07.09.1942
Efri deild: 25. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Ég vil aðeins benda á það, að Framsfl. neitaði að eiga sæti í n., og ég get ekki séð, að hann geti neitt við því sagt, þó að við birtum þetta nál. Ég vil einnig benda á það, að hv. þm. Str. gat þess í morgun, að hann teldi eðlilegt, að málið færi til n. (HermJ: Ég sagði ekki eitt einasta orð um það, enda var nál. þá samið.) Um efni málsins er það að segja, að það er gerð grein fyrir því í nál., hvaða ástæður liggi til þess, að n. telur sjálfsagt að leggja til, að frv. nái samþykki óbreytt. Því var að vísu haldið fram af einum hv. þm. í byrjun umr. í dag, að frv. kynni að leiða til þess, að ekki væri hægt að hafa svo snöggar aðgerðir í þessu máli sem æskilegt hefði verið. En í því sambandi vil ég benda á það, að Alþ. hefur tekið handhafa konungsvaldsins inn í landið að svo stöddu, eins og segir í ályktun Alþ. frá 10. apríl 1940, og það er að sjálfsögðu Alþ. að dæma um það, hve lengi þessi ákvæði standa. Er ég ekki með þessu að fullyrða, að sú bráðabirgðaskipun eigi að haldast, sem upp var tekin 10. apríl 1940. En Alþ. álítur, að sú stefna eigi að haldast, þangað til þjóðinni hefur á stjórnskipulegan hátt gefizt tækifæri til þess að dæma um það, hvort hún vilji hafa á þessu aðra skipan eða eigi. Því fer þess vegna fjarri, að hér sé á nokkurn hátt verið að stefna þessu stórmáli í hættu. Það er gert ráð fyrir, að sú bráðabirgðaskipan haldist, sem verið hefur, þangað til málið hefur verið til lykta leitt á stjórnskipulegan hátt. Hitt er svo annað mál, þó að bráðabirgðaskipunin þannig haldist, sem verið hefur um nokkurt skeið, það má ekki blanda því saman, eins og gert hefur verið, að sú bráðabirgðaskipan geti komið í stað fullnaðarskipunar málanna. Slíkt er vitanlega á misskilningi byggt og fær eigi staðizt. Enda hefur það komið fram í fyrri meðferð þessa máls, eins og 10. apríl, að til voru tvær leiðir, annaðhvort að málinu yrði ráðið til lykta til bráðabirgða eða þá hitt, að hið æðsta vald yrði flutt inn í landið að fullu. Það var að beinu fyrirlagi þáv. stj., að talið var sjálfsagt, að ef konungsvaldið yrði að fullu tekið inn í landið, þá þyrfti að samþykkja nýja stjskr. Þeim, sem að þessum málum unnu, var þá falið að gera þá stjskr., sem síðan hefur oft verið um talað og vitnað í í umr. um þetta mál nú og kjördæmamálið í vor.