27.08.1942
Neðri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

24. mál, raforkusjóður

Frsm. (Jón Pálmason) :

Ég hef nú ekki miklu við það að bæta fyrir hönd fjhn., sem fram er tekið í nál. hennar á þskj. l06. N. hefur orðið sammála um það að mæla með því, að frv. verði samþ. með verulegum breyt. Nm. komust að þeirri niðurstöðu eftir að hafa rætt um þetta stórmál, að það væri á því svo mikil þörf að leggja fram fé í þessu skyni nú á þessum verðhækkunartíma, að hún leggur einróma til, að framlag til þessa málefnis af tekjuafgangi áranna 1941 og 1942 verði hækkað um helming eða upp í 10 millj. kr.

Tveir hv. nm., fulltrúar Framsfl., leggja á það nokkra áherzlu, að ekki verði slegið neinu föstu um það nú, hvernig varið verði þessum sjóði til styrktar raforkuveitum landsins. Við hinir nm. leggjum ekki sérstaka áherzlu á það, að þessu sé slegið föstu nú, vegna þess að á næstu þingum hljóti að verða sett um það einhver frekari ákvæði, hvernig farið verði með þessi raforkumál. En til sönnunar því, að hér sé ekki mjög freklega í sakirnar farið, þó að n. hafi hækkað þessa upphæð svo verulega sem raun er á, má geta þess, að fyrir Alþ. liggja nú beiðnir um ábyrgðarheimildir til raforkuframkvæmda, sem nema milli 20 og 30 millj. kr. og er þar ekki höggvið niður á nema tiltölulega fáum stöðum, þar sem þörfin er rík í þessu efni.

Ég vænti þess, að hv. þd. geti orðið um það sammála að samþykkja þessar brtt. fjhn. og að því búnu vísi frv. áfram til 3. umr., svo að það geti orðið samþ., áður en þessu þingi lýkur.