12.08.1942
Neðri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

24. mál, raforkusjóður

Helgi Jónasson:

Það kom mér mjög á óvart, er ég heyrði, hversu mjög raddir sjálfstæðismanna hafa breytzt í þessu máli, og er það að vissu leyti ánægjulegt. Þessir menn, sem ávallt hafa spornað fæti við öllum framkvæmdum í rafmagnsmálum sveitanna, koma nú allt í einu fram með frv., sem fer í þá átt að hefjast hið bráðasta handa í þessum efnum. Er nú hægt að taka þessa menn alvarlega eftir að hafa litið um öxl og séð, hvernig saga þeirra hefur verið á undanförnum árum í þessum málum? Ég efast mjög um alvöruna, sem að baki liggur.

Í frv. er farið fram á, að stofnaður verði raforkusjóður og ríkissjóður greiði til hans 5 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1941 og 500 þús. kr. á ári. S. l. ár stóð til að gera þetta, en þá lögðu sjálfstæðismenn á móti því, og nú er það upplýst af einum flm. frv., að fé muni ekki vera fyrir hendi, svo að ég fer að efast um, að mikil alvara sé á bak við, þegar einn flm. telur, að það, sem gera á samkv. frv., sé ekki fyrir hendi.

Sjálfstæðismenn eru ávallt að tala um að afla ríkissjóði tekna, en það eru aðeins orðin tóm, og er þetta ekki annað en gamla sagan hjá þessum flokki, gerð í þeim tilgangi, að slá ryki í augu almennings, en ég veit, að allir viti bornir menn sjá í gegnum þetta. — Það er langt frá því, að þessi flokkur hafi reynt að auka tekjur ríkissjóðs undanfarið, t. d. um daginn, þegar verið var að ræða um lækkun á verði síldarmjöls til bænda, þá hafði verið fundinn nýr skattur til þess að afla ríkissjóði tekna í því skyni, og er það gott og blessað. En hvað skeður? Mótmæli höfðu borizt frá allmörgum vegna þessa nýja skatts, og nú mun eiga að hverfa frá honum að miklu leyti. Hvernig er hægt að búast við, að tekjur ríkissjóðs aukist, ef skattar, sem á að framkvæma, eru afnumdir, um leið og einhverjar mótbárur koma í ljós?

Ég mun ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni, en býst við af öllu, að lítil alvara fylgi þessu frv. Því hefur verið lýst yfir af hæstv. forsrh., að Alþ. þurfi að ljúka störfum fyrir ágústlok, og nú er þetta frv. hér til 1. umr. og á eftir að fara til n. og þar fram eftir götunum. Allt bendir þess vegna til, að það verði svæft að þessu sinni.