12.08.1942
Efri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (665)

9. mál, orlof

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég leyfi mér að lýsa fylgi mínu við málið í heild, því að það er ljóst af reynslunni, að sumarfrí starfsfólks er til hagsbóta fyrir vinnuveitendur ekki síður en vinnuþiggjendur. En ég vek athygli á, að nauðsynlegt er að gera greinarmun á því, hvort slíkt orlof kæmi fram sem raunverulegt frí þeirra, sem eiga að njóta þess, eða þeir nota sér það til kauphækkunar. Ég veit til þess, að menn hafa notað leyfistíma sinn til þess að hækka laun sín í stað þess að nota hann sér til heilsubótar, en atvinnurekendur telja hins vegar miklu skipta, að starfsmenn noti fríið.

Þá vil ég spyrja hv. aðalflm., hvort hann hafi athugað, hvaða stétt í landinu muni einna helzt þurfa á þessu orlofi að halda, en það eru að mínum dómi konur verkamanna, sem vinna ekki 12–14 klukkustundir á dag, heldur 18–20 stundir. Og svo er önnur stétt, sem ég held, að hv. 9. landsk. sé ekki nógu kunnugur, en það eru bændur. Það er rangt að segja, að þessir menn séu atvinnurekendur, því að þeir eru oft ekkert annað en verst launuðu verkamennirnir í landinu. Þeir væru ekki að yfirgefa býli sín og leita sér atvinnu í bæjunum, eins og oft á sér stað, ef þeir héldu ekki, að þeir væru að skapa sér betri lífskjör með því. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, og ég held, að það verði engan veginn leyst með því að tryggja einni stétt frí, en ekki annarri, sem hefur þess þó enn meiri þörf, ef miðað er við almenna heilsuvernd og mannréttindi. Ég vil því leyfa mér að skjóta því hér fram til athugunar, hvort ekki muni vera hægt að gera eitthvað til að tryggja það, að þessar stéttir verði ekki útundan.