26.08.1942
Efri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (687)

65. mál, notkun byggingarefnis

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Ég get út af fyrir sig ákaflega vel skilið þær aths., sem hér eru komnar fram. Og ég hafði vitanlega hugleitt það, þegar ég bar frv. fram í þessari mynd, hvort með þessu yrði hallað á sveitirnar eða kaupstaðina og kauptúnin úti um land. Og ég hugði, að það mundi ekki verða, þó að það sé rétt, að menn hér viti bezt, hvar skórinn kreppir að í Rvík, og getur verið, að frv. sé nokkuð miðað við það. En ég er fús til að ræða um breyt. á frv., sem gætu orðið til bóta. Mig furðar nokkuð á því, að hv. þm. Str. (HermJ) skuli ekki hafa viljað ræða um þetta efni við okkur í n. Þó er vitanlega hins vegar ekki víst, að við mundum hafa fallizt á till. hans, þar sem ég veit ekki, hverjar þær eru. Við skulum vona, að samkomulag verði um málið að lokum.

Það er eðlilegt, að sveitarstjórnirnar hafi hér mikla íhlutun um, vegna þess að þær hljóta að vita bezt um það á hverjum stað, hvar þörfin er brýnust um notkun byggingarefnis. Þess vegna tel ég óeðlilegt að setja inn í frv. ákvæði, sem geri það að verkum að rýra eða fyrirbyggja með öllu áhrif sveitarstjórnanna á þessi mál. En á hitt er skylt að benda, að því fer fjarri, að eftir frv. hafi sveitarstjórnir nokkurt úrskurðarvald í þessu efni. Í fyrsta lagi er það, að þessi fulltrúi ríkisins, sem á að eiga sæti í n., á að vera fulltrúi alls landsins í heild. Og ef þessa tvo menn greinir á, fer það undir úrskurð ráðuneytisins. Vænta má þess, að slíkur ágreiningur komi ekki fyrir nema tiltölulega sjaldan.

Vitanlega hefur engum komið í hug, að hér í Rvík væri stöðvað allt byggingarefni, sem hér er skipað upp eða kemur hér í höfnina. Mikill hluti þess hlýtur að fara út á land. Enda er gert ráð fyrir, að gjaldeyris- og innflutningsn. miði við það, hvar nota eigi efnið að verulegu leyti. Frv. miðar fyrst og fremst að því, að fylgzt sé með því, hve mikið byggingarefni sé til ráðstöfunar á hverjum stað, eftir þeim ramma, sem gjaldeyris- og innflutningsn. hefur sett. Og ég býst við, að það þurfi ekki nánara eftirlit með þessu heldur en verið hefur hingað til. Tilætlunin er alls ekki að hindra, að flutt sé byggingarefni héðan úr Reykjavík til nauðsynlegra framkvæmda úti um land. Slíkt væri fjarstæða og liggur alls ekki bak við flutning þessa frv., enda þótt vera kunni, að einhverja aðra skipun megi hafa um þetta heldur en nákvæmlega þá, sem ráðgerð er í frv.

Ég vil gera mitt ýtrasta til þess, að samkomulag verði um afgreiðslu þessa máls, jafnframt því að ég óska, að afgr. þess verði hraðað eftir föngum, vegna þess að ég tel brýna nauðsyn þess, að málið verði afgreitt á þessu þingi.