27.08.1942
Neðri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

24. mál, raforkusjóður

Ingólfur Jónsson:

Hv. 1. þm. S.-M. (EystJ og hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) hafa nú gert grein fyrir þeim brtt., sem hv. fjhn. hefur gert í sambandi við þetta frv. á þskj. 25.

Þegar við sjálfstæðismenn fluttum þetta frv. um raforkusjóð, þá gerðum við ráð fyrir, að það mundi veitast erfitt að fá samþykki hæstv. Alþ. fyrir hærri upphæð en 5 millj. kr. til þessara mála nú. Og hafði ég einkanlega ástæðu til að halda, að erfitt mundi verða að fá slíkt samþ., vegna þess að ég skrifaði á síðasta ári grein um raforkumál sveitanna og lagði til, að lagðar yrðu fram a. m. k. 5 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs á árinu 1941 til raforkumálanna. En ég hafði heyrt, að framsóknarmenn álitu, að hér væri farið fram á svo mikið fé til þeirra hluta, að aðeins væri um kosningabombu að ræða hjá mér. Þess vegna hugði ég ekki fært að fara fram á hærri upphæð heldur en í frv. er gert ráð fyrir. En ég fagna því, að skilningur manna er nú orðinn meiri á nauðsyn þessa máls heldur en þá var. Og ég fagna því, að hv. framsóknarmenn hafa farið að hugsa um þessi mál af meiri stórhug heldur en komið hefur fram á undanförnum árum.

Í frv. okkar á þskj. 25 er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi í raforkusjóð af tekjum ársins 1941 5 millj. kr. En í brtt. hv. fjhn. leggur n. til, að ríkissjóður leggi fram samtals 10 millj. kr. til raforkusjóðs af tekjuafgangi áranna 1941 og 1912. Ég verð að segja, að mér hefði þótt eðlilegra, að ekki hefði verið ráðstafað tekjuafgangi ársins 1942 fyrr en séð væri, hve mikill sá tekjuafgangur yrði, eða ekki fyrr en á þinginu í haust eða á vetrarþinginu 1943. En það má segja, að þar sem hv. fjhn. hefur slegið þann varnagla, að grípa megi til framkvæmdasjóðs, ef tekjuafgangur þessara tveggja ára ekki reynist nógur, þá sé hér ekki of djarft spor stigið, og þess vegna sé alveg tímabært að ákveða að taka af tekjuafgangi ársins 1942 til þessa á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í brtt., enda þótt ekki sé enn ljóst, hver hann verður. Þess vegna get ég vel fellt mig við þessa brtt. Óska ég þess, að hæstv. Alþ. setji ekki fótinn fyrir þessar till., þar sem þær ganga enn lengra heldur en við höfðum gert okkur vonir um, að hægt væri að fá samþ., en við höfðum óskað eftir að fá samþ. nú þegar.

Hv. fjhn. leggur til, að gerð verði á frv. sú breyt. að fella niður það ákvæði, að Búnaðarfélag Íslands geri till. um reglugerð fyrir sjóðinn og að það annist stjórn sjóðsins. Má segja, að það sé ekki stór breyt., og vil ég ekki gera út af því neinn ágreining, sem gæti orðið málinu til tafar, þó að þessu yrði breytt. Enn fremur leggur n. til, að 4. gr. frv. verði felld niður, en í henni er ákvæði um, að styrkur úr raforkusjóði megi nema 25–50% af stofnkostnaði orkuvers eða orkuveitu og veita skuli þeim umsækjendum hlutfallslega mestan styrk, sem örðugasta hafa aðstöðu til að byggja orkuver eða orkuveitur. Sama er að segja um þessa brtt. n., að ég mun ekki gera hana að ágreiningsefni, sem gæti orðið málinu til tafar eða heft framgang þess á þessu þingi, en það er ætlun okkar flm. frv., að það nái fram að ganga á þessu þingi. Hins vegar verður maður að ætla, að Alþ. síðar meir hafi skilning til þess að ákveða, hvernig raforkumálum sveitanna skuli skipað og hvernig skipun hinna ýmsu orkuvera skuli hagað, og sömuleiðis, hvort raforkumálin verða tekin upp á þann veg, að ríkið byggi raforkuveitur eða rafstöðvar. Þetta verður að ákveða, eftir að rannsókn hefur fram farið.

En þáltill., sem liggur fyrir þessu þingi, frá nokkrum framsóknarmönnum um það að skipa nefnd til þess að athuga rafveitumálin, getur vitanlega samrýmzt þessu frv. okkar, en nægir ekki á neinn hátt út af fyrir sig, vegna þess að enda þótt það sé gott að skrifa greinar um góð mál og tala um það að skipa nefndir til að rannsaka þau, þá er það út af fyrir sig ekki nóg, þegar til lengdar lætur, og fólkið ætlast til þess, að eitthvað sé gert í sambandi við slík skrif og slíkar nefndaskipanir. En ef þetta frv. verður að l. með þeim breyt., sem hv. fjhn. gerir till. um, þá er raforkusjóður stofnaður með 10 millj. kr. framlagi. Og þá er í fyrsta sinn í sögunni stigið stórt spor í áttina til þess, að raforkumálum sveitanna sé vel skipað í framtíðinni og að fé verði fyrir hendi til þess að koma þessu þjóðþrifafyrirtæki á. En það er vitanlega aðalatriðið frá sjónarmiði okkar flm. frv., en ekki hitt, í hvaða formi málið er samþ. á þessu stigi málsins. Ég geri ráð fyrir því, að enginn okkar flm. frv. geri þann ágreining út af brtt. hv. fjhn., að það verði frv. að falli. Og við viljum tefja umr. um málið sem minnst. Og ég hefði óskað eftir því, að þetta mál yrði afgr. með afbrigðum, til þess að hægt væri að koma þessu frv. gegnum 3. umr. í dag og skila því til hv. Ed., til þess að það mætti öruggt teljast, að það komist gegnum þingið og verði að l., áður en því verður nú slitið. Það er sem sagt aðalatriðið frá sjónarmiði okkar flm. frv., að fé verði lagt til hliðar, sem ekki verði notað til annars en til styrktar raforkuveitum í sveitum. Hitt verður aukaatriði frá hendi okkar sjálfstæðismanna, hverjum það er að þakka, að þetta fé er tekið frá í þessu skyni, eða hvað einhverjir flokksmenn eða aðrir hv. þm. hafa sagt á undanförnum þingum í sambandi við raforkumálin.

Ég var að lesa Tímann í morgun. Var þar talað um þann mikla stórhug, sem framsóknarmenn hefðu sýnt í raforkumálum sveitanna á undanförnum árum, og því er að vísu fagnað, að einhver stefnubreyt. hafi orðið hjá Sjálfstfl. um það að vilja styðja raforkumál sveitanna. En það er gert ráð fyrir því í þessari grein, að þetta sé bara fyrir kosningarnar í haust, en eftir kosningarnar muni sjálfstæðismenn sýna hið sanna innræti sitt. En það væri sannarlega þess vert að athuga þann mikla stórhug, sem framsóknarmenn stæra sig af að hafa sýnt á undanförnum árum í sambandi við raforkumál sveitanna. Má vera, að ég hafi tækifæri til þess síðar. Sjálfir vita þeir, að þeir hafa ekki verið stórhuga í þessu máli. Þeir vita, að fyrsta stóra sporið til þess að leggja fram fé til þessara mála er frv. okkar sjálfstæðismanna á þskj. 25, sem hér liggur fyrir.

Ég ætla ekki að lengja umr. að þessu sinni, en ég óska þess, ef hæstv. forseti sæi sér fært, að hann leiti afbrigða, til þess að þetta mál verði tekið til 3. umr. hér í hv. þd. í dag, svo að það mætti komast sem fyrst til hv. Ed. Ég geri ekki ágreining út af brtt. hv. fjhn. á þskj. 107 og óska þess, að smávegis ágreiningur verði ekki til þess að tefja þetta mál né hefta framgang þess á þessu þingi.