27.08.1942
Neðri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

24. mál, raforkusjóður

Eysteinn Jónsson:

Ég hef tilefni til þess að segja örfá orð út af því, sem hv. 5. landsk. þm. (IngJ) sagði nú. Hann segist ekki hafa viljað gera till. um stórfelldari fjárframlög í raforkusjóðinn heldur en hann gerði með þessu frv., m. a. vegna þess að hann hefði heyrt því fleygt hjá framsóknarmönnum, að litið hefði verið á till. þær, sem hann gerði í raforkumálunum í blaði, sem kosningabombu, og að sá áhugi, sem hefði komið fram hjá honum í þeim blaðaskrifum, mundi standa í sambandi við kosningar. Og ég gat ekki betur skilið en að honum þætti þetta illgirnislegt álit af hálfu Framsfl. og mjög ámælisvert. En þessi hv. þm. er nýr hér á þingi, og má virða honum til vorkunnar, að hann þekkir ekki afstöðu sjálfstm. hér á þingi í þessari grein og öðrum greinum. En ég vil spyrja þennan hv. þm. að einu í þessu sambandi, hvort hann virði ekki okkur það til vorkunnar, þó að við álítum, að þessi áhugi hans standi eingöngu í sambandi við kosningarnar, sem eiga að fara fram í haust, þegar hann athugar það, að þegar hann skrifar ritgerð um að leggja fram 5 millj. kr. úr ríkissjóði til raforkumála, þá var það búið að gerast hér á Alþ. á síðasta þingi, að við fluttum frv. um framkvæmdasjóð ríkisins, þar sem gert var ráð fyrir að leggja til hliðar 3/5 hluta af tekjuafgangi ríkissjóðs á árinu 1941 til þess að styrkja raforkuveitur og til annarra nauðsynjamála, en það frv. mætti fullum fjandskap sjálfstæðismanna. Getur þessi hv. þm. ekki virt okkur það til vorkunnar, þó að við álítum þetta, þegar hér kemur fram mál frá sjálfstæðismönnum, alveg sama eðlis og það mál, sem við bárum fram í vetur s. l., en flokkur hans lagðist þá á móti? Þegar frv. um framkvæmdasjóð var á ferðinni í þinginu, voru þeir sjálfstæðismenn ekki alveg vissir um, að það ætti að kjósa. En þegar þessi hv. þm. (IngJ) skrifaði grein sína og flutti þetta frv., þá vissu þeir fyrir víst, að það átti að kjósa.

Fyrst þessi hv. þm. (IngJ) gefur tilefni til þess, get ég rifjað upp fleira í þessu sambandi. T. d. vil ég minna hann á annað og spyrja, hvort hann geti ekki virt okkur það til vorkunnar, þó að það gægist fram, sem við höfum þó farið vel með, að nokkuð sé breytt viðhorf Sjálfstfl., sem standi í sambandi við kosningarnar væntanlegu. Hér á Alþ. hefur um áratugi staðið barátta um skattana hér á landi, hve miklar tekjur ríkissjóður skyldi hafa af þeim. Og í hvert skipti, sem þurft hefur að afla fjár til ríkissjóðs, þá hafa flokksbræður hv. 5. landsk. þm. (IngJ) hér á þingi ráðizt á okkur fyrir það og sagt, að það væri vegna sukks okkar í fjármálum ríkisins, sem fjáraflana væri leitað. Og nú síðan stríðið skall á, hefur þurft að neyða Sjálfstfl., sem hefur fjárráð, og svínbeygja í hvert einasta sinn, þegar þurft hefur að fá fram ný l. til að afla ríkissjóði tekna. Getur svo ekki hv. 5. landsk. þm. skilið, að okkur þykir heldur skrítið, er þeir koma og leggja til, að milljónir renni úr ríkissjóði til þeirra hluta, sem þeir áður hafa fjandskapazt gegn? Getur þessi hv. þm. ekki skilið, að okkur þyki undarlegt, að sjálfstæðismenn, eftir að hafa verið á móti flestum eða öllum fjáröflunum til ríkissjóðs, eru nú að bjóða fram fé úr ríkissjóði? Þetta fé, sem hér er verið að bjóða fram úr ríkissjóði, er það, sem hefur komið inn í ríkissjóðinn fyrir baráttu okkar, sem höfum staðið að tekjuöflunarlögunum. Ég held, að þessi hv. þm. verði að venja sig af því að hneykslast á því, þó að við séum ekki reiðubúnir til að taka stórhug þeirra sérstaklega hátíðlega nú. En það er list út af fyrir sig að kunna að nota þá spretti og fjörkippi, sem sjálfstæðismenn taka fyrir kosningar. Við ætlum að nota okkur þessa fjörkippi til gagns fyrir góð málefni. Það er ágætt, að það skuli vera hægt, og við gerum það hiklaust. Þannig er það í reyndinni, að þar sem að lögum er með þessi mál farið, þá verði þessir fjörkippir málinu ekki til skaða á nokkurn hátt, heldur verða notaðir því til framdráttar. Það þarf að kunna að nota kosningaáhuga þessara hv. þm. Ég vil alveg sérstaklega biðja þennan hv. þm. og aðra, sem hugsa á svipaðan hátt, að hugsa um, hvað hér hefur gerzt á Alþ. á undanförnum árum í skattamálunum annars vegar og hins vegar afstöðu Sjálfstfl. bæði til þessara raforkumála og annarra hliðstæðra mála, sem uppi hafa verið hér á hæstv. Alþ. Og eftir að þeir athuga það, vona ég, að þeir ámæli okkur ekki, þó að við á kurteisan hátt höfum látið skína í það, að þeir væru nú að koma með þessa till. í raforkumálunum vegna þess, að kosningar eiga að fara fram í haust. Það liggur nærri, að hægt sé að sanna, að það sé af þessum hvötum. Það er ekki hægt að komast nær því að sanna þetta heldur en með því að benda á það, hvernig framkoma Sjálfstfl. var í fyrra til þessara mála og hvernig framkoma sjálfstæðismanna hins vegar er orðin nú og afstaða til þessara raforkumála.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa lengri ræður um þetta mál. Ég á ekki eftir nema aths. og veit ekki, hvort ég nota mér það, vegna þess að ég þarf að víkja frá. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að taka fleira fram í tilefni af ræðu hv. 5. landsk.