20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Sigurður Kristjánsson:

Við, hv. þm. N.-Ísf. og ég, höfum sett sérstaka aths. frá okkur inn í nál., sem er þess efnis, að við ætlumst til, að eigi verði lagðar hömlur á, að einstaklingar, félög eða sveitarfélög reisi verksmiðjur, en ríkið reisi aðeins verksmiðjur til þess að hlaupa í skarðið, ef einstaklingar geta ekki bætt úr þessari þörf. Ég mun nú gera grein fyrir þessu nokkru nánar. Þegar ríkið hóf þessa starfrækslu, þá var það gert til þess að bæta úr þörf, sem aðrir gátu ekki úr bætt. Efnahagur útgerðarinnar var þá svo slæmur, að einstaklingar og félög gátu eigi lagt fram fé til verksmiðjubygginga, og þess vegna var nauðsynlegt, að ríkið hlypi þar undir bagga, svo að síldveiðin færðist í það horf, sem atvinnurekstrinum var nauðsynlegt. Þegar fram leið, komu fram raddir um það, að ríkið legði þetta alveg undir sig, og þess vegna komust þau ákvæði inn í l., að enginn mætti byggja síldarverksmiðjur nema með leyfi ríkisstj. Á tímabili var tregða á, að þeir menn, sem það gátu, fengju leyfi til að byggja verksmiðjur. Okkur finnst því rétt að slá varnagla við því, að ríkisstj. hefti ekki framtak á þessu sviði, þegar verksmiðjurnar fullnægja ekki þörfinni. Nú er svo, að menn og félög hafa mikið fé handa á milli, og einstaklingsgetan er því meiri en áður. Það er ekki gott, að þessi atvinnurekstur komist í hendur eins eða fárra aðila, því að ekki er heppilegt fyrir fólk, sem að útgerð vinnur, að einn aðili hafi hag þess í sinni hendi. Þess vegna þótti okkur réttara að taka það fram í nál., að við viljum ekki, að ríkið leggi stein í götu þeirra manna, sem geta einhverju áorkað í þessu efni.

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, að nauðsyn væri á að hraða afborgunum, þá vil ég taka það fram, að það er álit manna, sem selja verksmiðjunum afla, að mikið sé af þeim tekið. T. d. þegar Paulsverksmiðjan á Siglufirði var keypt, þá var hún keypt með því skilyrði, að hún yrði greidd upp á 5 árum. Síldareigendur greiddu hana upp á tilsettum tíma, og greiddu þar að auk í 2% í fyrningarsjóð og 5% í varasjóð, svo að þeir borguðu verksmiðjuna tvisvar upp án þess sð eignast hana. Mér finnst gengið nógu nærri síldareigendum í þessum efnum, þótt ekki sé lengra gengið. Og ég sé heldur enga ástæðu til þess að þyngja þetta, og menn verða að athuga, að ef gengið er of langt í kröfum á hendur síldarútvegsmönnum frá ríkisins hálfu, getur það orðið til þess að draga úr síldarútgerð. Ég vil því mega vona, að ekki verði gengið lengra í þessu efni en nú er gert.

Þótt sumir nm. áskilji sér rétt til brtt., þá vil ég lýsa yfir því sem minni skoðun og hv. þm. N.-Ísf., að við munum ekki nota okkur þann rétt, ef aðrir nota sér hann ekki.