27.08.1942
Neðri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

24. mál, raforkusjóður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Í upphafi þessa máls var það tekið fram og undirstrikað af hv. 5. landsk., að okkur flm. er það mikið kappsmál að hraða afgreiðslu þessa máls og jafnvel að fá það afgreitt úr hv. d. í dag, ef hæstv. forseti sæi sér það fært. Ég ætla ekki, þar sem hv. 5. landsk. hefur gert grein fyrir afstöðu okkar til brtt., að ræða þær frekar, en vil aðeins taka undir það, sem hann sagði, að við fögnum því, að hv. fjhn. hefur talið sér fært að stíga stærri spor í þessu máli heldur en við flm. höfðum talið ráðlegt að leggja til í upphafi. Það var mjög rækilega á það bent af okkur í upphafi, að í þessu máli yrði að stíga stór skref, annað nægði ekki, og að þessar framkvæmdir gætu ekki komið til greina nema miklu fé yrði til þeirra varið. Ég get þó tekið undir það með hv. 5. landsk., að það er að vísu dálítið óviðkunnanlegt að gera ráð fyrir því í þeim l., sem um þetta verða sett, að ráðstafað verði svo verulegum hluta af tekjum ársins 1942 til þessara framkvæmda. Engu að síður viljum þið fá fram vilja hv. fjhn. og hæstv. Alþ. í hessu máli.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að ræðum þeirra hv. þm., sem rætt hafa um þetta mál. Ég verð að játa, að mig furðar á því, hvernig framsóknarmenn hafa tekið í þetta mál, og þó einkanlega hv. þm. V.-Sk. og hv. 1. þm. S.-M. Þeir koma hér fram, ekki fyrst og fremst til þess að ræða málið eða til þess að sýna fram á, hvað megi að mestu gagni verða, heldur til þess að telja mönnum trú um, að við flm. meinum ekki það, sem við segjum um áhuga okkar á framgangi þessa framfaramáls. Það skýtur skökku við, ef þessir menn ætla svo að koma til okkar, sem sitjum hér sem nýir þm., og ætla, með þessum hætti að kenna okkur, hvernig starfa eigi af ábyrgðartilfinningu á Alþingi Íslendinga.

Svo vil ég koma að nokkrum atriðum í ræðu hv. 1. þm. S.-M. Hann sagði, að við fim. frv. hefðum flutt fleiri till. um tekjuafgang ársins 1941 heldur en samrýmzt gæti hinum raunverulega tekjuafgangi. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, að við 1. umr. þessa máls benti ég fyrstur manna á það, að sá sjóður, sem stofnaður var á síðasta þingi, væri mjög vel til þess fallinn að notast til raforkuframkvæmda, því að einmitt úr honum átti að veita fé til ýmissa nauðsynlegra framkvæmda. Þessi hv. þm. sagði, að við værum að gera till. út í bláinn og vissum ekkert um það, hve mikið fé væri til í ríkissjóði til þessara framkvæmda. Ég bendi hv. frsm. á það, að það er nú komið annað hljóð í strokkinn hjá þeim heldur en við 1. umr. þessa máls. Þeir héldu því þá fram, að við værum með þessu að gera till., sem væru furðu djarflegar, að þetta fé væri líklega ekki til, og gagnrýndu frv. mjög. Svo kemur fjhn. og segir: „Við viljum ekki 5 millj., heldur 10 millj. til þessara framkvæmda.“ Svona eru þessir hv. þm. samkvæmir sjálfum sér! Hér hefur ráðið meira kapp en forsjá. Þeir hafa reynt að spilla fyrir góðu máli og reynt að mála þetta pólitískum litum.

Ég ætla svo að drepa með örfáum orðum á hinar ósvífnu staðhæfingar hv. þm. V.-Sk. um það, að fyrsta till. Sjálfstfl. hafi komið fram árið 1940 í þessu máli. Veit ekki þessi hv. þm. það, að árið 1929 flutti Jón Þorláksson till. um þetta efni? Ég ætla hér að lesa upp ummæli formanns Framsfl. þá, af því að þau sýna greinilegast fjandskap framsóknarmanna gegn þessu máli á þingi 1929. Þar stendur í Alþt., með leyfi hæstv. forseta : „Þetta frv. er ákaflega varasamt, sérstaklega í fjárhagslegu tilliti. Eftir því kann að verða farið inn á sömu brautina með rafmagnið og í berklavörnunum, að setja alla á landssjóðinn“. — Þannig leit Framsfl. á þessi mál árið 1929! — Í þessari till. Jóns Þorlákssonar koma fram tvö sjónarmið. Í fyrsta lagi, að veita þurfi bændum landsins styrk til rannsóknar í þessum efnum. Í öðru lagi er þar stefnt til beinna framkvæmda. Þá heitir þetta á máli framsóknarmanna „að setja alla á landssjóðinn“. Svo koma þessir menn hér og segjast vera brautryðjendur rafmagnsmálanna í landinu. Mér liggur við að finnast þessi orð sæmilegust um slíka menn : „Vei yður, þér hræsnarar!“ Ég segi þetta engu að síður, þó að sá, sem fremstur gengur í því að verja málið, sé vígður maður.

Ég ætla svo ekki að eltast miklu lengur við fjarstæður þær, sem hv. þm. Framsfl. halda fram um þetta mál. Þó vil ég að lokum benda á það, að þeir hafa haldið því fram, að það væri kosningasprettur hjá sjálfstæðismönnum, sem hér kæmi fram í þessu máli. Við höfum oft heyrt það áður og kippum okkur ekkert upp við það, sjálfstæðismenn. En mönnunum, sem eiga sögu sína skráða frá árinu 1929 í rafmagnsmálunum á þann hátt, sem ummæli JJ sýna, þeim ferst ekki að koma til okkar sjálfstæðismanna og saka okkur um fjandskap gegn þessu framfaramáli.

Ég vil aðeins drepa örfáum orðum á framkvæmdasjóðinn og svara þeim ásökunum, að sjálfstæðismenn séu yfirleitt á móti þeim framkvæmdum, sem sá sjóður á að renna til. Hvaða maður getur nema gersamlega rökvilltur túlkað þetta svo, þó að sjálfstæðismenn væru á móti þessari tvískiptingu ríkissjóðsins? Aðeins þetta atriði sýnir það ljóslega, hversu framsóknarmenn eru nú flæktir í sínum eigin bláþráðum.

Ég vil svo óska þess, að þetta mál gangi sem greiðast gegnum þingið, og skal því ekki hafa um það fleiri orð að þessu sinni.