03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

24. mál, raforkusjóður

Eysteinn Jónsson:

Ég vildi aðeins taka það fram, að ég tek undir það með hv. þm. Borgf., að aðalatriði þessa máls og eini tilgangurinn með þessu frv. er að tryggja, að þessar l0 milljónir séu lagðar til hliðar. Og ég held, að við getum orðið sammála um það, að það er alveg óútkljáð mál af hálfu hæstv. Alþ., hvernig þessum 10 millj. kr. verði varið til þess að létta undir með sveitunum í rafmagnsmálunum. Það er eftir að ganga frá ráðstöfunum á þessu, áður en farið er að leggja fram fé úr þessum sjóði. Það er því ekkert annað í þessu frv. ákveðið en að leggja til hliðar peninga. Svo er sagt á öðrum stað, hvaða staðir geta komið til greina, þegar farið verður að leggja fram fé úr sjóðnum. Og svo var það sett inn í frv. í hv. Ed., að smærri kaupstaðir geti komið til greina í þessu sambandi. Það vakir fyrir mér, að þegar farið verði að ráðstafa fé úr sjóðnum, þá verði aðstaðan sú sama í þessum málum og nú, og hafi einhverjir kaupstaðir svo góða aðstöðu, að þeir þurfi ekki að fá neitt til þess að geta leitt til sín eða framleitt rafmagn hjá sér, eigi þeir ekki að koma til greina. Þeir eiga að koma til greina í þessu sambandi, sem rannsókn leiðir í ljós, að eigi að fá hjálp úr þessum sjóði. Þessi löggjöf á því aðeins að vera rammi. Það vakir fyrir sumum hv. þdm., sem komið hefur fram í sambandi við annað mál, að þessum málum verði komið svo fyrir í framtíðinni, að hægt verði að selja við sama verði rafmagn í dreifbýlinu eins og í kaupstöðunum. Þess vegna vil ég, að þetta verði samþ. nú, en svo komi þeir ekki til greina, nema sem hafa lakari aðstöðu, en hinir, sem betri aðstöðuna hafa, verði að láta sér nægja ábyrgð. Ég hugsa mér, að sú aðferð verði tekin upp í þessu máli, að settar verði á fót rafveitur fyrir heila landshluta. Það getur komið til mála og er sennilega skynsamlegast, að ríkið reisi þær rafstöðvar og inn í þær rafveitur geta komið sveitir, kauptún og kaupstaðir, eftir ástæðum. Það er augljóst, að þessi l. eru aðeins rammi, sem verður að fella inn í síðar. Og ég vil, eins og hv. þm. Borgf. (PO), að menn fari ekki út í langar deilur um þetta nú, því að aðalatriðið er að nota peningana í þessu skyni, en svo þarf að setja seinna nánari löggjöf um það, hvernig þeim verði varið, til þess að jafna aðstöðumuninn, sem er hjá landsmönnum í rafmagnsmálunum.