07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Ég vil ekki láta það ómótmælt, sem eru alveg tilhæfulaus ósannindi, að Framsfl. hafi verið boðinn þáttur í samstarfi um mikilvægustu þjóðmál á þessu þingi. Það er afsökun þessa hv. þm., að hann veit ekkert um þetta. Hann hefur haldið því fram á opinberum fundi, að Gústaf Svíakonungur stefndi að keisaravaldi yfir Norðurlöndum og tilgangur Svía með lánveitingum hingað væri að ná því marki, og meðan hann heldur sig á þessum keisaralegu skáldhæðum, mælir hann með sér sjálfum til síns hlutverks, — að vera þingfífl. — Hitt er óviðkunnanlegt, ef hann, sem ekkert veit um störf 8 manna nefndarinnar, ætlar að kenna okkur eitthvað fróðlegt um hana eða fullyrðir, að það sé merki um samvinnuvilja við Framsfl., þegar felldir eru forsetar, sem búnir eru að gegna starfi 8 ár og eru svo viðurkenndir fyrir réttdæmi og aðra kosti, að margir andstæðingar hefðu enga forseta fremur viljað, en með því kappi gengið að því að fella Einar Árnason, 2. þm. Eyf., úr forsetastóli, að til þess varð að gefa forsetaúrskurð, sem hægt er að hrekja lið fyrir lið og aðstandendum hans hefur ekki tekizt að verja. Það vita allir og sjá, að samstarf við Framsfl. var eina leiðin til að stöðva þá upplausn, sem orðin er svo mikil, að einn af yngri útgerðarmönnum, sjálfstæðismaður, sagði við mig fyrir nokkrum dögum, að eftir stuttan tíma gætu engir haldið uppi útgerð nema fáeinir stærstu togararnir, annar sjávarútvegur færi í kaldakol. Þegar meðalkaup háseta kemst í 40–50 þús. kr. hjá Eimskipafélagi Íslands eða á togurunum og stríðinu síðan lýkur og aftur á að fara að pilla sig niður á það stig, sem t. d. frændur okkar, Norðmenn, eru á, — þá yrði lítið eftir af Eimskipafél. Íslands og einhverju fleira. Hverjum dettur svo í hug, að það, sem Sjálfstfl. þurfti mest með, hafi verið kjördæmaskipunarmálið? Þegar að því er stefnt, að sparifé í landinu verði álíka verðlaust og í Þýzkalandi í eina tíð, þá er sagt það sé í þágu heilags málefnis Sjálfstfl. En eins og ég hef skýrt með sögulegum rökum, er orsök upplausnarinnar brella, sem fundin var upp til að sprengja samstarf sjálfstæðismanna og Framsfl., og þó að hinir skynsamari þeirra sæju upplausnina fyrir, gátu þeir ekki spyrnt við fótum. Það er ekki um stjórnarskrármál að tala í þessu sambandi, heldur afleiðingar þess óheillaráðs, sem Sjálfstfl. tók. Að hugsa sér þá svívirðingu, þegar auglýst er á hverju skipi, svo að segja, missætti út af því, hvort hærri skuli vera áhættuþóknun yfirmanna eða háseta og kyndara eða jöfn, eins og nú er metizt mest um, og annað ekki betra. Þetta er sjálfsagt eins gott fólk og annars staðar hér á landi, en þetta er eitur í þjóðlífinu út frá þeirri óheilladeilu, þegar Sjálfstfl. lét leiðast út í ófrið á hendur samstarfsflokki sínum. Slík glópska verður aldrei afsökuð, þó að hv. 5. þm. Reykv. beiti til þess allri rökfimi sinni.