12.08.1942
Neðri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

24. mál, raforkusjóður

Gunnar Thoroddsen:

Þetta frv., sem hér er komið fram, er um að hrinda í framkvæmd einu mesta nauðsynjamáli þjóðarinnar. Maður skyldi því ætla, að framsóknarmenn tækju þessu frv. vel, en í stað þess að taka vinsamlega í hina útréttu hönd, þá snúast þeir öndverðir gegn málinu, og hv. þm. V.-Sk. (SvbH) rís hér upp, ekki til þess að þakka þetta, heldur til þess að koma af stað illdeilum, og það sýnir innræti þessa hv. þm.

Ég mun ekki ræða þetta frv. mikið, því að þess gerist ekki þörf, þar eð fyrir því hefur verið gerð grein af öðrum hér á undan, en vil aðeins hrekja orð þeirra framsóknarmanna, sem hér hafa talað, en þeir sögðu, að Sjálfstfl. hafi alltaf beitt sér gegn raforkumálum sveitanna. Á Alþ. árið 1929 bar Jón Þorláksson fram frv., sem fór í líka átt og frv. það, er hér liggur fyrir. Í þessu frv. voru tvö aðalatriði. Annað var það að stofna til verkfræðilegra rannsókna á raflýsingu sveitanna, og hitt var, að þegar þetta yrði framkvæmt, skyldi það styrkt úr ríkissjóði. Strax komu fram raddir frá framsóknarmönnum, sem andmæltu þessu frv., sögðu að þessar framkvæmdir yrðu óbærilega dýrar o. s. frv. — Auðvitað var þetta frv. hugsað líkt og með vega- og símalagningar, að framkvæma þetta smátt og smátt, en ekki allt í einu. Til þess að sýna hug framsóknarmanna í þessu máli þá, vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp nokkur ummæli þeirra. — Jónas Jónsson, þáv. dómsmrh., segir svo í einni ræðu sinni, er hann flutti við umr. þessa máls: „Nú má gera ráð fyrir, og það er hér um bil víst, ef byrjað yrði á þessum framkvæmdum, að þá mundu drífa að umsóknir úr öllum áttum, allir mundu vilja verða þeirra hlunninda aðnjótandi, sem frv. er ætlað að veita.“ Og á öðrum stað farast honum orð á þessa leið : „Hér er því í raun og veru ekki um annað en þjóðnýtingu að ræða, og hún svo víðtæk, að stærri þjóðnýtingartill. hefur aldrei verið borin fram af sjálfum sósíalistum, því að hér er farið fram á að setja allan þjóðarauðinn í þessar framkvæmdir.“

Þannig töluðu framsóknarmenn þá. Og hver var svo afgreiðsla þeirra á þessu frv.? Þeir afgreiddu það með rökstuddri dagskrá, sem hljóðaði svo: „Í því trausti, að ríkisstj., eftir ástæðum, útvegi þeim héruðum, er þess óska, hæfa menn til að rannsaka skilyrði fyrir sameiginlegri raforkuveitu, með þeim skilyrðum, að ríkið og hlutaðeigandi héruð kosti rannsóknina að helmingi hvort, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá: Með öðrum orðum, þegar frv. var fram borið um undirbúning á raforku til sveita, þá svara framsóknarmenn því með því að vísa því frá. Ég hygg, að þetta nægi til að sýna þeirra fortíð í málinu.

Það var spurt að því hér áðan af einum hv. þm. Framsfl., hvernig stæði á því, að Sjálfstfl. hefði legið á þessu máli síðan 1929. Því er fljótsvarað. Fyrir atbeina framsóknarmanna var málinu vísað til ríkisstj. til athugunar, og á þeim árum var einmitt framsóknarstj. við völd, og hefði hún því átt að athuga málið eins og henni var falið. Það er þess vegna engum öðrum en framsóknarmönnum að kenna, að málið hefur legið svona lengi niðri, eða í rúm 13 ár. — Hv. þm. V.-Sk. sagði, að á þeim árum hefði ríkissjóður ekki getað lagt fé til þessara framkvæmda, en sannleikurinn er sá, að á þessum árum var hið mesta góðæri og ríkissjóður vel stæður. Ég vil að lokum minna á eitt atriði, sem einnig sýnir mjög vel allan hug framsóknarmanna. Árið 1931 á Alþ., þegar Alþfl. og Sjálfstfl. höfðu komið sér saman um byggingu Sogsvirkjunarinnar, sem eigi skyldi aðeins verða fyrir Rvík, heldur einnig fyrir Suðurlandsundirlendið, þá færði Framsfl. það fram sem eina höfuðástæðu fyrir þingrofi að koma í veg fyrir, að þetta frv. næði fram að ganga. Allt það ,sem ég hef talið upp, og margt fleira, sem ég tel ekki ástæðu til að minnast á, sýnir, að Framsfl. hefur alltaf verið á móti framkvæmdum í þessu máli.

Ég vil svo að lokum minna hv. þm. V: Sk., þennan æruverðuga klerk, á, að hann ætti í framtíðinni að temja sér meira boðorð sannleikans en hann hefur gert undanfarið.