12.08.1942
Efri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (671)

11. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vil taka undir það með hv. þm. Seyðf., að nauðsyn ber til þess, að n. beggja d. hafi með sér samvinnu, til þess að það gæti orðið eitthvert samkomulag um sameiningu á till., sem fluttar eru í þessum frv. báðum.

En viðvíkjandi því, hverja nauðsyn ber til að hækka laun opinberra starfsmanna, þá er ég á því, að það allra minnsta, sem hægt er að láta sér detta í hug, að nægi, sé 30%. Það er kunnugt, að launakjör sumra lægst launuðu opinberra starfsmanna eru mjög bágborin og meira að segja óviðunandi fyrir stríð, t. d. laun barnakennara. Eins er það kunnugt, að ýmsir starfsmenn ríkisins, sem ekki er hægt að komast af án og vinna þjóðnauðsynlegt starf, eru svo lágt launaðir, að þessi fyrirtæki eru óstarfhæf. Það kann vel að vera, að 25% sé sambærilegt við þá grunnkaupshækkun, sem ýmsir hafa fengið. En þá verður að gæta þess, að þessir opinberu starfsmenn hafa ekki fengið þá tekjuaukningu, sem felst í miklu meiri vinnu, sem iðnaðarmenn og aðrir verkamenn hafa, heldur en fyrir stríð. Auk þess er grunnkaupshækkunin miklu meiri en 25% hjá mörgum iðnaðarmönnum, t. d. járnsmiðum, sem hafa fengið allsherjar 25% hækkun í ofanálag við hækkun á grunnkaupi í vetur. Og ég geri ráð fyrir, að ef almennir samningar takast um launahækkun, þá verði það víðar, sem grunnkaupshækkunin verður meiri en 25%, a. m. k. hjá þeim, sem eru sambærilegir við þessa starfsmenn.

Vegna þess, hve mikil er nauðsyn þess að hækka verulega kaun þeirra lægst launuðu, finnst mér eðlilegt, að gerður verði talsvert mikill munur á kaupuppbót þeirra og hinna, sem eru hærra launaðir. Og það er ósköp auðvelt að koma því þannig fyrir, að ekki þurfi að verða neinn árekstur, eins og hv. þm. Seyðf. talaði um, að gæti átt sér stað, t. d. að þeir, sem eru í lægri launaflokki, kæmu upp fyrir hina. Í frv., sem liggur fyrir Nd., getur þetta ekki, komið fyrir, því að þar er ákveðið, að launauppbótin sé 30% upp að 6 þús. kr., síðan lægri uppbót á það, sem fram yfir er, allt upp í 9 þús. kr., þannig að í engum kringumstæðum getur komið til mála, að menn, sem eru í lægri launaflokki, komist upp fyrir þá, sem eru í hærri launaflokki.