27.08.1942
Neðri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

24. mál, raforkusjóður

Sigurður Kristjánsson:

Hv. þdm. hafa sjálfsagt veitt því athygli, að ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, og ég skal leyfa mér að gera grein fyrir þeim fyrirvara hér. Það er óþarfi að fara langt út í þetta mál. Það er gamalt mál þetta raforkuveitumál og hefur að sönnu verið nokkurt deilumál. En þó virðist það hafa haft fylgi þingsins að gera ráðstafanir til þess, að ríkið styrkti rafveitur, annaðhvort með lánum eða styrkjum eða hvoru tveggja, eða í öðru lagi ábyrgðum, þar sem sérstakir örðugleikar eru á því, að væntanlegir neytendur rafmagnsins geti af eigin rammleik risið undir framkvæmdum. Nú má kannske segja, að hv. þm. og þingflokkar hafi ekki haft jafnan áhuga á þessu máll. En út í það skal ég ekki fara að svo stöddu. En út í hitt vil ég fara, að þegar þetta mál kom fram, þá þótti það að sjálfsögðu bera vott um nokkurn stórhug í þessum málum. Og bæði mér og öðrum var það gleðiefni, að þessir ungu hv. þm., sem eru flm. þess, skyldu sérstaklega vilja leggja rækt við þessi mál. Hitt er svo annað, að það eru fleiri hliðar á málinu, og þar á meðal fjárhagslega hliðin. Og það er ekki neinum vafa bundið, að þegar miðað er við framlög ríkisins til annarra nauðsynjamála, þá er það mjög myndarlega og jafnvel djarflega af stað farið að ætla að krefjast 5 millj. kr. af eins árs tekjum ríkissjóðs til þessara mála og svo alveg um ótakmarkaðan tíma ½ millj. kr. á ári.

Það er tvennt, sem kemur til greina í þessu sambandi, hve mikil er þörfin, og svo hitt, hve mikil er getan. Og það þýðir ekki fyrir menn að vera að leika neinn skrípaleik í svona málum. Hversu mikil nauðsyn sem er á framkvæmdunum, verða þær að vera sniðnar við getu þess, sem á að framkvæma. Það er miklu betra að halda sér við jörðina heldur en að verða að skopi fyrir að hafa byggt loftkastala í svona málum. Það verður að ætla þessum sjóði þann tíma, sem fjárhagsgetan heimtar, ef hann á að verða að gagni.

Nú mundi ég hafa viljað fylgja þessu frv. að því einu tilskildu, að fjárframlagi ríkissjóðs yrði skipt á fleiri ár heldur en þar er gert ráð fyrir. Og jafnvel þótt framlagið yrði hækkað lítils háttar, þá væri því ætlað að dreifast á fleiri ár. En hér var ekki unnt að koma því að, að menn yfirveguðu málið. Það byrjaði uppboð í þessu efni, sem ég gat ekki tekið þátt í. Ég vil ekki taka þátt í neinum skrípaleik um þetta mál. Þegar hv. þm. sögðust vilja taka 5 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1941 til þessara mála, þá sögðu framsóknarmenn: „5 millj.! Hvað er það? Við viljum auðvitað ekki, að minna verði lagt fram en 10 millj. kr.“ Ef sjálfstæðismenn hefðu sagt fyrst 10 millj., þá hefðu framsóknarmenn sagt: „Hvað eru 10 milljónir? Við viljum hafa það 20 milljónir.“ Þetta liggur því alveg í lausu lofti samkv. nál., og til sönnunar því vil ég minna á, hverju búið er að ráðstafa af tekjuafgangi ársins 1941, en hann var um 17 millj. kr. Af honum er búið að ákveða, að til framkvæmdasjóðs verði varið 8 millj. kr. Svo hafa verið borgaðar 4 millj. kr. af tekjuafgangi þessa sama árs upp í lausaskuldir. Þá hefur verið ráðstafað til fóðurmjölskaupa ½ millj. kr., sem hefur orðið þó nokkuð meira. Þá hafa verið greiddar skuldir ríkissjóðs við héraðsskólana, ½ millj. kr. Það stendur til að borga landsvæði í sambandi við flugvöllinn og hús o. fl., sem bæta verður vegna flugvallargerðar, ½ millj. kr. af þessum sama tekjuafgangi ársins 1941. Það liggja hér fyrir till. um að verja til byggingarstyrks fyrir fiskiskip 2 millj. kr., sem ekki mun þykja ósanngjarnt, af því að þessi tekjuafgangur mun allur vera kominn frá sjávarútveginum. Enn fremur stendur til og var á síðasta Alþ. frammi till. um það, að stofnfé fiskveiðasjóðs væri 2 millj. kr. Og svo kemur raforkusjóðurinn með 10 millj. kr. Af þessum rúml. 17 millj. kr. tekjuafgangi ársins 1941 er þá verið að ráðstafa 27½ millj. kr. Ég held nú, hversu sem hv. þm. kunna að vera stórhuga í þessu máli og blekktir af áhuga fyrir kosningar, þá hljóti þeir að sansast á það, að það verði ekki litið á það sem alvöru, ef menn halda svona löguðu fram. Ég vil ekki taka þátt í þeirra uppboði, og þess vegna skrifaði ég undir nál. með fyrirvara.

Ég vil, að raforkusjóði sé ætlað fé eftir þörfum. En ég vil, að greiðslur ríkissjóðs til þess málefnis séu miðaðar við það tímabil, að víssa sé nokkurn veginn fyrir því, að ríkissjóður geti innt þær greiðslur af hendi. Nú hef ég ekki gert brtt. við frv. Ég mun greiða atkv. með frv. við þessa umr., eins og það kom frá hv. flm. En að líkindum mun ég svo, — af því að það verður sjálfsagt tækifæri til þess við 3. umr. eða síðar, ef frv. kemst ekki gegnum þetta þing —, gera brtt. um að dreifa þessum greiðslum ríkissjóðs á fleiri ár heldur en gert er ráð fyrir í frv.