07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Ég get verið stuttorður, því að bæði hefur afstöðu Sósfl. verið lýst í þessu máli og svo hef ég og aðrir hv. þm. öðrum störfum að sinna en halda uppi jafnómerkilegum og óþörfum umr. og gert hefur verið hér í dag. Ég mun lýsa afstöðu Sósfl. með nokkrum orðum.

Ég vil þá fyrst minna hv. þdm. á afstöðu Sósfl. í vor. Hann var þá á þeirri skoðun, að það væri engin óhjákvæmileg nauðsyn að afgreiða lýðveldisstjórnarskrána á þessu þingi, enda þótt hann teldi eðlilegt, að svo yrði, og mundi þess vegna fylgja því eindregið. Hann taldi, að þá bæri að endurskoða stjskr. og bezt færi á því, að sú endurskoðun og stofnun lýðveldis færi saman. Þá hefði þurft kosningar, og við það var ekkert að athuga. Sósfl. lítur öðruvísi á kosningar en hinir flokkarnir, sem telja þær hið mesta mein og eru hræddir við þær. Sósfl. álítur, að kosningar eigi að vera oft, sérstaklega þegar slík vandamál eru á döfinni sem nú.

Það var horfið að því ráði, að lýðveldi skyldi stofnað á þessu þingi og atriðið um æðstu stjórn landsins afgr. nú. Úr því að svo var komið, þá var ekki um það að sakast fyrir Sósfl., og hann hafði ekki annað í huga en fylgja málinu fast fram. Nú hafa skapazt ný viðhorf, sem hafa valdið því, að frá þessu hefur verið horfið nú. Um það var rætt allt þetta þing, bæði í flokkunum, í sérstökum n. og á lokuðum þingfundum, og niðurstaðan var þetta frv., sem hér er nú til umr. Afstaða Sósfl. til þessa frv. er sú, sem hv. þm. flokksins í Nd. hafa lýst og hv. þdm. mun vera kunnugt um. Sósfl. er óánægður með þessa afgreiðslu. Hann vildi, að lýðveldisstjskr. væri afgreidd á þessu þingi og fengi lokaafgreiðslu með þjóðaratkvgr. eða þjóðfundi, sem til yrði boðað með sérstakri löggjöf. Um þetta náðist ekki samkomulag, og meiri hl. Alþ. var á móti því. Úr því að svo var komið, taldi Sósfl. rétt að fylgja þessu frv. á þskj. 214. — Framsfl. er einnig óánægður með þetta frv., en vill ekki fylgja því, og einn aðalfulltrúi þess flokks hér í hv. d., hv. þm. Str., lýsti yfir því, að þetta plagg á þskj. 214 væri þjóðarsmán, þjóðarógæfa og niðurlæging. Þetta er ekki í samræmi við afstöðu flokksins að öðru leyti, því að hann situr hjá við atkvgr. málsins. Það er ekkert samræmi í því að segja, að þetta frv. sé þjóðarsmán og niðurlæging og sitja síðan hjá, en greiða ekki atkv. gegn þjóðarsmáninni.

Framsfl. er andvígur þessu frv., en hvaða till. hefur þessi flokkur í málinu? Um þetta var spurt áður í dag af hv. þm. Seyðf., en því var ekki svarað. Sósfl. þætti fróðlegt, ef Framsfl. gæti bent á einhverjar leiðir í þessu máli, en það getur hann ekki. Það er að vísu ekki alveg nákvæmt hjá mér, þegar ég segi, að Framsfl. hafi ekki komið með neinar till. í málinu, því að í 8 manna n. lagði hv. þm. Str. til, að farin yrði þessi leið, sem er á þskj. 214. Hann kom þannig fyrstur manna fram með þessa till. (HermJ: Þetta er ósatt.) Þetta er satt, og ég hef vitni að því, að hv. þm. Str. kom með þessa till. — Þegar aðrir flokkar vilja nú fara þessa leið, þá gengur Framsfl. á móti því og telur þá till. þjóðarsmán, þjóðarógæfu og niðurlægingu, sem hv. þm. Str. kom fyrst fram með. Síðan hafa ekki komið aðrar till. frá Framsfl., nema núna síðast frá hv. þm. Str., þar sem hann leggur til, að ekkert sé nú gert og gefizt upp. Hann minntist að vísu á þá leið, að setja kónginn af með byltingu, en ég treysti þeim byltingamönnum illa, sem byrja byltinguna á því að gefast upp. Ef litið er lauslega á málflutning Framsfl., þá er afstaða hans óskiljanleg, enginn botn í henni, en ef skyggnzt er dýpra, þá verður hún strax skiljanlegri. Afstaðan er nefnilega nákvæmlega sú sama og í dýrtíðarmálunum, sú sama og kom fram í hinu alræmda bréfi Framsfl., sem hann skrifaði hinum flokkunum á þessu þingi, þar sem hann óskaði eftir samstarfi við hina flokkana til þess að leysa vandamál þjóðarinnar, með því skilyrði, að kjördæmamálið yrði látið niður falla. Það er ekki aðalatriðið fyrir Framsfl. að bjarga þjóðinni, heldur að halda í sín gömlu sérréttindi. Önnur meining var ekki í þessu endemis bréfi. Nú er tilgangurinn sá sami, sem að baki býr. Framsfl. vill ekki lausn á þessu máli, nema kjördæmamálið verði látið niður falla. Þeim stendur alveg á sama um sjálfstæðismál þjóðarinnar, og þeir snúast nú öndverðir gegn því, aðeins með það fyrir augum að halda í sín gömlu sérréttindi. Þetta er hörð ádeila, en hún er sönn og verður ekki hrakin. Ég öfunda Framsfl. ekkert af að ganga til kosninga nú með jafnóhreinan skjöld og hann hefur.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en get endurtekið það, að Sósfl. mun fylgja þessu frv., þar eð ekki er um aðrar leiðir að ræða.