03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

24. mál, raforkusjóður

Eysteinn Jónsson:

Ég skal taka fram, að mér hefur yfirsézt, þegar mig minnti, að Nd. hefði gengið þannig frá frv., að fé yrði ekki varið úr sjóðnum, fyrr en Alþ. hefði sett um það nánari fyrirmæli. Það var þannig í þeim brtt., sem ég lagði fram í fjhn. f. h. framsóknarmanna, en ég tók ekki eftir, að það hafði fallið úr till., svo að ekkert var í frv. um það, að það skyldi l. bundið, hvernig skyldi farið með þetta fé. Ég held, að það séu ekki nema tveir kaupstaðir, sem gætu komið til greina með rafvirkjunarframkvæmdir nú sem stendur. (SkG: Þeir geta orðið 7 eða 8.) Ég sé ekki, að það breyti verulegu. En þá er um tvennt að ræða: Að setja inn í frv. ákvæði um, að fé skuli ekki eytt úr sjóðnum, fyrr en Alþ. hefur sett um það nánari ákvæði, eða að fá nú yfirlýsingu frá hæstv. ríkisstj. um, að engu fé verði eytt úr sjóðnum, fyrr en löggjöf hefur verið sett um það, væntanlega á næsta þingi. Annars sé ég ekki, að það þurfi að tefja málið, þó að þessu verði breytt nú, ef menn eru sammála um, að málið skuli ná fram að ganga, og vil ég benda þeim á það, sem eru sérstaklega fyrir kaupstaðina, að ég gæti flutt slíka till. og teldi hana eðlilega, og þá með það fyrir augum, að menn sameinist um að tefja alls ekki málið.