07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Bjarni Benediktsson:

í umr. um sjálfstæðismálið nú er talað um formleg sambandsslit við Danmörku og hvenær þau skuli verða. Er því svo látið sem þetta mál varði sameiginlega bæði löndin, Ísland og Danmörku.

Þetta er villandi. Sambandinu við Danmörku er þegar raunverulega slitið. Yfir því hefur sagan þegar kveðið upp sinn dóm. Það er dautt og vaknar áreiðanlega aldrei framar upp frá dauðum. Enginn ábyrgur Íslendingur mun nokkru sinni veita atbeina sinn til slíkrar uppvakningar.

Viðfangsefnið nú er því ekki viðskipti Dana og Íslendinga, heldur annars vegar, hvenær Íslendingum sjálfum lízt að staðfesta það í eigin stjórnskipunarlögum, sem sagan sjálf hefur óafturkallanlega sagt, og hins vegar, hvenær tekst að fá viðurkenningu stórveldanna á þessum aðgerðum Íslendinga.

Ég skal játa, að ekki er gott að átta sig á, hver er afstaða þeirra framsóknarmanna, sem mest hafa nú rætt um sjálfstæðismálið og lausn þess. Að svo miklu leyti sem nokkurn botn er að finna í kviksyndi hinna gagnstæðu fullyrðinga framsóknarmanna, þá skilst mér þó, að hann felist í þeirri fullyrðingu Hermanns Jónassonar, að sjálfstæðismenn og aðrir andstöðuflokkar Framsóknar hafi stefnt sjálfstæði, frelsi og áliti íslenzku þjóðarinnar í hættu, með því, án atbeina Framsóknar og án þess að atvik hafi á nokkurn veg breytzt, að „svíkja“ þá stefnu í þessum málum, sem upp hafi verið tekin með þingsályktununum 17. maí 1941.

Því fer að vísu fjarri, að enn hafi nokkurt óheillaspor verið stigið í þessu máli. Enn hefur sóknin látlaust verið fram á við, og allt, sem ríkisstj. og Alþ. hafa í málinu gert, hefur horft til góðs fyrir þjóðina. Þess vegna er ekkert tilefni til þess og mjög illa farið, að Hermann Jónasson skuli láta sem þjóðin hafi nú ratað í niðurlægingu og ógæfu vegna þess, að án atbeina Framsóknar hafi að tilefnislausu verið horfið af fyrri braut.

En vegna þessara fullyrðinga Hermanns Jónassonar verður að rifja upp tvennt. Í fyrsta lagi, hvort það sé að tilefnislausu, að talið hefur verið, að atvik í sjálfstæðismálinu hafi breytzt verulega, frá því Alþ. gerði ályktunina 17. maí 1941 og þar til málið var tekið upp á s. l. vori. Í öðru lagi, hvort það hafi verið andstæðingar Framsóknar einir, sem litu svo á, að veruleg breyting hafi átt sér stað, eða hvort framsóknarmenn hafi allt til þessa verið sömu skoðunar og aðrir landsmenn . um, að svo hafi verið.

Þá er fyrst á það að líta, að 17. maí 1941 segir Alþingi: „að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandslagasáttmálanum við Danmörku, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum að endanlegri stjórnarskipun ríkisins“.

Það ástand, sem í þessari ályktun er til vitnað var, að þá hafði Ísland verið hernumið af erlendu stórveldi, án samþykkis og þrátt fyrir mótmæli íslenzku þjóðarinnar og íslenzkra stjórnarvalda. — Stórveldi það, sem landið hafði hertekið, hafði ráðið íslenzku ríkisstjórninni frá því að ráða sjálfstæðismálinu til lykta að svo stöddu. Skildu menn það svo, að það væri vegna þess, að hið erlenda ríki teldi sig að vissu leyti bera ábyrgð á því, sem hér gerðist á meðan landið væri hernumið, og teldi því ekki heppilegt, að formlegri réttarstöðu Íslands væri breytt á meðan svo stæði. Hermann Jónasson, þáv. forsrh., hélt þessari erlendu vísbendingu mjög á loft og lagði á hana ríka áherzlu í harðri deilu, sem hann þá átti í blaðinu Tímanum við formann Framsóknar, Jónas Jónsson. Síðan hefur Hermann Jónasson einnig skýrt frá því, að sendimaður Bretlands, sem þessa aðvörun bar fram, hafi talið, að hún væri gefin með vitund Bandaríkjanna. En þá, snemma árs 1941, höfðu Bandaríkin, gagnstætt því, sem almennt hafði verið álitið hér á landi; enn eigi viðurkennt algert frelsi og fullveldi Íslands og beinlínis hliðrað sér hjá að senda hingað erindreka með diplomatísku umboði, sendiherra, heldur látið sér nægja að hafa hér ræðismann.

Er það nú rétt, að enn sé hið sama ástand í þessum efnum og var vorið 1941? Ég fullyrði, að það hafi gerbreytzt.

Landið var ekki lengur hernumið í sama skilningi og þá var. Yfirstjórn þeirra herja, sem hér dveljast nú, er í höndum ríkis, sem Íslendingar sjálfir hafa falið hervernd landsins. Hlýtur það vissulega mjög að breyta aðstöðu allri og viðhorfi, hvort landið er hernumið gegn mótmælum þjóðarinnar eða verndað ef her, sem hér dvelst með samþykki þar til bærra ísl. stjórnarvalda. — Ákvarðanir, sem við höfðum ekki geð í okkur til eða hirtum eigi um að gera á meðan hér á landi var her í okkar forboði, getum við haft fulla ástæðu til að gera, þegar hér situr her með samþykki okkar. Og þótt ríki láti sig ekki einu gilda, hvað gert er í landi, sem það hefur hertekið, þá má ekki þar af álykta, að það haldi áfram afskiptum sínum eftir að hertökunni er lokið og við hefur tekið hervernd annars ríkis. Þvert á móti verður að ætla, að þá sé lokið þeim afskiptum, sem vegna hertökunnar voru gerð.

Þá vil ég enn fremur vekja athygli á því, sem að vísu hefur áður verið gert í umr. um þetta mál, að í því samkomulagi, sem gert var í júní-júlí 1941 við Bandaríkin um hervernd þeirra á Íslandi, þá er berum orðum tekið fram, að Bandaríkin skuldbinda sig til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands og að beita öllum áhrifum sínum við þau ríki, er standa að friðarsamningunum eftir yfirstandandi ófrið, til þess að friðarsamningarnir viðurkenni einnig algert frelsi og fullveldi Íslands. Enn fremur er tekið fram, að talið sé sjálfsagt, að Bandaríkin viðurkenni þegar frá upphafi þessa réttarstöðu Íslands, enda skiptist bæði ríkin strax á diplomatískum sendimönnum. Loks er þess að geta, að Bretland gerði af sinni hálfu alveg sams konar skuldbindingar og Bandaríkin um réttarstöðu Íslands.

Með þessari samningagerð var réttarstaða landsins því, a. m. k. formlega, miklu betur tryggð en nokkru sinni áður. Bandaríkin ákváðu þá fyrst að senda diplomatískan sendimann til landsins og viðurkenndu þá fyrst algert frelsi og fullveldi þess. — Í samningagerðinni felst, að Íslendingar eigi sjálfir að ráða stjórnarháttum sínum, án íhlutunar þeirra ríkja, sem undir skuldbindingarnar gengust, Bretlands og Bandaríkjanna. Því að það er frumréttur hverrar þjóðar, sem fengið hefur viðurkenningu fullveldis síns, að hún ráði sjálf að öllu leyti stjórnarskipun sinni.

Enda er það sérstaklega vitað um Bandaríkin, að þau, vegna uppruna síns og allrar sögu, þar sem þau eru til orðin eftir frelsisstríð við móðurland sitt, Bretland, — hafa ætíð talið það leiða af sjálfsákvörðunarrétti hverrar fullvalda þjóðar, að hún ráði sjálf stjórnarskipun sinni. Hafa þau og ætíð staðið gegn því, að slík íblöndun annarra ríkja ætti sér stað. Má benda á mörg dæmi úr sögunni þessu til sönnunar. Ég skal þó aðeins nefna byltinguna í Rússlandi 1917, þegar Englendingar, Frakkar og ýmsir aðrir bandamenn þeirra vildu hafa íhlutun um, hverja stjórnskipun rússneska þjóðin veldi sér. Bandaríkin beittu sér þá á móti þessum afskiptum og sögðu, að Rússar ættu að ráða þessum málum sjálfir.

Loks ber á það að minna, að sjálfir samningarnir um herverndina bera það með sér, að bæði Bretland og Bandaríkin viðurkenndu, að sambandssáttmálinn við Danmörku væri í raun og veru úr sögunni. Það er vitað, að Bandaríkin vildu ekki senda her sinn hingað, nema samþykki réttra stjórnarvalda kæmi til. En ef sambandslögin voru enn í gildi, er ljóst, að stjórnarvöldin hér á landi gátu ekki ein gefið lögformlegt samþykki til þessara aðgerða. Þá hefði til þeirra þurft milligöngu og atbeina utanríkisráðherra Dana í Kaupmannahöfn.

Hervernd Bandaríkjanna hvílir því beinlínis á þeirri forsendu, að sambandslögin séu í raun og veru úr sögunni og Íslendingar hafi heimild til þess að skipa málum sínum, án þess á nokkurn hátt að vera af þeim bundnir. En erfitt er, jafnvel þótt öllum lögfræðilegum hugleiðingum sé sleppt, að telja mönnum trú um, að þau bönd fái bundið þjóðina á hættulausum tímum, er byrjað verður með að leysa í hvert sinn, sem verulegur vandi er á höndum.

Það er því ljóst og óumdeilanlegt, að mjög verulegar breytingar höfðu orðið á aðstöðu allri og ástandi í þessum efnum frá 17. maí 1941 og þar til stjórnarskrármálið var tekið upp á síðast liðnu vori. Hinar breyttu aðstæður réttlættu fyllilega þá skoðun, að Íslendingar þyrftu eigi framar að hlíta afskiptum annarra um það, hvenær þeir vildu stíga síðasta sporið í sjálfstæðismáli sínu, né kvíða því, að viðurkenning á þessum aðgerðum fengist eigi hjá þeim stórveldum, sem öllu geta ráðið um hagi okkar.

Og ég læt mér ekki nægja að fullyrða, að þessi skoðun hafi verið réttmæt, heldur fullyrði ég einnig, að þessi hafi verið hin almenna skoðun Íslendinga eftir samningana um herverndina.

Þessu til sönnunar vil ég vitna í ummæli mín í ræðu, er ég hélt héðan af svölum alþingishússins 1. des. s. l. Ég geri það ekki vegna þess, að ég telji þau orð sérstaklega merkileg, heldur til að sýna, að það, er ég nú hef sagt, er ekki fundið upp að þjónkun við flokk minn, heldur mælt af sannfæringu um, að rétt mál sé flutt. Í hinni tilvitnuðu ræðu drap ég á herverndarsamningana og segi síðan, með leyfi hæstv. forseta :

„Skal það ekki frekar rakið hér, en einungis rifjað upp, að í þeim samningum, sem um þetta urðu, skuldbundust þessi tvö ríki, sem vegna hnattstöðu sinnar gætu öllu ráðið um örlög Íslands, til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi landsins og beita öllum áhrifum sínum við þau ríki, sem standa að friðarsamningum, til þess að einnig þá verði viðurkennt algert frelsi og fullveldi Íslands.

Ef Íslendingum hefði fyrir fram verið sagt, að um þær mundir, er þeir hefðu öðlazt rétt til að taka öll sín mál í eigin hendur, hlytu þeir jafnskýlausa viðurkenningu þessara tveggja stórvelda sem þá, er þeir nú hafa fengið, mundi engum hafa blandazt hugur um, að þann rétt ætti að nota.“

Skömmu síðar segi ég:

„Hlýtur því óðum að því að líða, að Íslendingar noti rétt sinn og komi stjórnarskipun sinni í fast horf, svo að þeir megi við hana una um fyrirsjáanlega framtíð.“

Þessari skoðun var þannig haldið fram á áberandi stað á hátíðisdegi þjóðarinnar. Ég hef eigi orðið þess var, að þessari skoðun hafi verið mótmælt. Þvert á móti fullyrði ég, að þetta hafi ekki verið einkaskoðun mín, heldur ráðandi skoðun Íslendinga á þessum tíma, og ég vitna einungis í mín eigin ummæli af því, að þau eru mér tiltækust. Í betra tómi mætti sjálfsagt finna miklu fleiri tilvitnanir þessu til staðfestingar.

Réttmæti þeirra fullyrðinga, að á s. l. vori og sumri hafi skoðun Íslendinga í þessum efnum verið sú, er ég nú hef lýst, og þar með, að það sé alrangt, að framsóknarmenn hafi þá haft nokkra sérstöðu í þeim, sést og glögglega, þegar athugað er, með hverjum atvikum sjálfstæðismálið var tekið upp á síðast liðnu vori. Þá einmitt kemur í ljós, að sjálfstæðismálið var á síðasta þingi tekið upp af Framsfl. í till. til þál., sem nokkrir þm. hans fluttu í sambandi við kjördæmamálið. — Till. var um kosning stjórnarskrárnefndar og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Alþingi ályktar að kjósa 5 manna milliþinganefnd á þessu þingi. Hlutverk hennar er að endurskoða rækilega stjórnarskrá ríkisins, og skal hún sérstaklega miða starf sitt við það, að Ísland sé fullvalda lýðveldi, á traustum lýðræðis- og þingræðisgrundvelli. Vanda skal nefndin svo til tillagna sinna, að vænta megi, að stjórnarskráin geti verið til frambúðar. Nefndin kýs sér formann. Kostnaður við nefndarstörfin greiðist úr ríkissjóði:“

Í grg. till. segir m. a.:

„Nú er svo háttað, að þörf er gagngerðra breytinga á stjórnarskránni vegna breyttrar réttarstöðu landsins gagnvart öðrum löndum. Breyta þarf ákvæðum stjórnarskrárinnar um æðsta vald í málefnum ríkisins og ákveða, hvernig því skuli fyrir komið, og yfirleitt breyta þannig stjórnskipunarlögunum, að þau verði í fullu samræmi við þingsályktanir Alþingis frá 17. maí 1941“. Þ. e., að sambandssáttmálanum verði formlega slitið og lýðveldi stofnað.

Í till. sjálfri og þessum ummælum grg. kemur alveg tvímælalaust fram, að Framsókn þá telur rétt að taka stjórnarskrármálið og sjálfstæðismálið þar með til meðferðar. Berum orðum er talað um breytta réttarstöðu landsins. Ég vek athygli á, að ótvírætt kemur fram, að það sé einungis undir Íslendingum sjálfum komið, hvenær þeir taka þessar ákvarðanir, þótt á hitt sé lögð áherzla, að vel skuli vanda það, sem lengi á að standa. Hvergi er með einum stafkrók að því vikið, að af öðrum ástæðum en þessum sé varhugavert að afgreiða stjórnarskrármálið þá þegar. Slíkt hefði þó vissulega verið gert, ef flm. hefðu talið, að enn væru fyrir hendi þeir annmarkar, sem flokksbróðir þeirra, fyrrv. forsrh. Hermann Jónasson, hafði árið áður lagt megináherzlu á.

Aðrir flokkar þingsins álitu, að þessi aðferð Framsóknar væri ekki hin heppilegasta. Ástæðan til þess var sú, að það kom fram bæði í till. sjálfri, grg. hennar og umr. á vorþinginu, að Framsókn vildi tengja saman fullnaðarafgreiðslu sjálfstæðismálsins annars vegar og kjördæmamálsins hins vegar. Hún vildi láta afgreiða hvort tveggja samtímis. Allir aðrir flokkar þingsins voru um þetta á annarri skoðun. Þeir töldu mesta óráð að blanda þessu saman. Þeir töldu, að kjördæmamálið væri slíkt deilu- og hitamál, að ef það yrði ekki afgreitt á undan sjálfstæðismálinu, þá mundi það um ófyrirsjáanlega langan tíma þvælast fyrir sjálfstæðismálinu og hafa þau áhrif, að ekkert væri í því gert og að þjóðin stæði ekki sameinuð um frelsisstjórnarskrá sína, þegar tímabært þætti að afgreiða hana. Og mig furðar satt að segja á málflutningi framsóknarmanna, að þeir skuli enn leyfa sér að halda því fram, að heppilegt hefði verið að tengja þessi tvö mál saman, eftir að reynslan er búin að sanna og þeir með eigin framferði að gera kjördæmamálið að einu hinu mesta hatursmáli, sem í þingsögunni greinir. Þar sem framsóknarmenn láta þetta mál standa í vegi fyrir þjóðhollri samvinnu um öll stórmál, sem fyrir þinginu liggja, jafnvel eftir að þjóðin hefur ótvírætt svo fyrir mælt, að kjördæmabreytinguna skuli samþykkja, og búið er að afgreiða hana og staðfesta á stjórnskipulegan hátt. Þegar þeir bregðast svo við kjördæmamálinu, eftir að búið er að afgreiða það til fulls, hvernig halda menn þá, að það hefði verkað á samlyndið um sjálfstæðismálið, ef bæði málin hefði átt að afgreiða samtímis? Og hvenær hefði sjálfstæðismálið verið afgreitt, ef bíða hefði átt með afgreiðslu þess, þar til Framsókn féllist á, að sérréttindi hennar í kjördæmamálinu væru afnumin?

Ég hef hér á undan rakið afstöðu Framsóknar til stjórnarskrármálsins, tvískinnung flokksins í því máli, er flokkurinn flytur till. um að skipa milliþn. í málið, en vildi þó, vegna kjördæmamálsins, láta allar stjórnarskrárbreytingar bíða. Þetta kemur glögglega fram við athugun á till. þeirri, er framsóknarmenn fluttu um skipun milliþinganefndar. En það sést einnig af því, hvernig framsóknarmenn brugðust við brtt. þeirri, sem sjálfstæðismenn og Alþýðuflokks báru fram við þessa till., en brtt. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 5 manna milliþinganefnd til þess að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum ríkisins í samræmi við yfirlýstan vilja Alþingis um, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi, og skili nefndin áliti nógu snemma til þess, að málið geti fengið afgreiðslu á næsta Alþingi. Nefndin kýs sér sjálf formann. Nefndarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.“

Þessi brtt. var samþ. með 25 atkv. gegn 19, þ. e. öllum framsóknarmönnunum. Með þessu var ákveðið að skilja í sundur kjördæmamálið og sjálfstæðismálið. Á móti því var Framsókn. En hinu var hún alls ekki andvíg, að sjálfstæðismálið væri tekið upp, ef kjördæmabreyting þegar í stað varð eigi með neinu móti umflúin. Þegar búið var að breyta hennar upphaflegu till., þá sátu þm. hennar þess vegna hjá og greiddu ekki atkv. um till. svo breytta. Og Framsókn sýndi stjórnarskrárnefndinni, sem undirbúa átti sjálfa frelsisstjórnarskrána, hina mestu virðingu, þar sem hún kaus í nefndina tvo sína fremstu menn, þótt ólíkir séu, þá Jónas Jónsson og Hermann Jónasson.

Störf þessara tveggja forustumanna Framsóknar í nefndinni sýna það og óumdeilanlega, að það var breyting á stjórnarskránni vegna kjördæmaskipunarinnar, sem þeir voru á móti, en alls eigi breyting, sem eingöngu væri vegna lokaákvörðunar í sjálfstæðismálinu. Fundargerðabók stjórnarskrárnefndarinnar, sem þegar hefur raunar verið svo rækilega vísað til, að ég get látið mér nægja að drepa á hana, sannar þetta ótvírætt. Þar kemur fram, að alger breyting verður á afstöðu framsóknarmanna, eftir að alþingiskosningarnar í sumar voru búnar að sýna, að kjördæmamálið yrði eigi stöðvað.

Á meðan framsóknarmenn vonuðu, að þeir gætu fengið stöðvunarvald gegn kjördæmabreytingunni, þá lýsti Jónas Jónsson yfir því, að hann teldi mjög tvísýnt hagnýti þeirrar ráðstöfunar að ætla að afgreiða sjálfstæðismálið á því þingi, sem nú stendur yfir. Þessu lýsti hann yfir eitthvað um 20. maí. En nokkrum dögum eftir kosningarnar, þegar vonin um stöðvun á kjördæmamálinu var rokin út í veður og vind, þá lýsir hann óhikað yfir því, að hann telji, að sjálfstæðismálinu beri að ráða til lykta á þessu þingi. Og Hermann Jónasson tók undir þessa yfirlýsingu flokksformanns síns. — Strax á fyrsta fundi, sem hann kom á, eftir að sú yfirlýsing var gefin, þá notaði hann fyrstu orðin, sem hann lét bóka, til þess að lýsa yfir, að hann væri þessu sammála.

Hermann Jónasson vill nú láta líta svo út sem hann hafi gert þetta vegna þess, að ríkisstj. hafi látið einhverjar eftirgrennslanir fara fram hjá erlendum ríkjum, sem sýndu, að óhætt væri að taka málið upp. Ég var á öllum fundum stjórnarskrárnefndarinnar, og ég fullyrði, vegna þess að ég heyrði hað með mínum eigin eyrum, að ekkert slíkt vakti þá fyrir Hermanni Jónassyni. Hann var þá alveg jafnsannfærður um það eins og við hinir nefndarmennirnir, að af hálfu annarra ríkja væri eigi framar um að ræða örðugleika í þessu máli, heldur væri það eingöngu undir vilja okkar sjálfra komið, hvenær við stigum í því fullnaðarsporið.

Hermann Jónasson gerði margar athugasemdir í nefndinni. Það er rétt. Sumar þeirra eru bókaðar. En öll hans málfærsla var í þá átt, að rangt hefði verið að taka kjördæmamálið út úr og gera þyrfti enn frekari breytingar á stjórnarskránni en af sjálfri lýðveldisstofnuninni leiddi. Kjósa bæri forseta, sem hefði eins konar einræðisvald í málefnum ríkisins, gæti sjálfur valið sér ráðherra og annað slíkt. Hann taldi, að langan tíma tæki að koma sér niður á, hvernig þessu yrði bezt fyrir komið, og sú stjórnarskrárbreyting, sem nú ætti að gera vegna sjálfstæðismálsins, gæti því ekki orðið nema til bráðabirgða. Enda væri þegar til stjórnarskrárfrv., sem til slíkrar afgreiðslu nægði, og væri starf nefndarinnar því nánast óþarft, þar sem málið . væri fullundirbúið til þvílíkrar skyndilausnar. En aldrei nefndi hann það einu orði, að vegna aðstöðunnar til annarra ríkja væri varhugavert að hreyfa sjálfu sjálfstæðismálinu nú.

Ég hef hér að framan sýnt fram á svo skýrt, að eigi verður um deilt, þetta tvennt:

Í fyrsta lagi, að þau atvik, sem 17. maí 1941 gerðu að verkum, að þá þótti eigi tímabært að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnskipun ríkisins, voru úr sögunni á síðast liðnu vori og í þeirra stað komin sú aðstaða, að ætla varð, að einmitt þá væri rétti tíminn til að taka málið upp til endanlegrar afgreiðslu.

Í öðru lagi, að Framsfl. átti fyllilega sinn þátt í því, að málið var tekið upp. Forustumenn hans áttu sæti í stjórnarskrárnefndinni og lýstu því þar með ótvíræðum orðum, að þeir teldu rétt að afgreiða málið, eftir að sýnt var, að kjördæmabreytingin náði fram að ganga.

Framsóknarmenn reyna nú að sanna, að það sé vegna þess, að við sjálfstæðismenn teljum, að við höfum hlaunið á okkur í málinu, að við leggjum megináherzlu á hin breyttu atvik eftir 17. maí 1941 og á það, að Framsókn hefur allt til þessa viðurkennt, hverja þýðingu þessi breyting hefði, og þar af leiðandi átt sinn þátt í þeim aðgerðum, sem hún nú afneitar. Framsóknarmenn vilja nú halda því fram, að þjóðin sé vegna þessara aðgerða lent í ófremd og smán, og ástæðan til þessa sé sú, að gengið hafi verið á gefin grið við Framsókn og málið tekið' upp á móti hennar vilja.

Það er satt, að við sjálfstæðismenn mótmælum því, að þetta sé sannleikanum samkvæmt. En við mótmælum því ekki vegna flokkshagsmuna okkar. Þvert á móti. Í innanlandserjunum við Framsfl. er varla unnt að hugsa sér betri vígstöðu en þá, ef hann kýs sér þann reit að halda því fram, að með herverndarsamningunum og öllum afleiðingum þeirra hafi engin aðstöðubreyting orðið Íslendingum til hags í sjálfstæðisbaráttu þeirra. Sá, sem slíku heldur fram, getur eigi gert það vegna neins annars en þess, að hann vill ekki, að Ísland verði sem allra fyrst frjálst. Hann vill ekki halda þeim hætti feðra okkar og fyrirrennara að standa ætíð fast á ýtrasta rétti landsins og linna aldrei baráttunni fyrr en síðustu leifum ófrelsisins er rutt úr vegi.

Það kann að vera, að framsóknarmenn telji, að ef þeir veldu sér slíkan málstað, þá mundi hann vera vænlegur til fylgis hjá þjóðinni. Við sjálfstæðismenn höfum allt aðra skoðun. Við sjálfstæðismenn öfundum framsóknarmenn sannarlega ekki, ef þeir vilja hverfa frá eigin fortíð og fara nú að halda þvílíku fram.

En hér er alls eigi um að ræða aðstöðu flokkanna í baráttu þeirra inn á við, heldur um hitt, hvernig fara eigi að til þess að fá fullt frelsi þjóðarinnar sem fyrst viðurkennt af hinum erlendu þjóðum, er við eigum mest skipti við. Þetta eitt getur nú haft þýðingu, og fyrir því verður allt annað að lúta í lægra haldi.

Það er vegna þess, að mér er þetta ljóst, sem ég segi, að ef Framsfl. ætlar sér nú, vegna hagsmuna sinna af því að lítillækka Sjálfstfl., að fara að lítillækka sjálfstæðisviðleitni þjóðarinnar og gera lítið úr fengnum réttindum hennar og viðurkenningu stórveldanna á þeim, þá er það stærsta og geigvænlegasta syndin, sem þessi flokkur hefur nokkru sinni drýgt gegn þjóð sinni.

Stjórnmálamönnum erlendra þjóða þykir það vissulega harla kynlegt, að svo lítil þjóð í stóru og erfiðu landi, hér norður á hjara veraldar, sem við Íslendingar, skuli ætla sér þá dul að vera sjálfstætt ríki. Við skulum gera okkur það alveg ljóst, að þessi vantrú hefur við mikið að styðjast og að við getum ekki á henni sigrazt nema við leggjumst á það allir sem einn að kveða hana niður. Við skulum aldrei láta okkur falla úr minni, að þeir af erlendum stjórnmálamönnum, sem af einhverjum ástæðum hafa talið sig hafa hag af því að standa á móti sjálfstæðisóskum Íslendinga, hafa ætíð lagt á það höfuðáherzlu, að það væru einungis fáir Íslendingar, sem í alvöru meintu þá fjarstæðu, að Ísland ætti að vera alfrjálst. Við skulum ekki gleyma stjórnmálamanninum erlenda, sem hingað kom og sagði síðan, að hann hefði einungis hitt einn stjórnmálamann í fremstu röð, sem vildi, að Ísland yrði alfrjálst lýðveldi. Og í framhaldi af þessu var því lætt út, að þessi eini maður væri hálfgert gamalmenni, sem eigi væri mikið mark takandi á. Nei, Íslendingar verða að hafa það hugfast, að skæðasta vopnið á móti frelsisþrá okkar hefur ætíð verið það, að það væri ekki nema lítill hópur, fáeinir menn, sem áhuga hefðu á fullu frelsi þjóðarinnar.

Íslendingar sjálfir vita, að þótt svo virðist á stundum, sem furðuhljótt sé um óskir þjóðarinnar í þessum efnum, þá er það eigi af áhugaleysi, heldur af hinu, að hún telur óþarft að eyða orðum að því, hvort til fulls eigi að afmá síðustu trefjar hins aldagamla ófrelsisbands. Í hópi Íslendinga hafa úrtölumennirnir í þessu efni því aldrei verið öfundsverðir. Er það nú samt, þrátt fyrir þetta, alvara framsóknarmanna að skipa sér í þennan lítt öfundsverða hóp úrtölumannanna? Er það alvara þeirra, að rangt hafi verið að knýja á dyrnar um það, að Íslendingar tryggðu fullt frelsi sitt á stjórnskipulegan hátt í skjóli þeirrar viðurkenningar, sem fengin var? Er það alvara þeirra að gefa erlendum stjórnmálamönnum færi á að segja, að það séu einungis sumir Íslendingar, sem vilji algert frelsi þjóðinni til handa? Ef framsóknarmenn í alvöru og að athuguðu máli taka sér þessa stöðu, þá er það eflaust vegna þess, að þeir telja sig þar með auka fylgisvonir sínar við kosningarnar í haust. Ég er þess fullviss, að í því bregzt þeim bogalistin.

En setjum nú svo, að Framsókn takist að gera alla hina flokkana tortryggilega með því að gera lítið úr réttindum landsins og ynni á því nokkur atkv. Er það þá tilvinnandi fyrir flokk, sem í 15 ár samfleytt hefur átt forsrh. landsins, er enn stærsti flokkur þingsins og annar stærsti flokkur þjóðarinnar, að vinna einhvern óverulegan kosningasigur með því að ganga í lið með vantrúnni á frelsisréttindum þjóðarinnar?

Framsfl. mun svara fyrir sig. En það er víst, að ef einhverjir menn eru til, sem vilja koma í veg fyrir, að íslenzka þjóðin fái fullt frelsi, þá geta þeir eigi kosið sér betri bandamann en þann, sem slíka aðstöðu hefur sem Framsfl.

Talað hefur verið um sterka og veika leið á þessu máli, eftir því, hverjar samþykktir Alþ. gerir nú. Í málinu er ekki til nema ein sterk leið, og hún er sú, að allir Íslendingar standi saman um það, að við fáum fullt frelsi svo fljótt sem nokkur kostur er á.

Það er alveg víst, að við náum ekki frelsinu eða viðurkenningu þess með fjandskap við þau voldugu herveldi, sem hér eru. Við erum allt of veikir, fáir og smáir til þess, að okkur stoði að beita venjulegum vígvélum. Eina vopnið, sem okkur er tiltækt, og eina vopnið, sem þær göfugu þjóðir, sem hér eiga hlut að, beygja sig fyrir, er það, ef við Íslendingar berum gæfu til að standa saman sem einn maður um rétt okkar, ekki með neinu offorsi, sem leiða kann til þess, að við missum það, sem þegar er fengið. Sjálfsákvörðunarrétti okkar megum við vissulega ekki láta misbjóða. En við verðum að beita honum með hófi og stillingu og aðgæzlu á öllum atvikum hverju sinni.

Þingið fer nú einmitt svo að með samþykkt þeirra stjórnskipunarlaga, sem fyrir liggja. Með þeim er, eins og fyllilega hefur verið sýnt fram á í þessum umr., hægt að ná settu marki nákvæmlega jafnsnemma og með nokkurri annarri leið, sem til álita hefur komið í þessu máli. Því fer þess vegna fjarri, að nú sé lagt á nokkurt undanhald í þessu máli. Þeir menn, sem því halda fram, hvar í flokki sem þeir eru, hafa gersamlega misskilið kjarna þessa máls, misskilið að það, sem okkur nú ríður á, er að öðlast viðurkenningu stórvelda þeirra, sem öllu geta ráðið um okkar hag, á úrslitaákvörðunum okkar í þessu efni, misskilið, hvernig okkar litla þjóð á að ná þessari viðurkenningu. Það verður sannarlega ekki gert með því að loka augunum fyrir því, sem umhverfis okkur er að gerast.

Hitt er fullkomið undanhald, sem getur leitt til algerrar uppgjafar, ef við sjálfir byrjum á innbyrðis ásökunum og illindum út af þessu máli. Slíkt tjáir sannarlega ekki, ef við viljum berjast fyrir fullu frelsi, og slíkt er áreiðanlega ekki málum okkar til fyrirgreiðslu.

Framsfl. einn hefur engan hlut viljað að þessu eiga. Hjá honum hefur ætíð hið sama kveðið við: Fyrst kjördæmamálið. Síðan allt annað. Ef kjördæmamálið er lagt á hilluna, þá erum við viðmælandi, en ef svo er ekki gert, þá er ekki hægt að ætlast til þess af okkur, að við tökum þátt í nokkru slíku samstarfi.

Á þessu þingi hafa sannarlega komið fram óvænt viðhorf í sjálfstæðismálinu. Viðhorfið út á við er að vísu vissulega óvænt og annað en við höfðum rökstudda ástæðu til að ætla. En ég hef þá trú, að þær hindranir, sem þar hafa komið fram, hvíli að langmestu leyti á misskilningi. Og jafnvel þótt svo væri ekki, þá eru þær hindranir einungis til bráðabirgða, og í sambandi við þær hefur fengizt greinilegri viðurkenning á sjálfsákvörðunarrétti íslenzku þjóðarinnar á venjulegum tímum en nokkru sinni fyrr hefur fengizt. Út á við hafa því síður en svo nokkrar óyfirstíganlegar hindranir komið fram. Viðhorfið inn á við er miklu ískyggilegra. Sigrar út á við eru engan veginn vonlausir. En vonin til þeirra hlýtur mjög að minnka, ef Íslendingar kunna ekki að standa saman um þetta mál. Á meðan þeir hafa í frammi slíkan málflutning, slík illindi og brigzlyrði sem framsóknarmenn hafa gert sig seka um, bæði í gær og í dag, en þó einkum hv. þm. Str. (HermJ) í ræðu sinni í morgun, þá horfir ekki vænlega um framgang hins æðsta áhugamáls íslenzku þjóðarinnar.

Með því stjórnskipunarlagafrv., sem hér liggur fyrir, er á mjög einfaldan, en áhrifaríkan hátt greitt fyrir því, að sjálfstæðismálið geti orðið afgreitt, hvenær sem tímabært þykir. Ég skal ekki um það segja, hvort takast megi að afgreiða það til fullnaðar á næsta þingi. En ég er sannfærður um, að þegar Íslendingar leggja niður innbyrðis deilur, að þegar þeir slökkva það bál haturs og illinda, sem Framsfl. kynti, er skammta átti honum sama rétt og öðrum landsmönnum, að þegar Íslendingar skilja, að frelsisþrá sína verða þeir að setja öllu öðru ofar, þá er skemmra að markinu en margur hyggur. Og þá munu ekki verða um það skiptar skoðanir, að með samþykkt þessa frv. er stigið markvert spor í sjálfstæðissögu þjóðarinnar.