01.09.1942
Efri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

24. mál, raforkusjóður

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þetta nál. á þskj. 177 er ekki langt. En við þessir þrír nm., sem stöndum saman um málið, snúum okkur þó nokkuð sinn í hverja átt. Ég var sá eini, sem vildi skilorðslaust samþykkja frv. eins og það lá fyrir. Ég játa, að mátt hefði fara um það höndum til bóta, en n. hafði stuttan tíma, og komið er að þinglokum. Ég get ekki fylgt brtt. hv. þm. Seyðf. Tilgangur frv. með sjóðstofnuninni er fyrst og fremst að stuðla að því að lýsa og hita hin dreifðu býli og þar næst aðra þá staði og kauptún, sem örðugri aðstöðu hafa en kaupstaðir og stærri kauptún. Þegar þessum höfuðtilgangi væri náð, mætti víkka hlutverkið, en að svo stöddu er þýðingarlaust og í ósamræmi við fyrsta megintilgang sjóðsins að samþykkja þessa brtt. Samþykkt hennar mundi ekki skapa sjóðnum neina peninga, sem afgangs yrðu handa kaupstöðum. Það kann að vera rétt um 2–3 kaupstaði, að þeir ættu ekki sakir fjölmennis né fjárafla að vera afskiptir frekar en stærstu kauptúnin. Seyðisfjörður er t. d. ekki fjölmennur, en hann hefur nú um þrjá tugi ára haft rafveitu, og hvað sem líður þar endurnýjunarþörf, ættu þeir Seyðfirðingar að hafa haft tímann fyrir sér og búið sig undir að hressa stöðina við af eigin rammleik. Og svo óðfús hafa sum þorp verið á að fá kaupstaðarréttindi, að ég held þau færu ekki að setja þetta fyrir sig. Ég býst við, að það leiði af sjálfu sér, að í reglugerð yrði að setja það ákvæði, að stærri þorpin fengju minni stuðning og seinna en dreifðu byggðirnar, og verður það mál ekki fullrætt nú.