28.08.1942
Efri deild: 17. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. — Sjútvn. þessarar hv. d. hefur haft málið til athugunar og orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ., eins og bað kom frá Nd. Ég vil hins vegar benda á það, að frv. í heild hefði þurft betri undirbúning heldur en virðist koma fram í frv. stj., eins og gengið var frá því í hv. Nd. Það, sem hefur skeð um þetta mál í Nd., er, að afköstin voru aukin úr 30 þús. upp í 39 þús. mála vinnslu, og kemur það af því, að sumpart eru afköstin aukin hjá einstökum verksmiðjum og sumpart er um nýjar verksmiðjur að ræða. En á sama tíma hefur hv. Nd fært heimildina til, úr 25 millj. niður í 10 millj. Þetta vildi ég benda hv. d. á, ef hún kynni að standa á móti till. einstakra þm. um byggingu verksmiðja. N. lítur þannig á, að það hefði verið mjög æskilegt, að legið hefði fyrir rannsókn um þessi mál. Það er t. d. ekkert getið um það, hvernig þessar verksmiðjur skuli byggðar, hvort þær skuli byggðar sem ein samstæðuverksmiðja eða sem fjölsamstæðuverksmiðja o. s. frv. — Þetta er vitanlega nauðsynlegt að rannsaka með gaumgæfni. Það er líka alveg nauðsynlegt að byggja verksmiðjurnar þannig, að einhver hluti þeirra geti tekið til starfa strax, þó að veiðin sé ekki í fullum gangi. Þetta þarf allt rannsóknar við.

Þá vildi n. leggja til, að komið yrði á sérstökum kæli í sambandi við verksmiðjurnar, og skal ég víkja að því fáum orðum. Það út af fyrir sig að koma þessum kæli á í sambandi við verksmiðjurnar, er svo mikilsvert atriði, að fram hjá því verður ekki gengið, ef hægt væri að koma því í framkvæmd. Það er ljóst, að þessi aðferð er svo fjárhagslega trygg fyrir verksmiðjurnar, að sjálfsagt er að athuga það rækilega. N. lítur svo á, að þetta mál hafi ekki verið rannsakað nægilega, og vill beina því til hæstv. stj., að hún láti ekki undir höfuð leggjast að fá fullkomna rannsókn á þessu atriði.