12.08.1942
Efri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (667)

9. mál, orlof

Eiríkur Einarsson.:

Ég get tekið í streng með þeim mönnum, er hér hafa talað um nauðsyn þessa máls. En það, sem olli því, að ég reis úr sæti mínu, var það, að ég vildi vekja athygli n. þeirrar, er fær málið til meðferðar, á því, að eitt atriði í starfsafstöðu vinnuveitenda og vinnuþiggjenda er ekki tekið hér til greina, eins og nauðsynlegt væri. Ég á hér við afstöðu milli hjúa og húsbænda í sveitum. Það hefur verið tekið hér fram af fullum skilningi, að sveitakonunni sé full nauðsyn á orlofi, og unna henni allir þess. En víða í sveitum hagar svo til, að kona er ein með stóran barnahóp og hefur ef til vill eina vinnustúlku sér til hjálpar. Þessari einu vinnustúlku er nú ekki síður þörf hvíldar og hressingar en öðrum, en oft getur staðið svo á, að heimilið kæmist í mestu vandræði, ef hún yfirgæfi það. Svipað getur átt við um vinnumann á sveitaheimili með hliðsjón til húsbóndans. Þetta segi ég ekki af því, að ég unni ekki þessu fólki orlofs. Það er ósköp elskulegt til þess að hugsa, að allur landslýður gæti átt þess kost að njóta slíks frelsis. En ég vildi aðeins benda á það, að nauðsynlegt er að samræma þessa löggjöf svo, að hvergi brjóti í bága við þær höfuðnauðsynjar, sem fyrir hendi eru, án þess ég vilji þó á nokkurn hátt trufla tilgang frv.