03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

24. mál, raforkusjóður

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Þeir, sem hafa mælt móti brtt. minni, hafa margir gert mikið úr því, að með því væri málinu stefnt í mikla hættu. Ég get ekki fallizt á, að þetta sé rétt, því að það er komið í ljós, að það er almennur vilji fyrir, að frv. nái fram að ganga, og er áreiðanlega auðvelt að fá frv. tekið á dagskrá í Ed. og fá það þar afgr. við eina umr.

Ég er sammála hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. S.-M. að aðalatriðið er að fá þessar 10 millj. kr. En eins og hv. þm. V.-Sk. tók fram, þá er engin trygging fyrir, að þetta fé verði geymt, þar til allsherjarlöggjöf um raforkumál hefur verið sett. Það gæti verið, að því yrði eytt á þessu eða næsta ári. Þess vegna þarf heildarlöggjöf í þessu efni, áður en farið er að ráðstafa fé úr sjóðnum. Ég vil benda á, að fyrir þinginu liggur þáltill. um að skipa n. til að undirbúa slíka löggjöf og gera till. um fjáröflun til að koma rafmagni sem víðast um landið. Það er ekki vitað, hvernig þeirri till. reiðir af, því að hún er ekki enn komin lengra en til fyrri umr. á fundinum í gær, og var þá eftir að greiða atkv. um hana við þá umr. Það er því ekkert hægt um það að segja, hvenær slík heildarlöggjöf verður sett. Aðalatriðið er því nú að tryggja, að þessu fé verði ekki eytt, þar til gengið hefur verið frá heildarlöggjöf um þetta efni. Ef þeir hv. þm., sem hafa á móti brtt. minni, vildu breyta 4. gr. frv. þannig, að í stað þess, að þar stendur nú, að ráðh. skuli setja reglugerð um starfsemi sjóðsins, komi að fénu skuli ekki ráðstafað, fyrr en heildarlöggjöf hefur verið sett um þetta efni, þá get ég fallizt á að taka brtt. mína aftur. Eins og frv. er nú, þá er ráðh. skylt að setja reglugerð um notkun sjóðsins, og þá má gera ráð fyrir, að þeir staðir, sem nú eru bezt undirbúnir til rafvirkjunarframkvæmda, sem eru óefað kaupstaðirnir, mundu fyrstir verða til að njóta framlaga úr sjóðnum, en það er ekki fyrst og fremst tilgangurinn með þessu frv.