27.08.1942
Neðri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

24. mál, raforkusjóður

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég á sæti í þeirri n., sem á að afgreiða þetta mál, og er sammála um það, að ef nokkuð á að gera á þessu þingi, þá eigi að gera ríflegar áætlanir um fjárframlög frá ríkinu til þessara mála. Það er talað um að leggja fram 10 millj. kr. í þessu skyni, og er það sízt of há fjárhæð, þegar tekið er tillit til þess, að nú safnast hundruð milljóna kr. erlendis og innistæður innan lands eru svo miklar, að menn eru í vandræðum með það, hvað eigi að gera við peningana. Það verður sennilega ekkert betur við þá gert heldur en að byggja upp atvinnuvegina með þeim. Eitt af því sjálfsagðasta, sem þá þarf að gera, mun vera það að auka notkun rafmagnsins í landinu og draga með því úr innflutningi á kolum, olíu o. s. frv. 10 millj. kr. er ekki há upphæð í þessu sambandi, jafnvel eitt stórvirki mundi kosta um 10 millj. kr. Ég hef áskilið mér rétt til þess að koma með brtt., en við nánari athugun hygg ég, að hún verði að bíða, því að hún er þess efnis, að hún á ekki fullkomlega heima í þessu frv. Ég geri hins vegar ráð fyrir því, að um þessi framlög muni gilda ákveðnar reglur. Við getum t. d. hugsað okkur, að héruðin leggi til 1/5 af stofnkostnaði og ríkið leggi fram og ábyrgist 2/5, eða einhverjar slíkar reglur verði settar til þess að skapa jöfnuð á milli héraðanna. Ég læt mér að þessu sinni nægja að benda á það, að hér er um mikilsvert nauðsynjamál að ræða, sem sjálfsagt er að nái framgangi, og ég ætla, að það sé ekki of mikið í lagt, þó að ríkinu sé ætlað að borga það, sem í þessu frv. er talið. Ég vil svo bara lýsa fylgi mínu við frv., en vitanlega er mikil löggjöf eftir óunnin í sambandi við þetta mál, þó að gefin sé þessi yfirlýsing, sem í frv. felst.