20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Skúli Guðmundsson:

Mér virtist koma fram ótti hjá hv. 3. landsk. um það, að síldarútvegsmenn væru látnir greiða of mikið til verksmiðjanna. (SK: Eða sjómenn fái of lítið.) En mér virðist ekki þurfa að kvíða því, að síldarverksmiðjur ríkisins safni auði eða verði of ríkar.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að ræða við hv. þm. Ísaf. um gróða og tap Síldarverksmiðja ríkisins. Um það atriði tala reikningarnir skýrast.

Eins og ég hef áður tekið fram, var nettótekjuhalli 1941 134 þús. kr., en á því ári var lagt í sjóði og greitt af lánum eins og lögákveðið er. Það má segja, að varasjóðir séu eignaaukning, ef þá ekki myndast vafasamar eignir á móti, Og ég verð að segja, að ég dreg í efa, að nóg sé að reikna 5% í fyrningargjald af síldarverksmiðjuvélunum.

Engin rökstudd andmæli hafa komið fram gegn því, sem ég hef haldið fram, að rétt sé að nota tækifærið, þegar síldarverð er óvenju hátt, til þess að borga ríflega af stofnkostnaðinum, svo að afborganirnar verði léttari á útgerðinni, þegar illa árar.