26.08.1942
Efri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (691)

65. mál, notkun byggingarefnis

Jónas Jónsson:

Ég vildi aðeins bæta því við, út af ræðu hv. 5. þm. Reykv. (BBen), að ég held, að það sé mjög eðlilegt, sem hann stingur upp á, — en það kemur á seinna stigi málsins, — ég tel fullkomlega eðlilegt, að a. m. k. bæjarfélög hafi hvert á sínum stað ráð á því, hvernig því byggingarefni verði ráðstafað, sem til þeirra er úthlutað. En ég álít, að landsnefnd eigi fyrst að skipta efninu, og svo gætu bæjarstjórnir og sveitarstjórnir, eða n., sem þær settu, skipt efninu milli þeirra, sem eru innan þeirra sveitarfélaga eða bæjarfélaga, og mætti taka fram í l., að ekki mætti nota byggingarefni í neitt nema til bráðra nauðsynja.

Það er ekki ásökun til hv. 5. þm. Reykv., þó að ég taki það fram, að það var ekki meira byggingarefni til í Skagafirði nú fyrir skemmstu en svo, að skólastjórinn á Hólum gat ekki fengið efni í ofurlitla skógargirðingu. Hér er notað ákaflega mikið af byggingarefni nú, og þess vegna er von, að þm. dreifbýlisins álíti, að svona megi það ekki lengur til ganga. Enda er með þessu frv. borgarstjórans í Rvík okkur hinum rétt hönd um að leysa þetta vandamál á skynsamlegan hátt. Og ég álít, að fyrir 3. umr. eigi að finna fyrirkomulag, sem menn sætti sig við almennt.