20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. (Finnur Jónsson) :

Ég skal ekki lengja umr. mikið úr þessu, en út af orðum hv. 3. landsk. um síldarútvegsmál, þá vil ég taka það fram, að mér finnst það ekki svo mjög koma þessu frv. við. Við munum líta ólíkum augum á það, hvort heppilegra sé að hafa síldarrekstur í höndum ríkisins eða einstaklinga. Ég lít að sjálfsögðu svo á, að rekstur síldarútvegsins eigi að vera í höndum ríkisins, þó að ég þar með vilji ekki útiloka það, að hann sé að einhverju leyti í höndum einstakra manna, en það mun áreiðanlega vera happasælast, að hann sé sem mest hjá ríkinu sjálfu, og það væri áreiðanlega misráðið, ef hið opinbera drægi úr síldarútvegi ríkisins. Það mun litið svo á, að afurðir síldarútvegsins fyrir stríð hafi verið stærsta útflutningsvara okkar, og ef ríkið hefði ekki aukið verksmiðjur sínar þá, væri síldarútvegurinn ekki orðinn sá bjargræðisvegur, sem hann nú er.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að hann teldi ekki gróða hjá verksmiðjunum, þótt þær skiluðu gjaldi í fyrningarsjóði, og ef einstaklingsskattur væri gerður upp af varasjóðstillaginu. Ef við leggjum þennan mælikvarða á þær, var gróði ríkisverksmiðjanna 1940 838 þús. kr. og 1941 425 þús. kr., en það er versta árið, sem yfir síldarútveginn hefur komið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vænti þess, að hv. þm. fylgi brtt. sjútvn. þannig breyttri.