12.08.1942
Efri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (666)

9. mál, orlof

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Ég finn áslæðu til að þakka þeim hv. þm., sem tekið hafa til máls um þetta undirtektir þeirra. Þær gefa mér bjartar vonir um, að málið geti hlotið afgreiðslu á þessu þingi. Ég finn ekki ástæðu til að andmæla neinu í ræðum þeirra, en út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, skal ég taka það fram, að ég er sammála honum um það, að sú stétt, sem hann nefndi fyrst, konur verkamanna, á ef til vill fyllstan rétt á orlofi, þó að ég sé hræddur um, að erfitt verði að koma ákvæðum um það inn í þetta frv., því að það er byggt á þeirri meginhugsun, að launþegar taki orlofið fyrir sitt strit og kostnaður við það sé greiddur af atvinnurekendum. Og mikið af þessu fólki er vitanlega konur. Hins vegar er mikill hluti kvenna húsmæður, og er vitanlega full ástæða til, að þeim sé veitt orlof af þjóðfélagsins hálfu. Hv. þm. tæpti á því, að þetta gæti heyrt undir heilsuvernd, og höfum við Alþfl.menn gert till. um slíkt hér á Alþ. Hins vegar býst ég ekki við, að það sé á færi okkar í allshn. að fara að gerbreyta svo þessu frv., að hægt sé að láta það ná til fólks, sem heyrir ekki til launþegastéttum. En ég vona, að það verði eitt af verkefnum hins íslenzka menningarþjóðfélags að sjá svo um, að konum verði veitt frí frá þeirri þrælkun, sem þær eiga margar hverjar við að búa.

Um bændur er það að segja, að það er hverju orði sannara, að þeir, sem eru einyrkjar, vinna oft nótt með degi. En það er hæpið að koma ákvæðum um orlof þeim til handa inn í þetta frv., þar sem þeir teljast ekki launþegar. Það verður því að finna aðrar leiðir til þess að tryggja það, að þeir geti notið nokkurra orlofs og hvíldar.

Að lokum minntist hv. þm. á, að það væri ekki aðeins nauðsynlegt frá sjónarmiði verkamannsins sjálfs, að hann tæki sér orlof, heldur einnig frá sjónarmiði atvinnurekandans, og væri því nauðsynlegt að hafa einhverja tryggingu fyrir því, að þeir menn, sem fengju orlof, notuðu það sér til heilsubótar. Þetta er rétt, og ætlumst við til þess, að þetta sé tryggt, enda eru beinlínis sett viti við því, ef orlofið er ekki notað eins og ráð er fyrir gert.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en þakka þær viðtökur, sem frv. hefur hlotið.