27.08.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Ég hef flutt hér í Sþ. á þskj. 13 till. um siglingar með ströndum fram. Henni var vísað til fjvn. fyrir nokkru síðan, og af því að mér er áhugamál, að hún hljóti afgreiðslu, vildi ég spyrja, hvort ekki væri von á nál. frá n. án tafar, því að eins og heyra mátti á orðum hæstv. forseta, dregur nú að þinglokum. Ef form. fjvn. er ekki viðstaddur, langar mig til að heyra um þetta mál frá einhverjum nm.

Þá langaði mig að beina því til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki taka á dagskrá næsta fundar till. á þskj. 19 um raforkumál, því að ég hef orðið þess var, að margir fylgja þessu máli og það ætti ekki að þurfa að taka langan tíma, ef það væri á dagskrá.