31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

56. mál, sala Ólafsvíkur og Ytra-Bugs

Þorsteinn Þorsteinsson:

Mál það, sem hér er til umr., flutti ég á síðasta þingi. En þá var sá ljóður á, að ekki hafði fengizt samþykki sýslunefndarinnar á Snæfellsnesi um málið. Þess vegna varð það að samkomulagi milli mín og allshn., að ég tæki málið til baka. En allshn. lýsti hins vegar yfir því, að hún mundi hefja málið að nýju, ef það kæmi aftur fyrir og hún yrði eins skipuð. Nú hefur svo farið, að hér á þessu þingi hefur málið aftur komið fyrir, og hefur hv. allshn. haldið loforð sitt, enda þótt hún sé nú annan veg skipuð en á síðasta þingi. Ég vil svo aðeins þakka hv. n. fyrir góða afgreiðslu hennar á málinu og vil vænta þess, að það fái góðan byr gegnum þingið.