12.08.1942
Efri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (670)

11. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Flm. (Haraldur Guðmundsson) :

Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. skuli greiða 25% uppbætur á útborguð laun embættismanna og starfsmanna ríkisins. En útborguð laun eru þau laun, sem greidd eru á hverjum tíma, samanlögð grunnlaun og verðlagsuppbót, og ef í þeim tilfellum er um að ræða gamla dýrtíðaruppbót, er hún einnig talin með. Þó er ekki gert ráð fyrir því, að þessi uppbót verði greidd á hærri laun en 12 þús. kr. árslaun. Ég skal taka það fram, að í mínum augum er það ekkert aðalatriði, hvort miðað verður við 25% eða einhverja aðra upphæð. Ég get fyrir mitt leyti fallizt á það, að upphæðin verði mismunandi eftir því, hvar launastaðurinn er. Í þessu sambandi mætti hugsa sér, að farið yrði eftir vissum launastiga. Það, að ég hef gert ráð fyrir 25%, stafar af því, að það mun vera nærri þeirri hækkun, sem almennt er komin á hjá iðnaðarstéttum, sem hafa sambærileg launakjör við þá starfsmenn, sem hér um ræðir. — Í þessu frv. er það ekki ákveðið, hvað lengi l. skuli gilda, heldur er gert ráð fyrir því, að þessi ákvæði gildi þangað til endurskoðun launalaganna hefur farið fram. Það mun almennt vera litið á þetta mál sem sjálfsagða lagfæringu á launakjörum opinberra starfsmanna, það þarf því ekki að eyða mörgum orðum að því, hve réttlátar kröfur þessara starfsmanna eru. Þær launahækkanir, sem orðið hafa á þessu ári hjá fjölmörgum launastéttum í landinu, hafa gert það ósamræmi, sem fyrir var, enn tilfinnanlegra en áður. Sú hætta vofir yfir, að þeir af starfsmönnum hins opinbera, sem flestar leiðir eru opnar, hverfi úr opinberri þjónustu og leiti til annarra starfsgreina, sem betur eru launaðar. Það liggur því í augum uppi, hvílíkur voði væri á ferðum, ef þeir menn, sem bezt eru nýtir til starfa hjá hinu opinbera, hyrfu burtu úr opinberri þjónustu. Auk þess er það alveg viðurkennt, að launakjör mikils þorra þessara embættismanna eru svo léleg, að þeir geta tæpast lifað af þeim, nema með því móti að stunda aukavinnu, en það má hverjum manni ljóst vera, að slíkt eru óviðunandi launakjör.

Ég skal geta þess, að ég tel alveg sjálfsagt, ef þetta frv. verður samþ., að það verði einnig látið ná til þeirra manna, sem laun taka hjá eftirlauna- og lífeyrissjóði barnakennara. Alþ. hefur áður viðurkennt, að sjálfsagt sé að veita dýrtíðaruppbót á þessi laun.

Ég geri ráð fyrir, að Tryggingarstofnun ríkisins mundi þá leggja til við ríkisstj., að hámarkið, sem nú er sett fyrir framlagi til örorkubóta á einstakling, sem tryggingarstofnunin tekur þátt í að greiða, verði einnig hækkað í svipuðu hlutfalli. Ég vil geta þess, að í Nd. er flutt af tveimur þm. frv. í sömu átt og þetta. Og ég teldi æskilegt, að n. beggja d. hefðu samráð um afgreiðslu málsins, þannig að ekki þyrfti að tefja, þótt tvö mál væru á ferð sitt í hvorri d.