13.08.1942
Efri deild: 6. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (676)

22. mál, framfærslulög

Flm. (Brynjólfur Bjarnason) :

Árið 1939 var gerð mikil breyt. á framfærslul. Ein breyt. var á 51. gr., sem fjallar um vinnuskyldu framfærsluþurfa. Þetta frv. er flutt til þess eins að fá þessari gr. breytt. Ég hef áður oftar en einu sinni flutt hér í d. frv. um mjög ýtarlegar breyt. á framfærslul. í heild. En ég hef ekki viljað það á þessu þingi, sem er ætlað að vera stutt. Hef ég því látið mér nægja að flytja till. um þessa gr., að ákvæðið um bjargráðan. verði fellt niður. Ég álít þessa breyt. ekki þurfa að valda miklum heilabrotum, vera svo sjálfsagða, og þar að auki sé þetta hlutur, sem þoli enga bið. Gr. var sett inn 1939 samtímis því, að bjargráðan. var sett, og lagaákvæði um hana var sett sem bráðabirgðaákvæði í framfærslul. Tilgangurinn með þessum samhliða verkefnum, sem bjargráðan. átti að hafa, var ekki annað en það að nota sér neyð styrkþega til þess að fá þarna ódýrt vinnuafl, og eftir því, sem kostur er til, að þrýsta niður kaupi. Þetta var á tímum „höggormsins“, og þetta ákvæði var ekki annað en einn höggormsunginn. Nú er ástandið svo gerbreytt frá því, sem þá var, að það er ekki hægt að beita vinnufæra menn slíkri kúgun sem þá var til ætlazt. Þessi lagagr. hefur því fyrst og fremst gildi sem minnisvarði yfir stefnu afturhaldsins, þegar hún var í mestum algleymingi 1939, og ég tel engum sóma að því, að sá minnisvarði standi lengur.

Ef þetta ákvæði er látið haldast áfram, er ekki hægt að skilja það öðruvísi en yfirlýsingu Alþ. um það, að svona kúgunarráðstöfunum sé beitt aftur, þegar tækifæri gefst til.

Hér í þessari brtt. okkar er lagt til, að þessi 51. gr. sé færð í það horf, að sveitarstjórnum sé skylt að sjá vinnufærum styrkþegum fyrir viðunanlegri vinnu, eftir. því sem unnt er, og enn fremur, að styrkþega sé skylt að taka þessari vinnu, svo framarlega sem hann hafi ekki frambærilegar ástæður, sem hér eru taldar. Í fyrsta lagi, að hann þoli ekki vinnuna samkv. læknisvottorði. Eins og nú er, duga ekki læknisvottorð, aðeins geðþótti sveitarstjórnanna. Í öðru lagi nær það ekki nokkurri átt að láta vinnufæran mann fara í annað landshorn, ef svo stendur á, að veikindi eru heima hjá honum, t. d. á barnmörgu heimili að reka þá heimilisföðurinn á annað landshorn. Það er slík harðýðgi, að ekki getur komið til mála að leyfa það í l. Í 3. lagi, að vinnan sé ekki í hans fagi. Í 4. lagi, að atvinnan sé léleg og skammvinn og nægi ekki til lífsframfæris, en gæti orðið til þess, að hann yrði af betri vinnu annars staðar.

Það eru satt að segja ákaflega mörg dæmi til þess, að þetta ákvæði. um vald sveitarstj. yfir styrkþegum hefur beinlinis verið notað þannig, að styrkþegar hafa verið settir í vinnu, sem hefur haft af þeim aðra betri vinnu, — eins eða tveggja daga vinnu í nágrenni bæjarins á þeim tíma, þegar maðurinn hafði beztu möguleika til að fá t. d. margra daga vinnu við uppskipun hér við höfnina. Allir, sem kunnugir eru Rvík, þekkja þessa mýmörg dæmi.

Ég sé nú ekki, að aðrar reglur um vinnu styrkþega en þessar geti komið til greina. þ. e. a. s., ef á að líta á styrkþegana sem frjálsa menn, en ekki sem þræla. Ég vil svo mælast til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og n., og reynt að hraða afgr. þess sem mest.