12.08.1942
Efri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (672)

11. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Hermann Jónasson:

Ég ætla ekki að ræða mikið um þetta mál. Það hefur ekki verið tekin nein afstaða í Framsfl. til þessara till. tveggja, sem fram hafa komið um hækkun á launum embættismanna. Ég sakna þess mjög að fá ekki að heyra neitt frá ríkisstj. um þetta mál og að hún skuli ekki vera viðstödd. Því að 20–30% hækkun á laun embættismanna er ekkert smámál, það skulu menn gera sér ljóst. Framan af þessari styrjöld hefur verið farið illa með embættismenn, og þingið hefur gert það vegna þeirrar stjórnmálastefnu, sem átti þá að vera almenn, að halda niðri dýrtíðinni. Var því fylgt þeirri reglu að draga af launum þeirra, eins og lengst af gilti gagnvart öðrum stéttum, svo sem Alþ. er kunnugt og ekki þarf hér að rekja.

En það, sem ég vildi heyra frá hæstv. ríkisstj., er það, hvort ekki hafi verið tekið til almennrar athugunar að breyta launal. og rannsaka málið í heild, sem oft var rætt um í fyrrv. ríkisstj. og óskað eftir af hálfu okkar framsóknarmanna í stj. Það verður náttúrlega lítið sagt með vissu um, hvert horfir nú, en eftir útlitinu í dag lízt mér svo á, að í raun og veru sé sá stórgróðatími, sem hér er verið að tala um í þessum till., liðinn hjá. Mér virðist, að því miður geti svo farið áður en langt líður, að erfiðleikar byrji fyrir framleiðsluna. Ég get ekki annað séð en þegar skornir verða niður aðflutningsmöguleikar okkar um helming frá 1. september, ef ekki tekst að fá Bandaríkjastj. til að hverfa frá þeirri ákvörðun, þá skorti hráefni til framkvæmda. Og þá er ekki í nema tvö hús að venda fyrir þá, sem vantar vinnu, til hins opinbera og til aðalatvinnuveganna. Og verðlag er nú þegar orðið svo hátt, að atvinnuvegum, sem bezt hafa borið sig, er nóg boðið. Þætti mér ekki ólíklegt, að á næsta ári yrðu verulegir erfiðleikar að framleiða í ýmsum atvinnugreinum. Það gæti þess vegna farið svo, að sá áhalli, sem verið hefur milli ýmissa stétta og opinberra starfsmanna, sem venjulega hafa verið illa launaðir, en voru þó ekki verr settir en framleiðslumenn fyrir stríð, sé nú í raun og veru að hverfa, þegar við erum að gera þessa breyt. með æði mikilli bjartsýni. Þetta launamál embættismanna allt í heild þarf því athugunar við, en ekki, að við göngum þannig frá því, að einn þm. stingi upp á 25%, annar við hliðina á honum 30%, — og sennilega einhver þar næstur 35%.