v. skiljanlegt, — málefnaundirstaðan er ekki góð. Einn framsóknarmannanna taldi þetta frv. vera spor í áttina. Annar þm., hv. 1. þm. S.-M. var ekki beint fagnandi yfir frv., en ræddi það af nokkru hófi, en þessi hv. fulltrúi flokksins hér í deildinni, svo gott sem upphafsmaður hugmyndarinnar, telur hana og frv. vera forsmán. Aðeins einn tilgangur er eins og rauður þráður gegnum ræðuhöld Framsfl., það er að láta málið líta út eins og flokkshagsmunir heimta, — og hjá Sósfl. hefur einnig á því borið. — Jafnframt ásaka fulltrúar Framsfl. Sjálfstfl. fyrir að vilja hafa kosningahag af að beita sér fyrir sjálfstæðismálinu. Sú ásökun er tilhæfulaus. Í útvarpsræðu við síðustu kosningar lýsti ég yfir því, að það mál væri allra flokka mál, eins og það á að vera. Hér á Alþ. var þetta mál fyrst borið fram, er kjördæmaskipunarmálið var afgreitt, svo að ekki yrði hægt að blanda þeim saman.

Ég veit ekki, hvort nokkuð sýnir betur hug þm. Str. til sjálfstæðismálsins en það, að hann telur það svik við samþykktina frá 17. maí 1941 að reyna að fara að stofna lýðveldið á árinu 1942, en áður hefur hann ekki verið vissari á því en svo, að hann er búinn að taka undir þau ummæli, sem foringi hans lét bóka í stjórnarskrárnefnd 11. júlí í sumar, og syngur þar undir sinn bassa. En nú eru það svík! Er hægt að skýra það betur, hvernig hlakkar í þessum hv. manni, jafnskjótt og hann finnur örðugleika okkar í sjálfstæðismálinu?

Ég get látið þessari aths. minni lokið að sinni. Ég harma ákaflega mikið, að svo skuli hafa farið um þetta mál, að það skuli þurfa að verða opinbert deilumál, eins og orðið er og mun verða enn meir við komandi kosningar. En það er e. t. v. í samræmi við aðra hegðun hv. þm. Str. að leiða málið á þá braut. Ég hafði í lengstu lög vonað, að hann léti sér nægja að hafa þetta hátterni frammi á öðrum sviðum, en hlífði sjálfstæðismálinu við því.